02.02.1967
Sameinað þing: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í D-deild Alþingistíðinda. (2660)

89. mál, bygging verkamannabústaða

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Fsp. mín á þskj. 89 er í þremur tölul. varðandi framkvæmd á byggingu verkamannabústaða á árinu 1966 og um það, hvaða möguleikar séu til byggingar verkamannabústaða á árinu 1967, yfirstandandi ári. Það er ástæðulaust að fjölyrða um þessa fsp. Hún er þannig orðuð, að hún liggur ljóst fyrir og þarf ekki útskýringa með. En hún er fram borin vegna þess ástands, sem skapazt hefur í húsnæðismálum þjóðarinnar, og það ástand er þannig, að fyllsta ástæða er til að fullnýta alla möguleika til þess að bæta úr húsnæðisvandamálunum, og liður í því er auðvitað framkvæmd á vegum byggingarsjóðs verkamanna, þ.e.a.s. við byggingu verkamannabústaða. Þar má ekki nokkurt hlé á verða. En ég hygg, að það muni rétt vera, að byggingarsjóður verkamanna hefur engum lánum úthlutað á árinu 1968 og þannig verið lægð, að ég ekki segi alger kyrrstaða í starfsemi sjóðsins á liðnu ári. Ef þetta er ekki rétt, mun það koma fram í svari hæstv. ráðh. núna á eftir. En ef þetta er hins vegar rétt, þykir mér það mjög miður, að svo skuli hafa farið, að byggingarsjóður verkamanna skuli í raun og veru ekki hafa getað haft neinar framkvæmdir með höndum til þess að mæta ríkri og aðkallandi þörf í húsnæðismálum verkalýðsstéttarinnar. En það, sem skiptir þó meira máli, er alltaf það, sem fram undan er, og þess vegna er 3. liður fsp. um það, hve miklar tekjur sjóðnum séu tryggðar til byggingar verkamannabústaða á árinu 1967, og með svarinu við þeim lið fsp. fáum við hugmyndir um það, hvernig getur rætzt úr framkvæmdum á vegum byggingarsjóðs verkar manna á yfirstandandi ári, og það skiptir þó enn meira máli.