09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í D-deild Alþingistíðinda. (2596)

14. mál, sjónvarp

Fyrirspyrjandi (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 14 leyft mér að bera fram þá fsp. til hæstv. menntmrh., hvenær ráðgert sé, að sjónvarpið nái með útsendingar sínar til Norðurlands. Eins hefði mátt spyrja, hvenær búast mætti við, að sjónvarpið næði til landsmanna allra.

Eins og öllum er kunnugt, hefur að undanförnu mikið verið rætt og ritað um sjónvarp hér á landi í sambandi við sjónvarpsstöð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sem náð hefur með útsendingar sínar til verulegs hluta

Suðvesturlandsins. Eftir að ráðamenn ákváðu, að hér skyldi koma sjónvarp á vegum ríkisútvarpsins, hefur almenningur fylgzt með framkvæmdum, eftir því sem upplýsingar hafa legið fyrir. Sú spurning hefur að sjálfsögðu vaknað, hve langan tíma það mundi taka, að aðrir landsmenn en þeir, sem hér búa við Faxaflóa, fengju aðstöðu til þess að njóta sjónvarpsins. Bæjarstjórn Akureyrar gerði fyrir nokkru svo hljóðandi samþykkt um sjónvarpsmál, með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn Akureyrar skorar á ríkisstj. og útvarpsráð, að hraðað verði svo endurvarpstöðvum fyrir íslenzka sjónvarpið, að byggðir Akureyrar og Eyjafjarðar geti orðið þess aðnjótandi eigi síðar en á næsta vori. Jafnframt beinir bæjarstjórn því til forráðamanna, sjónvarpsins að vinna að því eins fljótt og aðstæður leyfa að koma upp skólasjónvarpi.“

Ég efast ekki um, að forráðamenn sjónvarpsins hafi áhuga á, að það nái til sem flestra landsmanna. En að sjálfsögðu verður því ekki til leiðar komið án mikilla fjárútláta. A fjárlagafrv. næsta árs, 1967, eru tekjur og gjöld sjónvarpsins áætluð 58.8 millj. kr. En á gjaldahlið er ekki að finna beinar greiðslur til þess að koma sjónvarpinu út um landið, nenna, vegna Vestmanneyinga. Er þá ætlunin að aðhafast ekkert í þessu efni á næsta ári annars staðar á landinu?

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta að sinni, þar sem ég vænti upplýsinga grá hæstv. menntmrh.