23.11.1966
Sameinað þing: 11. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í D-deild Alþingistíðinda. (2636)

61. mál, lóðaúthlutun Þingvallanefndar

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er einungis til áréttingar því, sem ég sagði áðan, að mér finnst það fyllilega til athugunar fyrir þingheim, hvort menn vildu gera ráðstafanir til þess að friða alla strandlengjuna kringum Þingvallavatn. En það má vel vera, að það sé orðið of seint, vegna þess að byggð sé komin svo víða. En ég tek undir það, sem ég nefndi, að auðvitað voru garð mest spjöllin innan sjálfs þjóðgarðsins, þegar leyfð var byggð suður með vatninu og raunar mætti segja að nokkru leyti þar sem þjóðleið hafði áður legið úr Grafningi til Þingvalla, þótt að verulegu leyti væri sokkin í vatnið. Þetta eru að mínu viti þau mestu spjöll, sem þarna hafa verið gerð, um leið og viðurkenna skal það ómetanlega verk, sem gert var, þegar Þingvellir voru friðaðir, sem er verk, sem við allir megum vera þakklátir fyrir og Jónas Jónsson á vissulega drýgstan þátt í og mun hljóta verðuga viðurkenningu fyrir.

En í framhaldi þessa vil ég drepa á það, sem ég tal ekki síður um vert og raunar miklu meira en þótt einhverjar byggingar séu leyfðar þarna í nágrenninu, og það er að friða hinn forna þingstað betur en gert hefur verið, og hann hefur ekki verið friðaður, meðan vegurinn liggur um Almannagjá. Það má segja, að það að hafa bílveg um Almannagjá sé líkast því, sem Rómverjar hefðu bílveg um Forum Romanum eða Grikkir um Akropolis. Þetta eru hrein helgispjöll og barbarismi slíkur, að ótrúlegt er, að þetta skuli hafa haldizt. Til viðbótar þessu kemur, að allir þeir, sem eru kunnugir á Þingvöllum, sjá, að það er bein lífshætta fyrir þá, sem fara um veginn, sérstaklega í þungum vögnum, þegar jörðin skelfur undir, en klettar hanga fyrir ofan. Og ég þori að fullyrða, að það er guðs mildi, þangað til og meðan ekki verður stórslys af þessum sökum. Nú er þingið þegar búið að gera ráðstöfun til þess, að úr þessu verði bætt, með því að láta leggja þjóðveg upp á vestari gjárbarminum og inn á Leirurnar. En hann kemur ekki að fullum notum og ekki að gagni til þess að loka veginum um Almannagjá, fyrr en fé er veitt til þess að breikka veginn inn úr eða milli Leiranna og Efri-Valla. Og ég tel, að þetta þing eigi beinlínis að hlutast til um, að sú framkvæmd verði gerð á næsta sumri, vegna þeirrar augljósu hættu, sem þarna er sökum grjóthruns, en ekki síður líka þegar menn eru að tala um, að helgi Þingvalla sé ekki nóg gætt, en láta þó mestu helgispjöllin haldast þarna lengur en rík ástæða er til, og það er eftir svo lítið, til þess að hægt sé að loka veginum um Almannagjá og leggja þar einungis gangstíg, að það má vera okkur til skammar og verður til ævarandi háðungar og varna en það, ef slys skyldi t.d. verða næsta sumar, eins og yfirvofandi er og allir sjá, sem oft hafa komið í Almannagjá, að í raun og veru hlýtur að verða, ef ekki er að gert.