08.02.1967
Sameinað þing: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í D-deild Alþingistíðinda. (2680)

208. mál, jafnrétti Íslendinga í samskiptum við Bandaríkin

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson). Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Hann lauk máli sínu með því að segja, að við værum ekki slíkt stórveldi, að við gætum heimtað að fá aðra meðferð en ýmis önnur voldugri ríki hafa. Við eru ekki heldur svo smáir, að við eigum að láta bjóða okkur það, jafnvel þó að við séum þeir minnstu og þeir þeir stærstu, að vera meðhöndlaðir öðruvísi en við meðhöndlum Bandaríkjamenn. Ég álít, að við eigum hér, Íslendingar, að sýna það í verki, að við gerum kröfu til þess, að allar þjóðir séu jafnréttháar í þessum efnum, og hvort sem 60 þjóðir beygja sig fyrir því og hverjar sem þær eru, að þær vilji svo gjarnan fá dollara til sín, að þær þess vegna hleypi öllum Bandaríkjamönnum inn í landið og sætti sig við það, að þeirra eigin þegnar hafi ekki sama rétt gagnvart Bandaríkjamönnum, álít ég enga ástæðu til þess, að Íslendingar geri slíkt hið sama. Ég álít, að við eigum vel að geta sagt það fyrir okkar leyti, að við gerum kröfu til þess, máske þó að enginn annar geri það, að vera meðhöndlaðir sem jafnréttháir menn og Bandaríkjamenn. Við eigum ekki að viðurkenna neina stórveldisafstöðu í slíku. Ég veit ósköp vel, og það voru upplýsingarnar, sem hæstv. utanrrh. gaf, að Bandaríkin hafa, eftir að þau voru búin að græða á hörmungum annarra í veröldinni, fyllzt slíkum ofmetnaði eftir síðustu styrjöld, að þau hafa gert kröfu til þess, að allar aðrar þjóðir sættu sig við öðruvísi meðhöndlun en þeirra eigin menn væru meðhöndlaðir. Og þó að menn hafi kannske gert það út úr neyð eftir stríð eða seinna meir til þess að ná sér í dollara, er ekki nokkur ástæða til slíkrar niðurlægingar fyrir þessar þjóðir, og ég held, að það væri alveg rétt af Íslendingum að ryðja brautina þar á undan og segja við Bandaríkjamenn:

Við þolum ekki þetta. — Hvernig við framkvæmum slíkt, her allt annað mál. Hæstv. utanrrh. benti réttilega á, að vafalaust mundu allflestir fá áritun, sem um það bæðu. En þá eru lög í gildi, þau sömu í báðum ríkjunum, og það eru viðkomandi stjórnir í báðum ríkjunum, sem ráða því, hvað gert er. Ég býst ekki við, að við hér heima færum að fara í neitt pólitískt manngreinarálit um það, hvaða Bandaríkjamönnum við slepptum hingað inn, en ríkisstj. okkar hefði þá sama rétt og ríkisstjórn Bandaríkjanna sér til handa. Ég álít þess vegna, að þetta eigi að taka til athugunar og við gætum ósköp vel, ef sérstaklega stæði á, neitað mönnum frá Bandaríkjunum um áritun hér, ef okkur þætti vera verið að misbeita slíku valdi gagnvart okkur.

Það er alveg óhætt að láta Bandaríkin vita það, að þau séu í þessu efni alveg sérstök í allri veröklinni með þeim „idíótísknu“ lögum, sem þau hafa samþykkt. Það gerir ekkert til, þó að þau gái að vita, hvers konar álit við, þó að við séum smáþjóð, höfum á þeim hvað slíkt snertir. Ég álít þess vegna, að við eigum að taka þetta jafnt til athugunar, þó að aðrar þjóðir og það svona margar hafi álitið sig eiga að sætta sig við þessa meðferð. Þetta err niðurlægjandi fyrir eina þjóð, og ég veit, að svo og svo mikið af trúnaðarmönnum og framámönnum Bandaríkjanna skammast sín fyrir þessa löggjöf og gera oft það, sem þeir geta, til að koma í veg fyrir, að henni sé beitt. En afturhaldið í þeirra þingi er auðvitað mjög fastheldið á gömul, vitlaus lög, sem þeir hafa samþykkt, og þess vegna erfitt að fá þeim breytt. En ég gæti vel trúað, að ef við ,hér á Íslandi sýndum það, að við vildum ekki una þessu lengur, yrðu fleiri þjóðir til þess að ranka við sér í Evrópu. Það er nú einu sinni svo, þrátt fyrir alla dýrkun fyrir dollaranum, að straumurinn er að snúast við í þeim efnum, að sú mikla og volduga aðstaða, sem Bandaríkin hafa haft, fyrst og fremst vegna sinnar fjárhagslegu aðstöðu, er að hverfa, og ríkin í Evrópu hafa sýnt það undanfarið, að þau hafa verið að hrista af sér þau miklu áhrif, sem Bandaríkin hafa haft. Ég mundi þess vegna mjög fagna því, et hæstv. ríkisstj. tæki þetta til athugunar og máske yrðu gerðar ráðstafanir til þess, að hér á Alþingi yrðu gerðar einhverjar ákvarðanir í þá átt að tryggja, að Íslendingar séu jafnréttháir Bandaríkjamönnum í þessum efnum.