06.12.1966
Efri deild: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

58. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Frv. þetta er um breyt. á l. nr. 34 frá 1953, um verðjöfnun á olíu og benzíni, en tilgangur þeirra 1., sem þá voru sett, var að tryggja, að verð á olíum og benzíni yrði hið sama á öllum útsölustöðum á landinu. Til þess að afla fjár til tryggingar þessarar segir svo í 2. gr. nefndra laga, með leyfi hæstv. forseta:

„Greiða skal verðjöfnunargjald af olíu og benzíni, sem keypt er til landsins. Gjald þetta ákveður viðskmrn. fyrir missiri í senn og sé upphæð þess við það miðuð, að gjaldið nægi til að greiða flutningskostnað á því magni af olíu og benzíni, sem þarf að flytja frá innflutningsstöðum til annarra útsölustaða, svo að fullnægt verði eftirspurn eftir þessum vörum hvar sem er á landinu. Verðjöfnunargjaldið reiknast af seldu magni á olíu og benzíni, og skulu olíufélögin (innflytjendur) greiða gjaldið til viðskmrn. ársfjórðungslega.“

Eins og kunnugt er, hefur togaraútgerð landsmanna átt við mikla fjárhagsörðugleika að stríða að undanförnu, og mun ekki ágreiningur um það meðal hv. þdm., að nauðsyn beri til að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir algera stöðvun togaraútgerðarinnar. Sem liður í slíkum ráðstöfunum gæti það verið, þótt það skipti ekki kannske út af fyrir sig verulegu máli, að létta byrðum af togurum, sem gerðir eru út héðan frá Reykjavík og nágrenni, með því að veita hæstv. ríkisstj. þá heimild, sem hér er fram á farið, til þess að endurgreiða verðjöfnunargjaldið. Ég vil vekja athygli á því, að hér er gert ráð fyrir því, að verðjöfnunargjaldið verði endurgreitt, þannig að þau hlunnindi, sem togarar, sem gerðir eru út frá stöðum úti á landi, hafa notið vegna þessa, mundu ekki raskast við þetta.

Eins og nál. á þskj. 101 ber með sér, leggur fjhn. einróma til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.