22.02.1967
Sameinað þing: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í D-deild Alþingistíðinda. (2698)

211. mál, rekstrarvandamál báta

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason):

Herra forseti. Með bréfi 11. nóv. 1965 skipaði hæstv. sjútvmrh. 5 manna n. alþm. til þess að rannsaka rekstrarvandamál smærri báta. Áður höfðu um nokkuð langan tíma verið uppi háværar raddir um sérstaka örðugleika, sem þessi atvinnugrein ætti við að stríða, og fögnuðu því margir, sem nákunnugastir voru þessum atvinnuvegi og störfuðu í honum, nefndaskipuninni og bundu við hana miklar vonir. N. starfaði lítið á árinu 1965, en fyrri hluta árs 1966 vann n. nokkuð ötullega að athugunum á þessum málum. Það varð að samkomulagi, held ég megi fullyrða, í n., að leggja bæri áherzlu á, að n. gæti orðið sammála í þeim till., sem gerðar yrðu, og bera till. enda nokkurn keim af því samkomulagi, því að vissulega var í ýmsum atriðum gengið skemmra í till. n. en ég fyrir mína parta hefði viljað. En um það var ég bundinn vegna þess, að fyrir mér og ég hygg hinum fulltrúa stjórnarandstöðunnar líka hafi það verið nokkuð veigamikið atriði, að samkomulag gæti tekizt um till. í n., því að þá væru meiri líkur til þess, að þær næðu fram að ganga. Till. var síðan skilað til rn. í júní 1966. En nál. var hins vegar ekki útbýtt hér á hv. Alþ. fyrr en í októbermánuði, að mig minnir, og þá eftir að gerð hafði verið sérstök fsp. um till. þær, sem n. þessi gerði, því að ýmsa var farið að lengja eftir því að fá að sjá þær. En síðan í júní hafa sem sagt till. legið fyrir í sjútvmrn. Mörgum finnst, að verulega mikill dráttur sé orðinn á framkvæmd þeirra till., sem n. gerði, og ganga um þetta ýmsar sögur. Ég hef þess vegna talið eðlilegt, eftir að jafnlangur tími er liðinn frá því, að till. voru lagðar fram, að gera fsp. til hæstv. sjútvmrh. þess efnis, hvað liði framkvæmd till. bátanefndarinnar svokölluðu. Sú fsp. liggur frammi á þskj. 202, og vona ég, að hæstv. ráðh. geti gefið skýr og skilmerkileg svör um framkvæmd þeirra till., sem bátanefndin hefur gert. svo að almenningur og þeir sérstaklega., sem sérstakan áhuga hafa á þessum málum, geti vitað hið rétta, en þurfi ekki að styðjast við sögusagnir einar, eins og því miður hefur að verulegu leyti þurft að gera til þessa.