30.11.1966
Sameinað þing: 12. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í D-deild Alþingistíðinda. (2640)

68. mál, garðyrkjuskóli á Akureyri

Fyrirspyrjandi (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Á síðasta Alþ. fluttum við 7 þm. úr Norðurl. e. þáltill. um stofnun garðyrkjuskóla á Akureyri eða í grennd Akureyrar. Till. hlaut einróma meðmæli hv. fjvn., sem fékk hana til umsagnar. Einnig var hún samþ. með shlj. atkv. af þingheimi. Till. þessi var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara athugun á því, hvort eigi sé grundvöllur fyrir stofnun garðyrkjuskóla á Akureyri eða í grennd. Skal þeirri athugun lokið fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Ekki getur það hafa farið fram hjá neinum, sem blöð les og veitir athygli ályktunum mannfunda, að mikill áhugi og almennur er fyrir því á Norðurlandi, að stofnaður verði þar garðyrkjuskóli, enda var till. flutt fyrir almennar áskoranir fólks fyrir norðan. Menn skiptast ekki í pólitíska flokka norður þar um þetta mál. Í því ríkir einhugur. Ég minnist ekki að hafa heyrt norður frá um það nokkra hjáróma rödd. Konurnar og samtök þeirra ber þar að vísu hæst um áhugann, en það er sönnun þess, að málið er gott, og því þjóðþingi, sem skipað er karlmönnum aðeins með einni undantekningu, ætti að vera ljúft að leysa slíkt mál, eða þvílíku gerir sálarfræðin ráð fyrir. Hlutverk kvennanna er að prýða heimili og hafa hollan og góðan mat á borðum. Áhugi þeirra fyrir garðræktinni er því mjög eðlilegur.

Eins og kunnugt er, hélt Ræktunarfélag Norðurlands, sem telja má nú úr sögunni vegna breyttra skipulagshátta í búnaðarsamtökum, lengi uppi garðyrkjukennslu með námskeiðum að vori og sumri á Akureyri. Námskeið þessi gáfust vel. Þaðan kom áhugafólk, og sjást spor þess víðs vegar um Norðurland í garðræktarmenningu. Fólkið, sem sótti námskeiðin, varð leiðbeinendur heima fyrir í sveitum og byggðum. Námskeiðin voru eins og uppspretta af slíku fólki. En nú er sú uppspretta þornuð, og þess er mjög saknað. Til þess að bæta úr þessu þarf garðyrkjuskóla, ekki endilega stóran skála, en skóla hagnýtrar fræðslu i þessum efnum, t.d. eins árs skóla í námskeiðum. Enginn vafi er á því að áliti okkar Norðlendinga, að Akureyri geti látið í té ágæta aðstöðu fyrir slíkan skóla: húsakost, kennslukrafta, gróðurmold og sýnigróður í görðum þar, m.a. í hinum mikla grasgarði Akureyrar, þar sem eru nú um 2400 tegundir plantna, nálega allar íslenzkar.

Í Hveragerði er garðyrkjuskóli, sem átt hefur að vera fyrir allt landið. En reynslan hefur sýnt það, að Norðlendingar hafa lítið notið hans, enda hefur hann aðallega beinzt að ylrækt. Ylræktina skal sízt lasta, en kunnátta við hana kemur ekki nema sums staðar að notum. Skrúðgarðarækt og almenn matjurtarækt er á öðru sviði. Verkaskipting milli tveggja skóla í landinu gæti því verið heppileg, og þá virðist mjög eðlilegt, að annar skólinn teldist rétt staðsettur í eða við höfuðstað Norðurlands. Hlýtur það að falla vel inn í Norðurlandsáætlunina svonefndu, sem efnahagsstofnun ríkisins er nú hað vinna að.

Af því að enn hefur ekkert heyrzt opinberlega um framkvæmd þeirrar athugunar, sem síðasta Alþ. fól hæstv. ríkisstj. að láta gera á því, hvernig grundvöllur sé fyrir stofnun garðyrkjuskóla á Akureyri eða í grennd, og sú athugun var ætlazt til, að færi fram og væri lokið, áður en það þing, sem nú situr, kæmi saman, hef ég leyft mér sem fyrsti flm. þátill., sem ég las í upphafi máls míns, að beina til hæstv. landbrh. þeirri fsp., sem hér er nú tekin til umr., og vænti ég góðra frétta í svörum hæstv. ráðh.