09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í D-deild Alþingistíðinda. (2619)

37. mál, lýsishersluverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin við fsp., og ég tel það gleðilegt, að þarna kemur fram það álit hjá þessum verkfræðingi, sem hefur athugað málið, að það sé tímabært að koma upp slíkri verksmiðju hér á landi, og hann telur, að afurðir frá henni muni vel seljanlegar. Þetta er gott að heyra. Þetta er aðalatriðið í málinu.

Hitt, álit hans, hvar hún eigi að vera staðsett, er atriði, sem náttúrlega þarf að athuga nánar. Ég hefði haldið, að það hefði eitthvað að segja, hvar hráefnið fellur aðallega til, en það er nú enn sem komið er a.m.k. meira af því annars staðar, í öðrum landshlutum, en hér í Reykjavík. En það er mál, sem vitanlega þarf að taka ákvörðun um og verður tækifæri til að ræða um síðar og ég geri ekki að frekara umtalsefni í þessum fsp.-tíma. En ég vildi aðeins spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort alþm. mættu ekki vænta þess að fá þessa skýrslu verkfræðingsins. Ég hefði talið það æskilegt. Og síðan vænti ég þess náttúrlega, að málið verði upp tekið til framkvæmda hið allra fyrsta.