07.12.1966
Sameinað þing: 15. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í D-deild Alþingistíðinda. (2656)

79. mál, sjónvarp til Austurlands

Fyrirspyrjandi (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessi svör. Ég vænti, að það standi ekki á hlut Alþ. í þessu máli að greiða fyrir því, að að því leyti sem fjárhagsvandi er hér á ferðum, verði reynt að láta byggingu þessara stöðva ekki stranda á honum. Hitt er mér mjög vel ljóst, að það munu koma fram ýmsir tæknilegir örðugleikar, sem ekki verða séðir fyrir. En ég vil lýsa ánægju minni yfir þeim góða vilja, sem er á því að reyna eftir megni að styðja að því, að allar þessar höfuðstöðvar komist upp sem mest samtímis, þannig að sem jöfnust sé aðstæða allra landsmanna til þess að njóta sjónvarpsins.