09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í D-deild Alþingistíðinda. (2601)

14. mál, sjónvarp

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst lýsa ánægju minni yfir þeirri byrjun, sem orðin er á íslenzku sjónvarpi, og láta í ljós þá skoðun mína, og sjónvarpið eigi að sigla strax undir fullum seglum. Með íslenzku sjónvarpi hefur orðið slík bylting í lífi manna, heimilislífinu, þeirra sem njóta þess, að það er óhugsandi, að það geti lengi staðið svo, að þjóðin verði klofin í þessu tilliti, þannig að sumir njóti sjónvarps, en aðrir ekki.

Nú sýnist mér fjárhagur sjónvarpsins vera glæsilegur og miklu glæsilegri en menn hefðu þorað að vona. Það hefði ekki þótt slæmt fyrirtæki af öðru tagi, sem ætti Reykjavíkurstöðina skuldlausa og vel það núna um áramótin, því að þannig verður þetta eftir upplýsingum hæstv. ráðh., að allur stofnkostnaður Reykjavíkurstöðvarinnar verður greiddur upp í topp og meira til um áramótin. Þess vegna, sýnist mér ekki nema eitt koma til greina í þessu, og það er, að strax verði ráðizt í á næsta ári að koma upp öllum þessum stærri stöðvum, sem fyrirhugaðar eru, þannig að þær komi allar í notkun um leið, allar í senn, og þar með sjónvarpið í alla landsfjórðunga í senn. Þetta er ákaflega vel viðráðanlegt skv. þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir. Það þyrfti ekki að taka nema nokkurra milljónatuga lán, sem sjónvarpið gæti leikandi staðið undir, til þess að koma þessu í framkvæmd. Síðan ætti að halda áfram að byggja smærri stöðvarnar út frá þessu með sem mestum hraða, og virðist manni þá fljótt á litið, að þessi mál öll ættu að geta komizt langt áleiðis árið 1968. Hvaða atriði er það fjármálalega í þessu? Það er smáatriði. Það þarf ekki að taka nema sem svarar einu skipsverði eða svo að láni, að því er manni virðist, til þess að hægt sé að framkvæma málið með eðlilegum hraða. Þetta þyrfti að ákveða nú í sambandi við fjárlögin í samvinnu við hæstv. ríkisstj., þannig að hægt væri að bjóða út stöðvarnar með sem mestum hraða og koma, þannig í framkvæmd þeirri nýju áætlun, sem yrði gerð.

Ég vil einlæglega vona, að það verði samkomulag um þessa stefnu, því að þetta er sýnilega mjög vel kleift, og það er afar þýðingarmikið atriði, að þetta glæsilega tæki nái sem fyrst til allra landsmanna.