09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í D-deild Alþingistíðinda. (2602)

14. mál, sjónvarp

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Vestfjarða hefur nú raunar tekið fram margt af því, sem ég vildi sagt hafa. En ég vil aðeins árétta það, sem kom fram hjá honum. og ég vil vænta, að það megi skilja orð hæstv. ráðh. þannig, að það verði ekki lengur bið á því að bjóða út Skálafellsstöðina og jafnframt fleiri stöðvar. Ég vil láta það koma fram, að ég tel það alveg ranga stefnu að ætla að byggja dreifingu sjónvarpsins á tolltekjum einum saman, því að ég óttast, að ef það yrði gert, mundi það ekki taka 3 ár, eins og hægt væri, að koma, dreifingunni á, heldur allt að 10 árum, og þess vegna sé það óhjákvæmilegt að gera þetta með þeim hætti, að lán verði tekin til dreifingarinnar.

En í framhaldi ef þeim umr., sem hér hafa farið fram, vil ég beina nokkrum fsp. til hæstv. ráðh. í sambandi við rekstur sjónvarpsins sjálfs.

Eins og mönnum er kunnugt, var því lýst yfir af útvarpsstjóra, þegar tilraunasjónvarpið tók til starfa fyrir nokkrum vikum, að ætlunin væri að hefja fullan rekstur á sjónvarpinu 15. nóv. n. k., þannig að þá yrði það 6 daga sjónvarp. Nú eru því miður engar horfur á, að svo verði, og því valda ástæður, sem nú skal greina:

Í fyrsta lagi hafa tæknimenn sjónvarpsins farið fram á nokkra leiðréttingu á kaupi, sem útvarpið og menntmrh. hafa ekki fallizt á, og ef þessi hækkun fæst ekki fram, munu þeir hætta störfum 1. des. n.k. Það veit enginn, sem maður spyr um, hvar þetta mál er niður komið núna, en ég vildi beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvort það megi treysta því, að þetta mál fáist leyst svo fljótlega, að tæknimennirnir hætti ekki sínum störfum 1. des. n.k., því að þá er að sjálfsögðu sjónvarpið úr sögunni um ófyrirsjáanlegan tíma.

Annað er það, að sjónvarpið hefur farið fram á að fá nokkra fjölgun á starfsmönnum, eða í kringum 10 manns, sem það telur óhjákvæmilegt að fá, ef hér á að taka upp 6 daga sjónvarp. Útvarpið hefur fallizt á þetta fyrir sitt leyti, ég hygg menntmrh. líka, en mér er sagt, að þetta strandi á svokallaðri bremsunefnd eða, hafi fram að þessu, og ég vil beina því til hæstv. ráðh., hvort það mætti ekki vænta einhverra úrslita um þetta mál, því að meðan það fæst ekki fram, verður ekki hægt að auka sjónvarpið neitt að ráði frá því, sem nú er.

Það þriðja, sem stendur í vegi þess, að það sé hægt að hefja fulla sjónvarpsdagskrá, skiptir langsamlega mestu máli, og það er það, hvert afnotagjald sjónvarpsins á að verða. því að fyrr en full vitneskja hefur um það fengizt, er ekki hægt að gera neinar áætlanir um fullt sjónvarp til frambúðar. Útvarpið hefur fyrir löngu gert ákveðnar till. um það, hvert afnotagjaldið ætti að vera, en þetta hefur alltaf strandað á hærri stöðum og strandar enn. Og það er sagt, að það hafi farið fram alls konar útreikningar í því sambandi og kannske sé ákvarðana að vænta, áður en langt um líður. En ég vil spyrja hæstv. menntmrh., hvað þessu máli líði og hvenær megi búast við því, að afnotagjald sjónvarpsins verði ákveðið, því að ef það verður ekki gert fljótlega, mun starfsemin leggjast niður fljótlega, vegna fjárskorts, þar sem tolltekjurnar eiga að renna til annarra hluta. Og ég vil enn fremur spyrja hæstv. menntmrh. að því, hvort það sé ekki alveg ákveðið, hvert sem sjónvarpsafnotagjaldið verður, að það verði miðað við það, að sjónvarpið verði starfrækt 6 daga í viku.