26.10.1966
Sameinað þing: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í D-deild Alþingistíðinda. (2589)

204. mál, rekstrarvandamál hinna smærri báta

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég verð að hryggja hv. þm. með því, að það var ekki framlagning hans fsp., sem varð þess valdandi, að vélbátaskýrslunni var hér útbýtt. Það var ákvörðun, sem hafði verið tekin alllöngu áður en fsp. hans var lögð fram, tekin um það á ríkisstjórnarfundi. En það skiptir ekki höfuðmáli. Aðalatriðið er, að alþm. hafa fengið skýrsluna í hendur, og ég vænti þess, að menn kynni sér efni hennar svo sem kostur er, en vil aðeins nota þetta tækifæri til þess að lýsa því yfir, að till. n. eru í athugun hjá ríkisstj. og unnið hefur verið að því á undanförnum vikum að ræða við þá aðila, sem till. n. snerta.