30.11.1966
Sameinað þing: 12. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í D-deild Alþingistíðinda. (2642)

68. mál, garðyrkjuskóli á Akureyri

Fyrirspyrjandi (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans, það sem þau ná, og ljóst er af þeim, að hann hefur ekki dregið að fyrirskipa athugun þá, sem í till. var farið fram á. Hitt er svo annað mál, að mér þykir athugunin hafa gengið allseint, þar sem nú eru liðnir 7 mánuðir, frá því að þeir, sem hana áttu að hafa með höndum, fengu fyrirmæli. Og ég verð að lýsa því yfir, að þó að mér finnist ekkert óeðlilegt, að hæstv. ráðh. sneri sér til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins með málið, hefði mér þótt betur fara á því, að hann hefði líka kvatt til athugunarinnar menn að norðan, menn, sem hafa fengizt við garðyrkjumál fyrir norðan, áhugamenn um þau efni og kunnuga staðháttum að öllu leyti. Ég hefði líka talið, að það hefði verið eðlilegt að leita a.m.k. álits garðyrkjuráðunautar þess, sem Búnaðarfélag Íslands hefur í þjónustu sinni, þar sem hann hefur starfssvið um land allt. Mér dettur ekki í hug að lasta persónulega þá mikilsvirtu menn, sem vinna fyrir Rannsóknastofnun landbúnaðarins. En einhvern veginn virðist málið af þeim fréttum, sem ég hef haft utan við þingsalinn, ekki horfa vel við þeim. Gæti ekki verið, að þeir standi að framkvæmd þeirri, sem verið er að gera í Hveragerði og áreiðanlega hefur

vorið upphaflega hugsuð þannig, að sá skóli, sem þar á að rísa endurbyggður og getur tekið á móti 40 nemendum, væri nægilegur fyrir landið allt og þessi ákvörðun tekin, áður en það sjónarmið kom fram, að heppilegt gæti verið að hafa skólana heldur tvo minni en einn stóran og láta þá starfa, með verkaskiptingu og hafa aðsetur bæði sunnanlands og norðan, sinn á hvorum stað? Það er alltaf svo, að þegar menn hafa staðið að ákvörðunum, bindast þeir að vissu leyti við þær. Nú er mér sagt, að búið sé að reisa í Hveragerði nýja byggingu, sem rúmi 12 nemendur, en lengra sé ekki í raun og veru byggingunum komið. Ég vil þess vegna biðja hæstv. ráðh. að taka það til athugunar, hvort ekki sé vert að gera þarna áætlanabreytingu og hugsa sér, að skálinn í Hveragerði verði ekki hafður svo stór sem fyrirhugað var, en hins vegar komið upp skóla fyrir norðan. Skólinn í Hveragerði liggur ágætlega við til þess að mennta fólk að því er snertir ylrækt, og hann hefur gert það að undanförnu aðallega. Skólinn fyrir norðan aftur á móti hefur ágætis aðstöðu til þess að kenna skrúðgarðarækt og almenna matjurtarækt. Og lokaorð mín yrðu þá þessi: Vill ekki hæstv. ráðh. til þess að flýta fyrir málinu og tryggja athugun fá menn að norðan til að starfa með Rannsóknastofnuninni?