22.02.1967
Sameinað þing: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í D-deild Alþingistíðinda. (2712)

211. mál, rekstrarvandamál báta

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé mikill misskilningur hjá hæstv. sjútvmrh., ef hann stendur í þeirri meiningu, að það væri í þágu útvegsmanna og sjómanna, að öllu væri tekið þegjandi með þökkum, sem hæstv. ríkisstj. réttir að þeim um þessar mundir. Og ég held, að fáir útvegsmenn og sjómenn séu sammála hæstv. ráðh. um þetta. Hann talar um, að erfiðleikar útvegsins nú stafi af lækkun á afurðaverði. Já, afurðaverð hefur lækkað talsvert, því miður. En þó mundi bátaútvegurinn hafa staðið með miklum blóma þrátt fyrir það og ekki vera í neinum vanda staddur, ef stjórnarstefnan hefði ekki leikið atvinnuvegina í landinu eins og hún hefur gert og búið þeim þann vanda, sem þeir nú standa frammi fyrir.

Þetta sést bezt á því, að þrátt fyrir þá verðlækkun, sem orðið hefur, er verð á sjávarafurðum yfirleitt miklu hagfelldara en var um það leyti, sem byrjað var að framkvæma hina svokölluðu viðreisnarstefnu. En þetta verður sjálfsagt rætt miklu nánar síðar, en búast má náttúrlega við, að hæstv. sjútvmrh. verði ekkert ánægðari með þær umr. en þessar, sem hér hafa farið fram, en það verður sjálfsagt að gera það samt.

Varðandi það, sem einn hv. þm. fann að við mig áðan lítillega, að væri ekki rétt hjá mér, að það væri óljóst, hvað ríkisstj. ætlaði sér að gera í þessum málum, og fannst það ósanngjarnt af minni hendi að segja það, þá held ég, að þar hafi ekkert verið ofmælt af minni hálfu. Í fyrsta lagi vegna þess, að svör hæstv. ráðh. hér um það t.d., hvenær eigi að greiða hinar lofuðu uppbætur, eru býsna loðin. Hér á Alþ. hafa svo engar upplýsingar verið gefnar enn um það, hvað eigi að gera fyrir frystihúsin, og mundi ég þó telja, að það væri ekki alveg óskylt þessum málum, hvað á að gera fyrir þau, og hæstv. ráðh. var rétt áðan að segja, að það væri talað um þetta rétt eins og þau mál væru óskyld. Í þriðja lagi hefur hæstv. ráðh. sjálfur upplýst það, að meginhlutinn af þeim till., sem mþn. í bátaútvegsmálum gerði, er enn algerlega óafgreiddur og búið að dreifa þeim hingað og þangað út í „ríkisapparatið“ og engan veginn ljóst um neina þeirra, hvað hæstv. ríkisstj. ætlar að gera. Ég held því, að það sé vægilega til orða tekið, að það sé óljóst enn í dag, hvað hæstv. ríkisstj. ætlar að gera í málefnum bátaútvegsins.

Það hefði þó þurft að ljúka þeim málum í janúar, og það var öll þessi vinnuaðferð, sem ég hef vítt, og ég hef haldið því fram og það mun vera á allra manna vitorði, að það er nú þegar orðið stórkostlegt þjóðartjón að því, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur haldið á þessum málum, m.a. dregið þau algerlegs, óeðlilega, og enn er óljóst, hvað hún ætlar að gera. Þetta hefur haft ótalin áhrif á fyrirætlun manna í þessum efnum og rekstur bátaflotans.

Ég vil sérstaklega í þessum umr. taka fram og skal láta það vera mín síðustu orð, að það liggur fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefur nálega ekkert framkvæmt af þeim till., sem mþn. í bátaútvegsmálum lagði til. Till. um hækkun á fiskverði 1966, þ.e.a.s. hækka um 10%, hefur hæstv. ríkisstj. látið eins og vind um eyrun þjóta og ekkert eftir henni farið, og öðrum till. hefur hún dreift, eins og ég sagði áðan, til athugunar hingað og þangað í „ríkisapparatið“ og er ekki reiðubúin að svara neinu enn í dag og eru þó komin nálega febrúarlok.