07.12.1966
Sameinað þing: 15. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í D-deild Alþingistíðinda. (2655)

79. mál, sjónvarp til Austurlands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í sambandi við þetta minna á, að þegar þessi mál voru hér til meðferðar á dögunum og hæstv. menntmrh. lýsti þessum efnum fyrir hv. Alþ., stakk ég upp á því, að sú stefna yrði tekin varðandi útbreiðslu sjónvarpsins, að allar aðalendurvarpsstöðvarnar kæmu upp í senn, gætu orðið tilbúnar á sama tíma. Og ég lýsi ánægju minni yfir því, að nú er að heyra á yfirlýsingu hæstv. menntmrh., að stjórnin hafi tekið upp þessa stefnu, ég skil yfirlýsingu hans þannig um þetta, að það verði keppt að því, að allar þessar aðalendurvarpsstöðvar geti komizt upp á sama tíma og allt verði gert, sem í mannlegu valdi stendur, til þess að slíkt megi verða og ekki standi á peningunum í því efni. Ég er ánægður með þetta fyrir mitt leyti, en tel, að samþykkja ætti þá brtt., sem framsóknarmenn í Ed. flytja við frv. um breyt. á útvarpslögunum, því að með því væri tryggt, að sjónvarpið kæmist um allt landið á stuttum tíma eða fyrir árslok 1969. En sem sagt, það, sem nú hefur komið fram, er framför frá því, sem fyrst var áformað í þessu, og ég vil þakka fyrir það.