26.10.1966
Sameinað þing: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í D-deild Alþingistíðinda. (2582)

203. mál, störf tveggja nefnda til að rannsaka atvinnuástand á Norðurlandi

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fyrir 2 1/2 ári var samþykkt hér á Alþingi að fela ríkisstj. að skipa n. til þess að rannsaka atvinnuástand í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem vinna, væri ónóg, og gera till. til úrbóta. Skömmu síðar skipaði ráðh. 5 menn í n. Tók n. þegar til starfa, og sumarið 1964 fréttist af n. hér og þar á Norðurlandi. Átti hún ýtarleg viðtöl við forustumenn sveitarfélaga, atvinnurekendur, verkalýðsleiðtoga og sankaði að sér margs konar upplýsingum. Hvarvetna, þar sem n. fór um, vakti hún þær vonir, að senn yrðu gerðar öflugar ráðstafanir til að bæta úr atvinnuleysi og stöðva öfugþróun þessara byggðarlaga.

Haustið 1964, þegar þing kom saman, lagði ég fsp. til ráðh. um störf þessarar n. og fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstj. Var þá dreift til þm. fjölrituðu hefti með bráðabirgðaskýrslu nefndarinnar, og fjallaði þessi skýrsla um ástandið á vestanverðu Norðurlandi. Engar beinar till. komu fram í skýrslu nefndarinnar. Hæstv. iðnmrh., sem svaraði fsp., sagði þá orðrétt, með leyfi forseta:

„Þetta er lagt fram sem bráðabirgðaálit, og í því felst í raun og veru, að n. telur sig eiga eftir að skila fullnaðaráliti og till. í málinu, eins og verkefni hennar var.“

Ráðh. bætti því við, að þegar n. hefði skilað sínu endanlega áliti, mundi ríkisstj. byggja ákvarðanir sínar á þeim niðurstöðum, og hann bætti við orðrétt: „Og á það verður lögð áherzla, að það geti orðið svo skjótt sem verða má.“

Svo ég fari nú fljótt yfir sögu, er skemmst frá því að segja, að síðan hæstv. ráðh. lýsti því yfir hér á Alþingi, að nú ætlaði n. að gera till. um úrbætur og ríkisstj. að bregða skjótt við, hefur ekkert heyrzt frá þessari n., hvorki hósti né stuna. Norðlendingar hafa beðið þolinmóðir í 2 ár, en ekkert hefur spurzt til n. Hún virðist hafa horfið sporlaust niður í jörðina og af hvaða orsökum veit enginn. (Gripið fram í.) Hvarf nefndarinnar frá þýðingarmiklum störfum hefur orðið Norðlendingum nokkur ráðgáta, og má segja, að þeir séu ýmsu vanir í þeim efnum, enda minna þessi einkennilegu örlög nefndarinnar einna helzt á hvarf séra Odds frá Miklabæ.

Nú í sumar gerðust svo þau tíðindi, að ný sendinefnd kom í heimsókn til Norðlendinga að frumkvæði stjórnarvaldanna. Þessi sendinefnd var frá Efnahagsstofnuninni, og kvaðst hún hafa nákvæmlega sama hlutverk og sú fyrri: að rannsaka ástandið og gera till. til úrbóta. Aðspurðir kváðust nefndarmenn ekkert vita, hvað hefði orðið um fyrri nefndina og störf hennar. Síðan hófu þeir rannsóknarstörf með sama hætti og fyrri nefndin, ferðuðust stað úr stað, kölluðu fyrir sig forustumenn sveitarfélaga og ræddu við atvinnurekendur og leiðtoga verkalýðsfélaga.

Eins og allir vita, eru Norðlendingar gestrisnir menn og góðir heim að sækja, og þeir hafa auðvitað ekkert á móti því að fá gáfaða, og skemmtilega nefndarmenn í heimsókn annað hvert ár. Og þeir þurfa áreiðanlega ekki að kvarta yfir því, að atvinnuvandamál þeirra hafi ekki verið athuguð gaumgæfilega og rannsökuð til hlítar. En hinu er ekki að leyna, að ýmsa er farið að lengja eftir einhverjum árangri af öllum þessum nefndarstörfum. Vandamálin bíða úrlausnar, og fyrir mörgum árum var þörf á tafarlausum ráðstöfunum. Nú er sem sagt kominn tími til að upplýsa, hver beri ábyrgð á þessum dularfullu vinnubrögðum. Þess vegna spyr ég: Hví hefur enginn sýnilegur árangur orðið af störfum stjórnskipaðrar nefndar, sem fyrir rúmum 2 árum ferðaðist um Norðurland til að rannsaka atvinnuástand þar og gera till. til úrbóta? Og hví hefur ekkert spurzt til þessarar n. í 2 ár?

Sendinefndin, sem ferðaðist um Norðurland í sumar, tilkynnti, hvar sem hún fór, að á grundvelli þeirra upplýsinga, sem hún var að safna, yrði samin svo kölluð Norðurlandsáætlun. Með hliðsjón af fyrri reynslu hef ég lagt hér fram spurningu um það, hvort vænta megi árangurs af starfi þessarar seinni n., og ef svo er, þá hvenær? Ef ráðh. ræðir um þessa svo kölluðu Norðurlandsáætlun, væri gott að fá upplýst, hver eigi að semja áætlunina og hve miklu fjármagni verði varið til framkvæmda við hana, ef hægt er að veita slíkar upplýsingar. En sérstaklega er þó nauðsynlegt að fá upplýst, hvers eðlis þessi áætlun eigi að vera. Verður þetta áætlun um ákveðnar framkvæmdir, staðsetningu ákveðinna atvinnutækja á hverjum stað, framkvæmdir, sem ríkisvaldið tekur að sér að standa fyrir, ef einkaframtakið reynist þess ekki megnugt, eða verður þetta aðeins greinargerð um ástandið á hverjum stað, skýrsla, sem atvinnujöfnunarsjóður á að hafa til hliðsjónar, þegar hann afgreiðir lánaumsóknir? Sem sagt, verður þetta raunveruleg áætlun, sem felur í sér áform um tiltekin verkefni og tilteknar framkvæmdir, áætlun, sem garir ráð fyrir, að ríkisvaldið taki frumkvæði og forustu í sínar hendur?