22.02.1967
Sameinað þing: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í D-deild Alþingistíðinda. (2706)

211. mál, rekstrarvandamál báta

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki hægt að koma við neinum umr., sem kalla mætti því nafni, um þetta mikilsverða mál í fsp.-tíma, vegna þess hvað ræðutími er takmarkaður, enda geri ég ráð fyrir, að það hljóti að koma fljótlega fyrir hér með öðru sniði.

En ég vil þó nota þessar örfáu mínútur, sem ég má tala í sambandi við þessa fsp., til þess að minna á það, að þegar hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir hinu langa jólahléi, beitti sér fyrir því að senda þingið heim og láta þm. vera heima til janúarloka, var Framsfl. á móti því, og við bentum á, að slík vandkvæði væru orðin á um bátaútveginn og vertíðina, sem í hönd færi, að óhugsandi væri annað en að gera þyrfti stórfelldar ráðstafanir, til þess að flotinn færi á stað eða gæti gengið með eðlilegum hætti.

Við vildum þess vegna alls ekki gefa svona langt jólarhlé, heldur að þingið kæmi strax saman að baki áramótanna og tæki þessi mál þá fyrir. En hæstv. ríkisstj. skellti skollaeyrunum við þessum uppástungum og þessum ábendingum. En nú hefur þetta auðvitað allt farið eins og fyrirsjáanlegt var, en hæstv. ríkisstj. virtist ekki vilja sjá. Málin hafa farið algerlega í hnút og ríkisstj. verið að bisa við að leysa þann hnút að einhverju litlu leyti, án þess að hafa Alþingi á nokkurn hátt með í ráðum, og svo stöndum við frammi fyrir því, að nú er febrúarmánuður að verða liðinn, en útvegsmenn, eins og hér hefur verið upplýst, enn ekki fengið neinn stuðning. ríkisstj. á hinn bóginn lofað einhverju, sem er meira eða minna óljóst hvað er, en ekkert lagt enn þá fyrir hv. Alþingi.

Ég vil víta þetta alveg sérstaklega og víta það alveg sér í lagi, að hæstv, ríkisstj. skyldi ofan á allt annað láta undir höfuð leggjast að leggja þessi mál fyrir Alþingi, undireins og það kom saman, sem auðvitað var alveg skylt, að leggja þá þessi málefni fyrir á Alþingi, til þess að menn gætu hér þá þótt seint væri, krufið til mergjar, hvað þeir vildu láta gera fyrir útveginn. En nú segir hæstv. ráðh., þegar talað er um, að stuðningurinn sé ekki kominn fram, sem þeir hafa gefið vilyrði um, að það verði byrjað að greiða, þegar aflað hafi verið heimildar til þess á Alþingi.

Þarna sjáum við því, hvað leiðir af þeim drætti, sem hæstv. ríkisstj. hefur staðið fyrir í þessu máli. Hún hefur haldið á þessu á vítaverðan hátt, því að það átti auðvitað að hafa mjög stutt þinghlé, síðan átti að taka þessi mál fyrir tafarlaust„ þegar Alþingi kom saman, og átti þannig að vera búið að fjalla um þau hér fyrir löngu og ráða þeim til lykta á skynsamlegan hátt, þannig að sjávarútvegurinn hefði vitað, hvar hann stóð fyrir vertíðina.

Af þessu er meira tjón fyrir þjóðarbúið. hvernig hæstv. ríkisstj. hefur hagað sér í þessu, en hægt er að telja með nokkrum tölum eða áætla með nokkurri nákvæmni. En við vitum, að af þessu hlýtur að leiða stórfellt tjón fyrir þjóðarbúið, öllum þeim vesaldómi, sem fram hefur komið af hendi hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta málefni.

Síðan kemur hæstv. sjútvmrh. hér og segir, að hér hafi verið í stærstu dráttum farið eftir áliti mþn. um bátamálin, þó að það sé upplýst í umr., að sú n. lagði til, að fiskverðið skyldi hækkað um 10% á árinu 1966, en á því ári verður fiskverðið ekkert hækkað — ekkert. Það er sem sé ekkert farið eftir till. n. í því, sem var aðalmálið. N. gerði enga till. um, hvert fiskverðið ætti að vera fyrir árið 1967. Það er m.ö.o. ekkert tillit tekið til álits mþn. í þessu meginatriði, og þó voru menn í henni úr öllum stjórnmálaflokkum. Þetta er algerlega hunzað, en síðan slett í nokkrum uppbótum með þessum hálfyrðum öllum saman og á málinu haldið eins og ég hef lýst í aðeins örfáum orðum.

Hæstv. sjútvmrh. læzt vera alveg hissa á því, að hv. alþm. skuli ekki taka þessu með þökkum, og kallar það að smjatta á erfiðleikum útgerðarinnar, að menn leyfa sér að ræða þessi mál hér málefnalega. Er það kannske skoðun hæstv, ráðh., að alþm. eigi að láta eins og ekkert sé, þó að bátaútvegurinn sé að dragast upp smátt og smátt eða raunar heldur hröðum skrefum, og það sé ámælisvert, að hv. alþm., ég vil nú segja seint og um síðir, vekja máls á þessu? En ég endurtek vítur mínar á hendur hæstv. ríkisstj. út af þessari málsmeðferð.