30.11.1966
Sameinað þing: 12. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í D-deild Alþingistíðinda. (2644)

68. mál, garðyrkjuskóli á Akureyri

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Báðir hv. þm., sem nú hafa talað, telja það hafa verið eðlilega málsmeðferð að fela Rannsóknastofnun landbúnaðarins þá athugun, sem hér er um að ræða, enda hefur Rannsóknastofnun landbúnaðarins yfir að ráða þeim helztu sérfræðingum í hvers konar búfræðum, sem eru í landinu. Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda hafa einnig stór ítök í stjórn þessarar stofnunar. En það er ekki komið svar við þeirri fsp., hvort grundvöllur sé til þess að stofna og reka garðyrkjuskóla norðanlands. Hv. fyrirspyrjandi taldi, að það hefði verið æskilegt að kveðja til áhugamenn að norðan. Þetta má vel vera rétt. Í viðtölum mínum við framkvæmdastjóra Rannsóknastofnunarinnar kom það fram, að hann hefur rætt við ýmsa áhrifamenn og áhugamenn um þetta mál. Hann hefur rætt ýtarlega við Jón Rögnvaldsson garðyrkjumann. Hann hefur rætt við Ólaf Jónsson. Hann hefur rætt við formann Sambands norðlenzkra kvenna. Hann hefur rætt við skólastjóra húsmæðraskóla fyrir norðan og ýmsa fleiri. En ég segi það, ég er reiðubúinn að ræða um það við hv. fyrirspyrjanda og hv. 2. þm. Norðurl. e., hvort rétt sé að kveðja til einhverja vissa menn að norðan á formlegan hátt til þess að vinna með Rannsóknastofnun landbúnaðarins í þessu máli, því að eins og ég sagði áðan, er það grundvallarskilyrði fyrir því, að nokkuð verði gert í þessu máli raunhæft í framtíðinni, að fyrir liggi ýtarlegt álit um þetta mál, sem allir treysta, að samið sé á hlutlausan hátt og af varfærni og þekkingu.

Ég vildi aðeins segja þetta, um leið og ég vil taka fram, að það er búið að byggja miklu meira í sambandi við skólann í Hveragerði en þessar 12 nemendaíbúðir. Það er búið að grundvalla skólastofur fyrir 24—30 nemendur, það er búið að grundvalla eldhús, og það er komin langt þessi bygging á ýmsan hátt, þannig að það verður ekki attur snúið með það, að sá skóli geti tekið 24 nemendur. Og í okkar ört vaxandi þjóðfélagi, sem hefur komið auga á vaxandi þýðingu garðræktarinnar, er það út af fyrir sig ekki neitt skólabákn, þó að við höfum skóla í garðrækt, sem getur tekið 24—30 nemendur. Og ég held, að það sé erfitt að auka kennslukraftana þar eins og nauðsyn ber til og hafa þar fullkomna tilraunastarfsemi og kennslu í þessum fræðum, ef nemendurnir eru miklu færri en ætlazt er til að þeir verði, því að það er vitanlega hægara að hafa fullkomna kennslukrafta og verður tiltölulega ódýrara, ef nemendurnir eru 24—30, heldur en t.d. 8—12, þannig að þótt ákvörðun hafi verið tekin um að byggja skólann í Hveragerði að þessari stærð, getur það átt alveg eins rétt á sér að rannsaka til hlítar, hvort ástæða sé til að koma upp kennslu á Norðurlandi, kannske á öðru sviði, ekki alveg á sama sviði og garðyrkjuskólinn í Hveragerði starfar.