26.10.1966
Sameinað þing: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í D-deild Alþingistíðinda. (2590)

204. mál, rekstrarvandamál hinna smærri báta

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ræðutími er hér takmarkaður í fsp.-tíma. Það, sem gaf mér ástæðu til þess að grípa aðeins inn í umr., er það, sem hv. fyrirspyrjandi sagði og lýsti sig mjög ánægðan með í niðurlagi ræðu sinnar, að n. hefði þó komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki bæri að veita aukið leyfi til togveiða innan fiskveiðimarkanna. Þetta hefur verið og verður án efa nokkurt deilumál, en hlýtur að koma að því, að Alþ. verður að gera upp við sig, hvernig það í framtíðinni ætlar að láta vélbátaflotann haga sínum veiðum á þessu svæði,

Ég skal segja það um skýrslu þá, sem hér liggur fyrir, og hygg ég, að það sé nokkuð samhljóða álit margra, sem þar eiga hlut að máli, eigenda vélbáta undir 120 tonnum, að menn höfðu gert sér nokkrar vonir um, að fram kæmu hjá n. ný úrræði til að létta hag og rekstur þessara báta. Því miður virðist þar mjög fátt nýtt að finna. Það getur vel verið, að á því séu mjög miklir annmarkar að benda á nýjar leiðir, enda er mjög fyrir það brennt, að svo sé, að þar komi nokkuð fram, sem áður hefur ekki raunar verið rætt og menn hafa haft til athugunar. Það, sem n. virðist við lauslega athugun helzt koma með í sínu áliti, er hækkun fiskverða annars vegar, og einnig mælir hún með því, að bátum allt að 65 tonnum að stærð verði nú leyfð dragnótaveiði í stað báta allt að 45 tonnum að stærð áður.

Um fiskverðshækkunina er það að segja, að ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu, að það væri verðlagsráð, sem fyndi hinn rétta og einasta grundvöll, sem hægt væri að finna hverju sinni. Þar eiga hlut að máli aðilar af hálfu bæði sjómanna og útvegsmanna og fiskkaupenda, og þó að ekki verði samkomulag, hefur fiskverðið gengið til úrskurðar, og fram að þessu hafa allir aðilar talið það skyldu sína að hlíta því. Um aukið fiskverð sýnist mér ekki verði, um að ræða, nema til komi beint fjárframlag úr ríkissjóði eða annars staðar frá.

Um það að leyfa bátum allt að 65 tonnum að stærð dragnótaveiðar í stað 45 tonna áður, þá er það að sjálfsögðu til bóta. Það hentar kannske sums staðar, þannig að þetta gæti nokkuð aukið fiskveiðarnar, en ég hygg þó, að reynslan hafi sannað undanfarið, að það verður ekki til þess að rétta hag þessara báta. Það er margt, sem þar gerir, bæði hlutaskipti og annað. Dragnótaveiðar eru mun dýrari en t.d. togveiðar, og útvegsmenn munu ekki sjá sér hag í að auka þær í eins miklum mæli og n. gerir ráð fyrir.

Í skýrslu n. kemur það hins vegar fram á bls. 54, að útvegsbændafélög á svæðinu frá Snæfellsnesi að Vestfjörðum leggja það til, að togveiðar séu auknar eða leyfðar innan fiskveiðimarkanna. Vestfirðingarnir eru með skilyrði um, að togurunum verði ekki leyfðar slíkar veiðar. Og á svæðinu allt frá Hafnarfirði og austur um alla suðurströnd landsins leggja þau útvegsbændafélög, sem þar eiga hlut að máli, einnig til, að togveiðar verði leyfðar í auknum mæli innan fiskveiðimarkanna, í Hafnarfirði með vissum takmörkunum um skipastærð og að togurum verði ekki leyfðar slíkar veiðar.

Mér sýnist, að eftir þeim plöggum, sem n. hefur fengið í hendur, hefði hún átt að taka þetta atriði til miklu nákvæmari athugunar en hún þó gerir og hefði átt að komast að þeirri niðurstöðu, að þar sem aðstæður eru fyrir hendi og ráðandi menn á þeim stöð telja það hag bátaflotans, hefði hún átt að mæla með, að slíkar veiðar væru leyfðar,

Rök nefndarinnar gegn þessu er einnig að finna á bls. 56 í skýrslu hennar, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Með hliðsjón af þeim samningum við erlenda aðila um friðun fiskimiða utan landhelgi, sem n. mælir eindregið með að hafnir verði, álítur hún, að nú sé ekki hentugur tími fyrir Íslendinga, til að auka sínar eigin togveiðar í landhelgi.“

Ég þykist muna, að það hafi komið fram hér hjá fiskimálastjóra og einnig hafi það komið opinberlega fram hjá þeim fiskifræðingum, sem um þessi mál hafa fjallað, að þeir hafi talið það orðið tímabært og jafnvel sjálfsagt, að Íslendingar færu að gera ráðstafanir til þess að nota, þau veiðisvæði, nota landhelgina meira og einmitt með togveiðum. Ég hygg, að það sé rétt hjá mér, að þeir hafi talið þetta orðið tímabært og sjálfsagt og að erlendum aðilum, sem við eigum skipti við, mundi finnast það sjálfsagt, að við notum það að því marki, meðan við sjálfir teldum ekki, að við værum að ganga um of á fiskistofnana.

Eins og ég sagði í upphafi, er hér mjög takmarkaður tími til umr. um þetta mál. En það hlýtur síðar meir að koma fyrir Alþ. til umr. og ákvörðunar. Í heild hygg ég, að útgerðarmenn og eigendur þeirra vélbáta, sem hér um ræðir, hafi orðið fyrir verulegum vonbrigðum, þegar skýrslan barst og var gerð opinber.