08.03.1967
Sameinað þing: 28. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í D-deild Alþingistíðinda. (2746)

141. mál, Atvinnuleysistryggingasjóður

Fyrirspyrjandi (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir hans greinargóðu og skýru svör í sambandi við þessa fsp. Ég vissi það fyrir fram, að hin ágæta stjórn, sem fer með þennan sjóð, mundi geta gefið þessar upplýsingar, og eru þær alveg fullnægjandi. En það er raunverulega ánægjulegt, getum við sagt, að þjóðin skuli á þessum tíma, sem við lifum á, hafa getað veitt sér það að tryggja svo vinnuþiggjendur fyrir atvinnuleysi eins og gert er með þessari sjóðsstofnun og hans starfi. Ég býst við því, að margir mundu vilja „Lilju kveðið hafa“. Mér er það kunnugt, að verkalýðshreyfingin átti í mikilli baráttu á sínum tíma í sambandi við þetta mál. Eins og þið heyrið, er sjóðurinn orðinn mjög hár. Það er svo annað mál, hvort það geti ekki komið til athugunar í framtíðinni, þegar höfuðstóll hans kemst á annan milljarð á þessu ári, sem nú er yfirstandandi, hvort það þurfi ekki einhverrar endurskoðunar við, en fsp. mín gaf ekki tilefni til þess, og þess vegna ætla ég ekki að ræða það nú. En vissulega getum við fagnað því, að þjóðin er þannig efnum búin, að hún hefur getað tryggt afkomu og öryggi þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, einmitt með stofnun þessa sjóðs og gert hann jafnöflugan og raun ber vitni um.

Ég vil svo endurtaka þakklæti mitt til hæstv. félmrh. fyrir mjög svo góð og greinileg svör.