30.11.1966
Sameinað þing: 12. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í D-deild Alþingistíðinda. (2641)

68. mál, garðyrkjuskóli á Akureyri

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vænti þess, að hv. fyrirspyrjanda finnst ég færa góðar fréttir í sambandi við svör við þessari fsp. Eins og kunnugt er, var samþ. hér einróma, till., eins og lesin var hér upp áðan, um það að láta fara fram athugun á því, hvort grundvöllur væri fyrir því að stofna garðyrkjuskóla á Akureyri eða í grennd. Þessi till. var vitanlega send mér, og litlu síðar skrifaði ég bréf til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og fól henni athugun á þessu máli. Og ég vænti þess, að þeir, sem vita, hvernig Rannsóknastofnun landbúnaðarins er byggð upp, telji eðlilegt, að henni væri falin þessi athugun, fremur en skipa sérstaka n. til þess. En eins og stendur í till., er ætlazt til, að rannsókninni væri lokið, áður en reglulegt Alþ. kæmi saman í haust. Rannsóknastofnunin fékk till. senda með bréfinu, sem ég skrifaði, og með leyfi hæstv. forseta er rétt, að ég lesi þetta bréf:

„Ráðuneytið sendir Rannsóknastofnun landbúnaðarins þál., sem samþ. var á Alþ. 30. marz s.l., um stofnun garðyrkjuskóla á Akureyri eða í grennd. Vill rn. fela Rannsóknastofnuninni að athuga, hvort grundvöllur sé fyrir stofnun garðyrkjuskóla á Akureyri eða í grennd. Jafnframt vill rn. benda á það, að nú er verið að byggja upp garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi á myndarlegan hátt og ráðgert er, að þar verði í framtíðinni miðstöð garðyrkjukennslunnar í landinu og tilraunastöð í garðyrkju.“

Þetta bréf er dags. 26. apríl, en þál. samþ. 30. marz. Það þótti rétt að vekja athygli á því, að það er verið að byggja upp garðyrkjuskólann í Hveragerði, og verður hann allmiklu stærri en áður hefur verið, getur í fyrsta áfanga tekið væntanlega 24 nemendur, en hefur lengst af verið með 8—10 nemendur. Þessi skóli hóf starfsemi sína 1939 og hefur starfað af myndarskap miðað við þau skilyrði, sem honum hafa verið búin, undir ötulli forustu skólastjórans, Unnsteins Ólafssonar, sem nú er nýlega látinn.

En það er vissulega til athugunar, ,hvort það er nóg að hafa einn garðyrkjuskóla í landinu, enda þótt hann sé stærri en hann hefur verið og betur útbúinn og enda þótt starfssvið hans verði aukið með því að hafa þar tilraunastöð í garðyrkju og ylræktarrannsóknum. Þetta þarf vitanlega vel að athuga. Það er að vísu rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að undanfarið mun garðyrkjuskóli ríkisins aðallega hafa haft með ylrækt að gera, en þó nokkuð hvers konar garðyrkju eigi að síður. Nemendur í þeim skóla hafa verið af öllu landinu, en þeir hafa verið fáir hvert ár, og það er enginn vafi á því, að menntun á þessu sviði verður aldrei of mikil eða almenn, því að garðyrkjan á eftir að eflast og verða meiri búgrein almennt séð en verið hefur. Það er því eðlilegt, að það sé rannsakað vel, hvort ekki er þrátt fyrir það átak, sem verið er að gera í Hveragerði, þörf á meiru, og ef einn skóli nægir ekki, væri eðlilegt til þess að halda jafnvægi, að annar skólinn væri fyrir norðan. En Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur ekki lokið þessari athugun sinni, og þegar er fsp. var lögð hér fram, skrifaði ég Rannsóknastofnuninni og spurði frétta. og með leyfi hæstv. forseta, hljóðar það bréf á þessa leið:

„Ráðuneytið sendir Rannsóknastofnun landbúnaðarins hér með þskj. nr. 77, þar sem gerð er fsp. til landbrh. um athugun á stofnun garðyrkjuskóla á Akureyri eða í grennd. Með bréfi, dags. 26. apríl s.l., var Rannsóknastofnuninni falið að athuga, hvort grundvöllur væri fyrir stofnun garðyrkjuskóla á Akureyri. Vegna téðrar fsp. er Rannsóknastofnunin beðin að láta rn. í té upplýsingar um, hvað liði umbeðinni athugun.“

Svar hefur borizt við þessu bréfi, og með leyfi hæstv. forseta er það þannig:

„Bréf hins háa landbrn., dags. 23. þ.m., móttekið. Í bréfinu er óskað eftir upplýsingum um, hvað líði athugunum á stofnun garðyrkjuskóla á Akureyri eða í grennd, sem landbrn. fól Rannsóknastofnun landbúnaðarins að gera með bréfi, dags. 26. apríl s.l., vegna framkominnar þál., sem samþ. var á Alþ. 30. marz s.l.

Bréf rn. var lagt fram á stjórnarfundi 29. apríl s.l. og málið rætt. Safnað hefur verið gögnum um málið, m.a. leitað upplýsinga hjá ýmsum aðilum, en athugun málsins ekki lokið. Unnið er að því, að skila megi rökstuddu áliti til landbrh. svo fljótt sem unnt er.“

Samkv. þessu bréfi skilst mér, að búast megi við fullnaðarsvari innan skamms tíma, þótt það sé ekki hér beinlínis tekið fram hvenær, en svo fljótt sem unnt er, segir í þessu bréfi. Ég hef rætt þetta við framkvæmdastjóra Rannsóknastofnunarinnar, og hann hefur tjáð mér, að það hafi verið rætt við marga menn um þessi mál, sem sérþekkingu eiga að hafa, ýmsa áhrifamenn fyrir norðan, sem sérstaklega hafa áhuga á þessu máli, og ýmsar athuganir verið gerðar í þessu sambandi. Rannsóknastofnunin vinnur að því að gera sér fulla grein fyrir því, hvort þörf sé á eða grundvöllur fyrir öðrum garðyrkjuskóla. Það er það fyrsta. Í öðru lagi, ef svo færi, þarf að gera sér grein fyrir stofnkostnaði slíks skóla. Hvað þarf hann að vera stór? Með hvaða sniði á hann að vera? Á hann að vera eitthvað líkur garðyrkjuskólanum í Hveragerði og starfa á svipuðu sviði, eða á hann að vera á öðru sviði og stofna þannig til verkaskiptingar, eins og hv. fyrirspyrjandi talaði hér um áðan? Og í þriðja lagi þarf að gera sér grein fyrir rekstrarkostnaðinum af slíkum skóla. Allt þetta þarf að liggja fyrir, um leið og því er svarað, hvort grundvöllur sé fyrir því að stofna skóla á Akureyri eða í grennd. Og mér er kunnugt um það, að að þessu er unnið, og enda þótt flm. till. og fyrirspyrjandi vilji, að þessu máli sé hraðað, mega þeir þó ekki sýna slíka óþolinmæði, að ekki gefist tími til að gera fullnaðarrannsókn í málinu, rökstudda og ýtarlega, því að það hlýtur að vera grundvallarskilyrðið fyrir því, að unnt verði að fá fjármagn til þessarar starfsemi, að það liggi fyrir rökstutt álit, hvort grundvöllur sé fyrir því að ráðast í þetta fyrirtæki, hvort það sé hagkvæmt fyrir þjóðina o.s.frv. og hvaða kostnaður fylgir því.

Það er rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að námskeið í garðyrkju hafa gert mikið gagn, og ég hef einhvers staðar lesið um þessa starfsemi Ræktunarfélags Norðurlands, og enginn vafi er á því, að kennsla af því tagi getur gert mikið gagn. Og það er fyrirhugað, að við hinn nýja garðyrkjuskóla í Hveragerði verði slík námskeið haldin að sumrinu til, því að þá er þar komin mun betri aðstaða en áður hefur verið. Þannig má auka þekkingu manna á þessu þýðingarmikla starfi á tiltölulega litlum tíma, þótt menn verði ekki lærðir eins og eftir langa skólasetu.

Ég vænti þess, eina og ég sagði áðan, að hv, fyrirspyrjandi telji það rétta meðferð af rn. að hafa falið Rannsóknastofnun landbúnaðarins að gera þessa athugun, og ég get ekki, þótt rannsókninni sé ekki lokið og álit liggi ekki fyrir, álasað Rannsóknastofnunina fyrir það. Ég tel, að það hljóti að vera ærnar ástæður til þess, að álitið er ekki komið, en samkv. bréfi því, sem ég áðan las upp, er að þessu unnið og álitinu verður skilað svo fljótt sem unnt er.