26.10.1966
Sameinað þing: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í D-deild Alþingistíðinda. (2578)

27. mál, Vesturlandsvegur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. gat ekki stillt sig um það að taka svolítið hliðarstökk, þegar hann talaði um 47.1 millj. kr. Hv. þm. veit, að vegasjóður hefur einskis misst í enn sem komið er, þótt þessi 47.1 millj. sé ekki á fjárl., vegna þess að vegasjóði var aflað tekna með öðrum hætti fyrir yfirstandandi ár, og það er ekki enn tímabært að segja það, að vegasjóður hafi tapað, enda þótt þessar 47 millj. séu ekki nú á fjárl. Það gæti vel verið, að það væri hægt að segja það síðar meir, ef vegasjóður væri snuðaður um þá upphæð eða sem því svaraði.

Hv. þm. og ég erum alveg sammála um þörfina á því að gera Vesturlandsveg eins og Austurveg. Hv. þm. veit, hvers vegna lántökuheimildin var ekki notuð, eftir að ég hef lesið bréf vegamálastjóra, sem gerir alveg glögga grein fyrir því. Ég held, að það sé ekki sanngjarnt að ásaka verkfræðinga vegagerðarinnar um það, að þeir starfi ekki vel að framkvæmdum og vinni langan vinnudag. Hv. þm. gerði það sennilega ekki, en eigi að síður harmaði hv. þm. það, að undirbúningurinn hafi dregizt á langinn. En enda þótt við séum oft að tala um, að vegirnir séu slæmir yfirferðar og mikil þörf sé á auknu fjármagni til vega, er það þó staðreynd, að vegaframkvæmdir eru mjög miklar um allt land og miklu meiri en hefur verið oft áður. Þessar framkvæmdir þurfa aðilar mikinn undirbúning. Og í sambandi við Vesturlandsveginn má minna á, að það þurfti að velja nýja línu undir veginn, það þurfti að semja við skipulagsnefndir Reykjavíkurborgar og Mosfellshrepps um svæðisskipulag, og það tekur alltaf sinn tíma. Það tekur alltaf langan tíma. og það getum við öll viðurkennt, án þess að hafa nokkra ásökun í garð eins eða annars. Það er staðreynd, að undirbúningur verður tilbúinn næsta ár til þess að hefja framkvæmdir á Vesturlandsvegi, ef fé er fyrir hendi, og það er einnig rétt, sem áður hefur verið sagt, að það er nú í athugun hjá ríkisstj., hvernig með þessi mál verður farið.