22.02.1967
Sameinað þing: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í D-deild Alþingistíðinda. (2694)

212. mál, varðveisla skjala og gagna þingkjörinna og stjórnskipaðra nefnda

Fyrirspyrjandi (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. skilmerkileg svör við fsp. minni og tel þau eftir öllum atvikum vera fullnægjandi. En það kemur greinilega í ljós sá vankantur, sem hér hefur verið á, að það hefur ekki verið nægilegt aðhald um það, að slíkar n., sem hér hefur verið um að ræða, skili raunverulega sínum verkefnum. Og það má auðvitað því kannske um kenna, að þegar mþn. hafa verið kjörnar, hefur það a.m.k. ekki verið alveg algild regla, að þær hafi einhvern ákveðinn starfstíma. En ég tel ástæðu til þess að vekja athygli á því, að það sé rík ástæða til þess af hálfu Alþ. annars vegar og af hálfu rn. hins vegar að sjá til þess, að slík gögn, sem hér getur verið að ræða um, séu raunverulega afhent, því að það er auðvitað alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að þess er varla að vænta, að þau gögn, sem aldrei er skilað, hljóti varanlega varðveizlu.

Varðandi svör hæstv. ráðh. að því leyti, sem snertir þingkjörnar n., mþn., mundi ég telja eðlilegt, að alþm. ættu ótvíræðan aðgang að þeim og þyrftu ekki þar á nokkurn hátt undir högg að sækja, þar sem um er að ræða n., sem vinna í þágu Alþ. og alþm., og þar ætti ekki raunverulega að hafa neinn fyrirvara á. Hitt kann að gegna öðru máli, þegar n. eru stjórnskipaðar. Ég skal ekki um það dæma, en vil þó benda á, að á síðari árum hafa hinar stjórnskipuðu n. yfirleitt komið í stað mþn., sem áður voru tíðar. Ég tel þá breytingu vera til hins verra og störf þessara n. séu einhæfari og stjórnarandstaðan sé meira útilokuð frá því að koma sínum sjónarmiðum að varðandi mikilvæg löggjafaratriði. Í raun og veru yrði þess vegna að telja það fullkomlega sambærilegt, eins og yfirleitt hefur verið hagað þessum málum nú á síðari árum, annars vogar þær mþn., sem kosnar voru hér á árum áður, meðan það var algengt starfsform, og hins vegar þær stjórnskipuðu n., sem nú starfa að tilhlutan ríkisstj.