30.11.1966
Sameinað þing: 12. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í D-deild Alþingistíðinda. (2643)

68. mál, garðyrkjuskóli á Akureyri

Jónas G. Rafnar:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er ljóst af svari hæstv. landbrh., að hann hefur ekki dregið sjálfur að hefja undirbúninginn að því, að athugun færi fram á því, hvort æskilegt væri að koma upp garðyrkjuskóla á Akureyri eða þá í grennd bæjarins. Ég geri ráð fyrir því, að um það megi deila, hvort æskilegt hefði verið, að ráðh. hefði skipað sérstaka n. til þess að framkvæma þessa athugun eða þá að farin væri sú leið, sem ráðh. hefur þó valið, að fela Rannsóknastofnun landbúnaðarins að athuga þetta mál. Ég efast ekkert um, að sú stofnun hafi mikilhæfum mönnum á að skipa og þeir hafi e.t.v. betri aðstöðu en margir aðrir til þess að kynna sér mál, sem sérstaklega varða landbúnaðinn. Hins vegar er því ekki að leyna, að þarna kom þó til álita sjónarmið og þá það sjónarmið, hvort heppilegt væri að hafa hér í landinu einn garðyrkjuakóla eða tvo. Á Norðurlandi hefur nú um langan tíma verið mjög mikill áhugi á því, að þar yrði reistur garðyrkjuskóli. Það er ástæðulaust að nefna í því sambandi nokkur nöfn, en ég vil þó aðeins geta þess, að samtök norðlenzkra kvenna hafa, að ég hygg, oftar en einu sinni gert samþykktir í þessu máli. Ég vil nú eindregið ætlast til þess og fara fram á það við hæstv. ráðh., að Rannsóknastofnunin hafi mjög náið samband við aðila, á Norðurlandi, sem áhuga hafa á þessu máli. Það kom fram hjá hæstv. ráðh., að það hafði verið gert, en ég tel, að það verði þó ávinningur að því, að gengið yrði eins langt fram í þessu atriði og mögulegt er.

Ég er á þeirri skoðun, að garðyrkja eigi það mikla framtíð hér á landi, að það sé fullkominn grundvöllur fyrir tveimur skólum, og sennilega má gera ráð fyrir því, að höfuðgarðyrkjusvæðin verði hér sunnanlands, einhvers staðar á Suðurlandsundirlendinu, og svo við Eyjafjörð og í Suður-Þingeyjarsýslu, einmitt á jarðhitasvæðunum. Og þá teldi ég, að það væri einmitt ástæða til þess að stefna að því, að á báðum þessum svæðum gætu risið upp skálar, sem gætu gegnt þessu merka hlutverki að stuðla að aukinni garðyrkju innanlands.