09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í D-deild Alþingistíðinda. (2622)

37. mál, lýsishersluverksmiðja

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort síðustu orð svars míns hafa farið fram hjá fleiri hv. þm. en þegar hafa tekið til máls, en ég tel nauðsynlegt að ítreka það, sem ég sagði þar, að allar þær upplýsingar, sem ég tók fram í svari mínu, eru einungis hlutlaus útdráttur úr áliti Jóns Gunnarssonar verkfræðings, og menn mega ekki blanda því saman viljandi eða óviljandi, að hér sé ég að túlka skoðanir ríkisstj. á þessu máli. Það hlýtur að vera öllum hv. þm. ljóst, að ekki er unnt á örfáum dögum fyrir ríkisstj. að leggja mat sitt á þessa skýrslu. En það, sem ég gerði hér, var einungis að draga það út úr áliti Jóns Gunnarssonar verkfræðings, sem ég taldi, að eðlilegt væri, að kæmi fram í svari við þeirri fsp., sem hér var fram borin. Það er því ekki hér um að ræða neitt svar af hálfu ríkisstj., heldur einungis með útdrætti verið að segja frá svari eða till. Jóns Gunnarssonar í þessu efni. Og jafnvel þeir, sem fólu honum þetta verkefni, stjórn síldarverksmiðjanna hefur sjálf ekki heldur lagt þarna neinn dóm á, svo að álitið verður fyrst og fremst Jóns Gunnarssonar á þessu stigi málsins. Og það, sem hv. fyrirspyrjandi fagnaði hér áðan, er að sjálfsögðu aðalatriði málsins. Niðurstaða verkfræðingsins er sú, að tímabært sé að byggja slíka verksmiðju, og það skilst mér vera höfuðatriði málsins.

Eins og ég skýrði frá í svari mínu, fól rn. þá þegar Efnahagsstofnuninni, sem vinnur að gagnasöfnun um atvinnuástand hinna ýmsu byggðarlaga og áætlunargerð um fjárfestingarstarfsemi og aðrar verklegar framkvæmdir í þeim héruðum, að segja álit sitt á þessari skýrslu Jóns Gunnarssonar, og vænti ég þess, að það fáist mjög fljótlega.

Varðandi þá fsp., sem hv. fyrirspyrjandi beindi til mín og aðrir ræðumenn tóku undir, um það, hvort skýrslan yrði send öllum hv. alþm., skal ég mjög fúslega lýsa því yfir, að ég er reiðubúinn að vinna að því máli. Mér er ekki kunnugt um, hvað upplag þessarar skýrslu er mikið tilbúið, en er þó kunnugt frá einum í stjórn síldarverksmiðjanna, að hann hefur ekki fengið þetta álit í hendur, svo að ekki virðist hafa verið um mikið upplag að ræða. En rn. voru einungis send eintök fyrir alla ráðh., og meira hef ég ekki séð af því magni. Ég tel rétt og eðlilegt að vinna að því, að hv. alþm. fái þessa skýrslu og geti þá kynnt sér þetta álit Jóns Gunnarssonar og þá liði aðra, sem ég taldi ekki þörf á að taka hér upp í svar mitt.

Hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, taldi, að ég hefði með einhverjum hætti verið að kinoka mér við því að segja, hver þessi stóri kaupandi væri, sem keypti hið stóra magn af okkar síldarlýsi. Ef ég hefði verið að því, hefði ég ekkert minnzt á það í ræðu minni, að einn aðili keypti nánast meginhluta síldarlýsisins, svo að það er alveg röng tilgáta, að ég hafi með nokkrum hætti verið að kinoka mér við því, enda væri það rangt. Ég reyndi að leiða það fram í þessu svari mínu hér, sem ég taldi, að eðlilegast væri, að ætti erindi til alþm. úr þessari skýrslu, og alveg óþarfi að leyna þar hlutum eða staðreyndum, sem hafa blasað við okkur um langt árabil, eins og hv. þm. réttilega gat um. Það væri meira en lítið barnalegt, ef ég mætti orða það svo, að ætla að ganga fram hjá þeim staðreyndum, og ég hygg, að varðandi þá hættu, sem í því felst, að einn aðili kaupi meginhlutann af þessum dýrmætu afurðum, sé ekki langt milli skoðana minna og hv, þm. í því efni.

Hv. þm. Ragnar Arnalds taldi, að rökstuðningurinn fyrir staðsetningu væri mjög veikur. Ég skírskota um það til minna fyrstu orða nú, að það eru rök Jóns Gunnarssonar, sem ég gat um þar, en ekki rök ríkisstj., og það mál var jafnframt falið Efnahagsstofnuninni, sem hefur með áætlanagerð í þessum efnum að gera.

Varðandi stærð verksmiðjunnar, sem Jón Gunnarsson leggur til, gengur hann út frá þeirri staðreynd, að hún vinni úr 50 tonnum af lýsi á sólarhring.

Með þessum orðum vona ég, að ég hafi svarað því, sem nauðsynlegt er í sambandi við umr. um málið.