08.02.1967
Sameinað þing: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í D-deild Alþingistíðinda. (2671)

85. mál, rafmagnsmál Austurlands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er langt síðan þessi fsp. var til umr., og menn hafa að sjálfsögðu dálítið ryðgað í því, sem þá fór fram. En ég vil samt sem áður segja hér þau fáu orð, sem ég ætlaði að bæta við þær umr., sem þá áttu sér stað, þó að þetta slitni sundur á þennan hátt. En fsp. er um það, hvaða ráðstafanir séu fyrirhugaðar í rafmagnsmálum Austurlands til þess að koma í veg fyrir, að hliðstæðar rafmagnstruflanir og átt hafa sér stað að undanförnu endurtaki sig. En þessu svaraði hæstv. raforkumrh. þannig, að það mundi verða gerð gangskör að því að bæta við dísilstöðvum til þess að framleiða meira rafmagn með því móti, og síðan flutti hann nokkurt mál eða nokkra skýrslu um það, hvað gert hefði verið til þess að athuga um aðrar og meiri háttar framtíðarráðstafanir í raforkumálum Austurlands.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að leggja áherzlu á það, sem hv. þm. Austf., Lúðvik Jósefsson, sagði, að það þolir enga bið að bæta rösklega úr rafmagnsskortinum nú þegar með auknu dísilafli. En það er þó engin lausn, því að öryggisleysið er slíkt í þessu dísilkerfi, að við það verður ekki unað, því að segja má, að lítið sé um varastöðvar að ræða, þegar mestmegnis eru notaðar dísilstöðvar og þá ekki miklu meiri að orku en þarf til þess að fullnægja toppnum. Er þetta auðskilið, að dísilstöðvar geta ekki verið til vara fyrir sjálfar sig. En venjulega er það þannig, að dísilstöðvar eru hafðar til vara við vatnsaflsstöðvar.

Tjónið, sem af þessu hefur orðið, verður ekki mælt í neinum smáfjárhæðum, eins og hv. þm. upplýsti. Það hefur engin vatnsvirkjun verið framkvæmd á Austurlandi, síðan Grímsárvirkjun var byggð, en hún var miðuð við allt annað ástand en nú er í þessum landshluta, því að raforkunotkun hefur vaxið þar meira en nokkurs staðar annars staðar í landinu, margfaldazt á þeim árum, sem liðið hafa síðan Grímsárvirkjunin var sett á fót, og gefur þá auga leið, hvernig komið er. Það hefur verið klastrað einni dísilvélinni við aðra í ýmsum byggðarlögum og þetta skeytt saman með háspennulínum. En fyrir utan öryggisleysið, sem af þessu stafar, er rétt að upplýsa það, sem fram kom á fundi nýlega á Egilsstöðum, sem haldinn var um raforkumál Austurlands, að rekstrarhallinn á þessu kerfi mun s.l. ár hafa orðið um 16 millj. kr. Það er því búið hað gera óhemjuskaða, að ekki hefur verið hafizt handa um aðra og heppilegri úrlausn fyrr til þess leysa þennan vanda. Það hefur sem sé dregizt allt of lengi að bæta við vatnsaflsvirkjun, og það sést bezt núna, þegar farið er að skoða, þessi mál loksins, að þá kemur það í ljós, að þarna er hægt að virkja mjög góða vatnsaflsvirkjun, þar sem Lagarfossvirkjunin er, sem innan fárra ára mundi bera sig. Og mér skilst, að hallinn mundi aldrei verða, jafnvel ekki í byrjun, neitt líkur því, sem hann er nú á dísilstöðvakerfinu, og innan skamms mundi þessi virkjun síðan taka að bera sig eða rekstur kerfisins í heild, ef skynsamlega væri á þeim málum haldið.

Ég mun í sambandi við annað mál, sem er hér á dagskrá í hv. Nd., fara nánar inn á frambúðarúrræði í ratorkumálum Austurlands, sem þarf að grípa, til án nokkurrar talar, og ekki nota þessar örfáu mínútur, sem ég hef hér, til þess að fara nánar út í það. En ég vil í sambandi við þetta og að gefnu tilefni frá hæstv. ráðh. í því, sem hann sagði í sambandi við fsp., einmitt ítreka þær óskir Austfirðinga, sem fluttar hafa verið til hæstv. ráðh., að menn af Austurlandi verði skipaðir í þá n., sem hæstv. ráðh. hefur komið á fót til þess að íhuga raforkumál Laxársvæðisins og Austurlands.

Þessu hefur ekki verið nógu vel tekið enn þá af raforkumálstjórninni, en ég vil vona, að það lagist, þegar íhugað er nánar, hvernig málsvextir eru í þessu efni. En um það sagði hæstv. ráðh. í umr. um þessa n., sem sett var á fót í haust og í eru fulltrúar af Norðurlandi, en ekki af Austurlandi, en á þó að athuga, ratorkumál beggja landshluta saman, — ráðh. sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta (Forseti: Ræðutíminn er búinn.) Já, ræðutíminn er nú búinn, en aðalefni þess, sem ég ætlaði að lesa, og mun þá nota síðari 5 mínútur mínar til þess að koma, á framfæri, er það, að þessi n. á að íhuga raforkumál beggja þessara landshluta, og vona ég, að hæstv. ráðh. sjái, að það er sanngjarnt að bæta þar í mönnum af Austurlandi.