22.02.1967
Sameinað þing: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í D-deild Alþingistíðinda. (2705)

211. mál, rekstrarvandamál báta

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta í ljós vonbrigði mín með svar hæstv. ráðh. við þeirri spurningu, sem ég beindi til hans áðan. Ráðh. staðfesti það, að hæstv. ríkisstj. hefði lofað útvegsmönnum fé fyrir þeirra afla, sem þeir hefðu ekki fengið og ekki verið gerðar ráðstafanir til þess að láta þá hafa það, aðrar en þær að undirbúa það eitthvað útreikningslega. Þegar á það er litið, að útvegsmenn víða um land hafa látið í ljós vonbrigði sín með fiskverðið yfirleitt, talið það of lágt, og slæmar gæftir hafa rýrt þann afla, sem menn gerðu sér vonir um, er það víst ekki til of mikils mælzt, þó að útvegsmenn fengju það verð, sem þeim hefur verið lofað, og ég vil skora á hæstv. ráðh. að beita sér fyrir því, að ráðstafanir verði tafarlaust gerðar til þess, að útvegsmenn fái þetta fé. Hæstv. ráðh. gaf þá skýringu á þeim drætti, sem á þessu hefur orðið, að það sé verið að bíða eftir einhverjum samningum við aðra menn um önnur atriði, en ég get ekki ímyndað mér, að árangur eða afdrif slíkra samningaumleitana muni hafa nein áhrif á að það verði staðið við það, sem lofað var í sambandi við fiskverðið.