09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í D-deild Alþingistíðinda. (2623)

37. mál, lýsishersluverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er kannske fróðlegt fyrir hv. þm. að athuga einmitt, um leið og hæstv. ráðh. gefur okkur þessar upplýsingar viðvíkjandi síldarlýsinu, — og mér þykir vænt um, að hann er ekkert feiminn við að nefna Unilever eða samþykkja hans aðstöðu, — það er fróðlegt fyrir menn að athuga, að við flytjum út á árinu 1965 82 þús. tonn af síldarlýsi, þar af eru flutt 18 þús. til Bretlands, 21 þús. til Danmerkur, 16 þús. til Hollands, 13 þús. til Vestur-Þýzkalands og svo til nokkurra fleiri landa, en sem sé, allt saman er þetta keypt af sama aðilanum, þó að það sé flutt til allra þessara landa.

Nú virðist Jón Gunnarsson tala um, að þetta eigi að vera verksmiðja, sem framleiði 50 tonn á sólarhring. Ef hún starfar 300 daga á ári, eru það ca. 15 þús. tonn. Ef ég man rétt, var það 2000 tonna verksmiðja, sem var byggð hérna í Reykjavík, til að framleiða handa síldarverksmiðjunum 1950 eða einhvers staðar á þeim árum. (Gripið fram í.) Já handa smjörlíkisverksmiðjunum. Þá var því svarað, þegar við vorum að berjast hér fyrir því að koma upp síldarlýsisverksmiðju, að það væri búið að koma upp síldarlýsisverksmiðju, það væri hægt að selja þær vélar, sem höfðu verið keyptar 1946, það væri búið að koma henni upp. Jú, það var lýsisherzluverksmiðja til þess að framleiða með dýrara móti en hægt væri erlendis um 2000 tonn alls á ári handa íslenzku smjörlíkisverksmiðjunum. Þegar menn tala um þessa hluti, er ekki til neins að tala um svona smárekstur, og það að láta sér detta í hug að koma upp á Íslandi 15 þús. tonna verksmiðju, lýsisherzluverksmiðju, er tóm della. Ef menn eru að flækjast með þessar smáverksmiðjur, eru menn að drepa sig fyrir fram. Annaðhvort er að þora að leggja í þetta það stórt, að við vinnum úr því lýsi, sem við flytjum út, og þorum að baka þá upp slag við þennan volduga hring, og reyna þá að gera það, sem við getum, til þess að baktryggja okkur með því, að við séum ekki drepnir undireins. En það er bezt, þegar við erum að athuga þessa hluti, að við vitum, út í hvað við göngum, að það sé ekki verið að setja einhver græn gleraugu á menn og telja mönnum trú um, að það þróist frjáls samkeppni alls staðar í kringum okkur, þegar viðurkennt er svo um leið, þegar farið er að kryfja þetta til mergjar, að það sé sami hringurinn, sem einokar markaðinn í öllum löndunum, öllum þeim svokölluðu frjálsu löndum. Þetta er frelsið þar, og það á ekki að vera að reyna að dylja þetta fyrir almenningi. Við verðum að gera okkur grein fyrir, hverju við göngum út frá. Við erum stór aðili í þessu efni, með þeim stærstu í Evrópu. En Unilever er vissulega miklu stærri aðili en við, og það er ekki bara til þess að snakka um það i sambandi við kosningar og annað slíkt, að það sé ánægjulegt að koma upp lýsisherzluverksmiðjum. Menn verða að þora að segja þjóðinni sannleikann um, hvað hún er að ganga út í að berjast við. Ef það hefði verið raunverulegt Alþ. starfandi á síðari hluta 18. aldar, hefðu menn varla kunnað við annað en nefna hörmangarana einhvern tíma. En núna vilja menn helzt kalla hörmangara-ástandið allt saman frjálsa samkeppni hér á Íslandi. Það kemur ein ríkisstj. hér og situr hér og er að telja okkur trú um, að það sé einhver frjáls samkeppni hérna hringinn í kringum okkur og að við Íslendingar engum að praktísera þetta, en verður svo, um leið og farið er að kryfja hlutina til mergjar, að viðurkenna, að það eru tómir einokunarhringar alls staðar í kring. Og ef hún hefur blekkt Alþ. til að samþ. einu sinni frv. um kísilgúrverksmiðju, kemur hún á næsta þingi og segir: Við skulum láta John's Manville hafa þetta. — Ef á að fara eins með lýsisherzluverksmiðju, kann ég betur við, að sé gengið hreinna til verks. Þess vegna vildi ég upplýsa, að 15 þús. tonn eru ekki 1/5 hluti af því, sem við Íslendingar framleiðum, það er bara smáverksmiðja, sem mun dæmd álíka til að verða drepin og þegar Vilhjálmur Þór hér á árunum var að heimta áburðarverksmiðju, sem framleiddi 2000 tonn við Eyjafjörð. Það er svona álíka, að það sé verið að byrja þannig í smáum stíl. Við verðum að taka tillit til þess, á hvers konar tækniöld við lifum, tækniöld og hringaöld, og við verðum að þora að hugsa út frá því, annars vegar megi það vera stórt, tæknilega séð, og hins vegar gera okkur grein fyrir þeirri baráttu, sem við ætlum að leggja út í við þá hringa, sem við eigum við að fást, en gefast ekki upp fyrir þeim á fyrsta árinu, meira að segja áður en við erum búnir að byggja verksmiðjuna.