02.02.1967
Sameinað þing: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í D-deild Alþingistíðinda. (2661)

89. mál, bygging verkamannabústaða

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinson):

Herra forseti. Í svörum mínum við þessum fsp. hv. fyrirspyrjanda tel ég nauðsynlegt að leiðrétta hugsanlegan misskilning í grundvelli fsp, en á þeim gæti skilizt, að um árlegar heildarlánveitingar eða úthlutanir væri að ræða hjá byggingarsjóði verkamanna. Í fundargerðum þeim, sem núverandi stjórn byggingarsjóðs verkamanna hefur undir höndum og nær aftur til ársins 1947, eða yfir starf sjóðsins s.l. 20 ár, hafa heildarlánveitingar aldrei farið fram árlega. Á s.l. 10 árum hafa t.d. 4 heildarlánveitingar farið fram, þ.e. á árinu 1957 til 112 íbúða, á árinu 1959 til 150 íbúða, árið 1962 til 140 íbúða og í árslok 1965 til 161 íbúðar, en þá fór fram síðasta heildarlánveiting eða ákvörðun um lánsloforð. Ástæðuna til þessa fyrirkomulags mun m.a. mega rekja til þess, að byggingartími húsanna hefur reynzt vera að meðaltali 2—3 ár, en þó jafnvel lengri á ýmsum stöðum. Á árunum, sem þarna eru á milli heildarlánveitinganna, hefur svo ávallt reynzt nauðsynlegt að hækka lánveitingar til einstakra byggðarlaga og þar með fjölga íbúðum, sem lánað er til, þar sem einstök byggingarfélög hafa þá ekki reynzt eiga þess kost að fá hentugar lóðir undir þann íbúðafjölda, sem sjóðsstjórnin upphaflega ákvað til viðkomandi staðar. Þessar nauðsynlegu leiðréttingar koma ljóslega fram í eftirfarandi lánveitingum á árunum milli heildarlánveitinganna, en árið 1955 er slík leiðrétting 46 íbúðir, 1956 32, 1958 er engin slík leiðrétting, þ.e.a.s. engin lánveiting á því ári, og 1960 eru 15 íbúðir, 1961 9, 1963 30 íbúðir og 1964 2 íbúðir.

Lánsveitingar ásamt viðbótarlánum á vegum byggingarsjóðs verkamanna í krónum hafa á þessu 10 ára tímabili numið 200 millj. 705 þús. kr. til 697 íbúða og skiptast þannig á einstök ár: Árið 1955 6 millj. 495 þús., 1956 4.8 millj., 1957 16 mill j. 560 .þús., 1958 ekkert, 1959 28 millj. 630 þús., 1960 2 millj. 260 þús., 1961 3.4 millj., 1962 44.3 millj., 1963 9.6 millj., 1964 600 þús. og 1965 eða í árslok þess árs 89 millj. 60 þús. Skal ég nú víkja að einstökum fsp. fyrirspyrjanda.

Það er í fyrsta lagi, að spurt er um, hve miklum fjárupphæðum hafi verið úthlutað úr byggingarsjóði verkamanna á árinu 1966 til byggingar verkamannabústaða. Svar: Á árinu 1966 voru afgreiddar úr sjóðnum kr. 24.873.570,67. Ný lánsloforð voru ekki gefin út á því ári.

Spurt er í öðru lagi: Hve mikið fé hefur ríkisstj. lagt sjóðnum auk eigin tekna hans á árinu? Svar: Fyrir milligöngu ríkisstj. voru samkv. framkvæmdaáætlun byggingarsjóði verkamanna útvegaðar að láni af tæpum 25 millj. 14.9 millj. kr. af því fé, sem á árinu var afgreitt.

Í þriðja lagi: Hve miklar tekjur eru sjóðnum tryggðar til byggingar verkamannabústaða á árinu 1967? Svar: Svo sem í upphafi var getið, hér nú sem fyrr nauðsynlegt, áður en fyrirhuguð heildarlánveiting fer fram, sem fyrirhuguð er nú á allra, næstu vikum, að gera sér ljósa grein fyrir tekjum sjóðsins og lánsmöguleikum a.m.k. á næstu tveimur árum, áður en unnt er að segja með nokkurri nákvæmni, hve heildarlánveiting eða lánsloforð getur numið hárri upphæð, og þá til hve margra íbúða. Frá því á s.l. hausti hefur verið og er enn unnið að samningu framkvæmdaáætlunar. Því verki er enn ekki lokið, og á þessari stundu verður því ekki með neinni vissu eða nákvæmni sagt, hvert ráðstöfunarfé sjóðsins verður á árinu eða næsta byggingartímabili. Strax og þessar tölur liggja fyrir, mun sjóðsstjórnin með nýrri heildarlánveitingu hefjast handa um ráðstöfun þess fjár, og væntanlega mun ekki líða á löngu, að svo geti orðið.

Í sambandi við þessar fsp. væri æskilegt að ræða ýmsar fleiri hliðar á starfsemi byggingarsjóðs verkamanna, en þar sem fsp. sjálfar gefa ekki tilefni til þess, mun ekki nánar út í þau atriði farið að þessu sinni. Ég vænti þess, að þessi svör verði af fyrirspyrjanda talin fullnægjandi við fsp. hans, þó að það skuli fúslega viðurkennt, að varðandi 3. liðinn, sem fyrirspyrjandi lagði eðlilega mesta áherzlu á, hvílir enn nokkur óvissa, en ég fullvissa hann um, að það er að því unnið og gert með þeim hraða, sem mögulegt er.