09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í D-deild Alþingistíðinda. (2603)

14. mál, sjónvarp

Þorvaldur G. Kristjánsson:

Herra forseti. Það hafa allir hér á undan mér lýst miklum áhuga á því, að sjónvarpið næði sem fyrst til allra landsmanna. Við erum allir sammála um, að þeirri stefnu sé fylgt. Spurningin er sú, hvað þetta getur orðið fljótt, og þá skiptir að sjálfsögðu miklu máli, hvað þetta kostar.

Hæstv. menntmrh. gaf upplýsingar um það í sínu svari hér áðan, að stofnkostnaður þess, sem þegar hefur verið gert, sé um 80 millj. Þessi stofnkostnaður var áætlaður í skýrslu sjónvarpsnefndarinnar um 30 millj. Hér er um geysilega mikla hækkun að ræða. En þess er þó að gæta í fyrsta lagi, að sjónvarpsstöðin, sem reist hefur verið í Reykjavík, er allt önnur stöð en sjónvarpsnefndin gerði ráð fyrir, miklu dýrara og meira mannvirki og fullkomnari tæki en gert var ráð fyrir. Í öðru lagi var í áliti sjónvarpsnefndarinnar ekki reiknað með sem stofnkostnaði jafnmiklum rekstri og gert er ráð fyrir í þessari tölu, eða, sem svarar um 20 millj. kr. rekstrarkostnaði á þessu ári. Ég bendi á þetta vegna þess, að ég held, að áætlun sjónvarpanefndarinnar sé ekki svo fjarri lagi, en skv. áætlun sjónvarpsnefndarinnar var gert ráð fyrir, að það kostaði 150 millj. að koma sjónvarpinu til þeirra landsmanna, sem ekki hafa það í dag. Ef við gerum ráð fyrir, — og ég hef ástæðu til að ætla, að það sé ekki mjög fjarri lagi, — að þessi kostnaður sé nú 20% meiri en hann var, þegar áætlunin var gerð, mundi kasta 180 millj. kr. að veita þeim landsmönnum, sem ekki hafa sjónvarpið í dag, aðstöðu til að sjá það. Og hvað eru það margir landsmenn? Það eru 80 þús. landsmenn. Það eru um 110 þús. landsmenn, sem hafa aðstöðu til að sjá íslenzka sjónvarpið í dag. Ef við gerum ráð fyrir því, að 1/10 af þeim, sem hafa aðstöðu til að sjá sjónvarp, kaupi sjónvarpstæki, mundu þessar 80 þús. manna kaupa 8 þús. tæki. Meðaltolltekjur af hverju sjónvarpstæki eru taldar vera 7500 kr., þannig að tolltekjur af þessum tækjum mundu vera um 60 millj. Þá eru eftir 120 millj. af þessum kostnaði. Ef við gerum ráð fyrir, að afnotagjald af sjónvarpi sé 2000 kr. á ári, mundu það vera 16 millj. kr. tekjur frá þessum sjónvarpsnotendum, — ef það væri 3 þús., þá 24 millj. Mér sýnist, að þegar þetta er lagt svona niður, og ég legg sjálfur ekki of mikið upp úr þessum tölum, en tel þær þó þess virði, að það megi við þær miða nokkuð, hvað hér sé um mikið fyrirtæki að ræða, þá sé það augljóst, að þeir 80 þús. landamenn, sem ekki hafa, fengið aðstöðuna í dag, geti og mundu til lengdar standa undir kostnaði, sem af þessu leiddi, í aðflutningsgjöldum og með afnotagjaldi af sjónvarpinu.

Mér sýnist, að það sé augljóst mál, að það eigi að taka þetta mál þeim tökum, að ákveða, að sjónvarpið verði komið til allra landsmanna á ákveðnum tíma, eins og sjónvarpsnefndin gerði. Með því að skapa fólki aðstöðu til þess að geta notað sjónvarpið, sköpum við tekjugrundvöllinn undir því að geta gert þetta. Og sjónvarpsnefndin gerði ráð fyrir tvenns konar áætlun, annars vegar til 5 ára og hins vegar til 7 ára. Mér sýnist á öllu, eins og málið horfir í dag, að það sé raunhæfara og sjálfsagðara að miða við 5 ára áætlunina, þannig að miða við það, að sjónvarpið verði komið til allra landsmanna á árinu 1970. En til þess að þetta sé unnt, verður að gera ráð fyrir því, að það þurfi að taka nokkurt lán. Í till. sjónvarpsnefndarinnar var gert ráð fyrir, að miðað við 5 ára áætlun þyrfti að taka um 30 millj. kr. lán. Ég hygg, að þessi upphæð sé nokkru hærri núna, en mér sýnist allt þetta mál vera þess eðlis, að við eigum að taka á því á þann veg, sem sjónvarpsnefndin gerði ráð fyrir í upphafi.