01.03.1967
Sameinað þing: 27. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í D-deild Alþingistíðinda. (2726)

215. mál, könnun á hag dagblaðanna

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. þær upplýsingar, sem hann hefur hér gefið. Hvað snertir orðalagið á minni fyrstu spurningu, tók ég það beint upp eftir Alþýðublaðinu, öðru stjórnarblaðinu, síðast í febrúar í fyrra. Þá var það einmitt orðað þannig, að ríkisstj. mundi láta fara fram könnun á hag og stöðu íslenzku dagblaðanna. Það gleður mig að heyra, að ríkisstj. hefur samt sem áður verið að athuga þessi mál, kynna sér, hvað gert hefur verið í þessu sambandi erlendis, og eftir því sem ég skildi af hæstv. forsrh., er henni ljóst, að þetta sé verulegt vandamál og þeir hlutir, sem þarna hafa verið athugaðir sérstaklega, séu þá, hvernig blöðin mættu að einhverju leyti fá t.d. greiðslur fyrir þá þjónustu, sem þau láta í té. Aðeins atriði eins og það, hvað blöðin segja frá viðvíkjandi útvarpi, viðvíkjandi heilbrigðisráðstöfunum, viðvíkjandi sjónvarpi og viðvíkjandi öllu mögulegu slíku, mundi samsvara tiltölulega mjög dýrmætum auglýsingum, ef slíkt væri greitt. Enn fremur er vitanlegt, að útgjöldin í sambandi við póst og síma eru ákaflega tilfinnanleg, þannig að ef hið opinbera sæi sér fært að lækka slíkt sérstaklega viðvíkjandi blöðunum, er það líka hlutur, sem munar mjög mikið um. En svo er eitt, sem er alveg sérstaklega athugunarvert í þessu sambandi, og það er jafnrétti blaðanna, a.m.k. hvað snertir allar opinberar auglýsingar. Það er líka atriði, sem gæti þýtt ákaflega mikið í þessum efnum. Ég efast ekki um, að með skilningi stjórnarvalda á því hlutverki, sem blöðin hafa að gegna, og ef litið er á það með sanngirni, að þau eigi að geta lifað og þeir aðilar, sem standa á bak við þau skoðanalega, eigi allir að geta haft sama rétt til þess að koma sínum skoðunum á framfæri, mundu ýmsar svona ráðstafanir stjórnarvalda áreiðanlega geta farið mjög langt í því að gera það a.m.k. bærilegt fyrir viðkomandi aðila að halda blöðunum uppi. Eins og allir vita, er það mjög óréttlátt, a.m.k. frá sjónarmiði þeirra, sem ekki eru beint í náðinni, að þeir aðilar, sem ráða yfir auglýsingunum, og þá á ég sérstaklega við einkaauglýsendur, skuli raunverulega hafa sérréttindi í þjóðfélaginu til þess að geta gefið út blöð. En þannig er það raunverulega núna„ því að við vitum allir, að tekjur blaða af auglýsingum, þeirra sem vel gengur, eru venjulega miklu meiri en tekjur þeirra af áskrifendum.

Ég vil þess vegna leyfa mér að skilja hæstv. forsrh. og það, sem fram hefur komið af hálfu ríkisstj. um þetta mál, þannig, að það sé enn verið að íhuga, á hvern máta e.t.v. mætti leysa úr þessu. Menn hafi kynnt sér þær aðferðir, sem notaðar hafi verið erlendis, en lítist e.t.v. að öllu leyti ekki á þær. Það má náttúrlega alltaf um það deila. Og hitt er líka alveg gefið mál, að það er hægt bara með því að taka tillit til þeirrar þjónustu, sem blöðin veita, og skapa t.d. hvað snertir opinberu auglýsingarnar alveg jafnrétti þarna í, þá væri hægt að komast mjög langt í því að tryggja þeim þann tilverurétt, sem manni finnst, að þau eigi að njóta.