15.03.1967
Sameinað þing: 29. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í D-deild Alþingistíðinda. (2753)

118. mál, binding sparifjár innlánsstofnana á Norðurlandi

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég hygg, að segja megi, að venjulega, þegar stjórnarandstæðingar beina fsp. til ríkisstj. um einstök mál, sé tilgangurinn sá að fá fram upplýsingar, sem stjórnarandstaðan vonar, að komi ríkisstj. illa. Fsp. hafa sem sagt frá upphafi að verulegu leyti verið notaðar sem veigamikill þáttur í eðlilegri baráttu stjórnarandstöðu við ríkisstj. Spurningarnar hafa verið taldar þægilegt tæki, mikilsverður réttur stjórnarandstöðu til þess að koma í veg fyrir, að ríkisstj. haldi leyndum staðreyndum, sem stjórnarandstaðan þykist vita, að muni koma stjórninni illa, ef upp kæmust. Mætti um þetta nefna fjölmörg dæmi. Ég þykist vita, að tilgangurinn með þessari fsp. hafi verið þessi, sá sami sem venjulegastur er um fsp. stjórnarandstæðinga til ríkisstj.

Ég þóttist strax vita af fsp. sjálfri, þegar ég las hana, og fékk það raunar alveg staðfest í ræðu hv. fyrirspyrjanda, að fyrirspyrjendur virðast hafa talið, að Seðlabankinn hafi dregið til sín eða bankavaldið í Reykjavík, þá væntanlega undir forustu ríkisstj. og samkv. skipun hennar kannske, dregið til sín til Reykjavíkur heilmikið fé frá því svæði, sem að er spurt, þ.e. Norðurlandi, og ástandið í þessum málum sé m.ö.o. þannig, að heilmikið af sparifé Norðlendinga sé fryst í Seðlabankanum hér fyrir sunnan. Þessi skoðun er í raun og veru í samræmi við þá mjög algengu skoðun, sem oft verður vart í blöðum og öðrum málflutningi stjórnarandstæðinga, að sparifjárbinding Seðlabankans sé gerð í einhverjum ýmist alveg óskiljanlegum tilgangi eða þá beinum illvilja til atvinnuveganna og komi sérstaklega hart niður á dreifbýlinu.

Nú hélt ég satt að segja og hef margar ástæður til þess að ætla, að hv. fyrirspyrjandi hafi gleggri og nákvæmari þekkingu á samhengi þessara mála en svo, að hann tryði því, að þetta gæti verið rétt, og þó allra sízt að hann gæfi tilefni, jafnskýrt og gott og hér er um að ræða, til þess að leiða í ljós, á hversu algerum misskilningi þessar almennu staðhæfingar um innstæðubindinguna, um lánsfjárbindinguna, eðli hennar og tilgang og afleiðingar, séu byggðar. Staðreyndin er nefnilega alls ekki sú, að sparifjárbindingin eða lánsfjárbindingin í Seðlabankanum hafi dregið fé af Norðurlandi til Reykjavíkur eða til Seðlabankans. Staðreyndin er alls ekki sú, að Norðlendingar láti Reykvíkingum, Sunnlendingum eða neinum öðrum í té, allra sízt Seðlabankanum, fjármagn. Staðreyndin er þveröfug, eins og ég mun sýna fram á með tölum hér á eftir. Norðlendingar hafa frá bankakerfinu hér í Reykjavík stórkostlega fjárfúlgu til umráða, hundruð millj. til umráða af sparifé aðalbankanna, ríkisbankanna hér í Reykjavík. Það svar, sem ég læt í té hér á eftir við þessari fsp., leiðir því í ljós staðreynd, sem er þveröfug við það, sem mig grunar, að hv. fyrirspyrjendur hafa haldið að mundi koma í ljós í svari við fsp. Og það er í raun og veru alveg í samræmi við þann megintilgang, sem með lánsfjárbindingunni hefur verið frá upphafi, þegar tekið var að framkvæma heimildir í lögum frá 1958, í lögum frá vinstristjórnarárunum um heimild til handa Seðlabankanum til bindingar nokkurs hluta af sparifé banka og sparisjóða. Þegar farið var að framkvæma þessa lagaheimild með þeirri nýju stefnu núv. ríkisstj. 1960, var hagnýting sparifjárbindingarinnar fyrsta árið beinlínis sú að auðvelda lánsfjárveitingar til sjávarútvegsins, þ.e. styðja Útvegsbankann, sem átti í vissum erfiðleikum, og gera honum auðveldara en ella að standa við eðlilegar skuldbindingar sínar um lánveitingar í þágu sjávarútvegsins. Á næstu árum var lánsfjárbindingin notuð til þess að koma upp gjaldeyrisvarasjóði landsmanna. Það hefði ekki tekizt, — ég fullyrði, að það hefði með engu móti verið unnt fyrir Íslendinga að eignast þann tæplega 2000 millj. kr. gjaldeyrisvarasjóð, ef heimildirnar í Seðlabankalögunum um gjaldeyrisvarasjóð til lánafjárbindingar hefðu ekki verið notaðar. Eftir að gjaldeyrisvarasjóðurinn náði þeirri hæð, sem talin var forsvaranleg, um 1800—2000 millj., hefur innlánsbindingin fyrst og fremst verið notuð til þess að greiða fyrir og auka endurkaup á afurðalánum þeirra viðskiptabanka, gjaldeyrisbankanna, sem Seðlabankinn endurkaupir afurðavíxla af. Án hagnýtingar á ákvæðum um lánsfjárbindingu hefði ekki verið unnt að standa undir þeim gífurlega miklu endurkaupum á afurðavíxlum útflutningsatvinnuveganna, sem hann hefur þó getað haldið uppi kaupum á af gjaldeyrisbönkunum.

Þannig er það auðvitað staðreynd í málinu, sem ég hef raunar margoft gert grein fyrir, bæði hér á hinu háa Alþ. og annars staðar opinberlega, að í Seðlabankanum er ekki fryst ein einasta króna. Hver einasta króna, sem Seðlabankinn fær í sínar hendur í krafti hagnýtingarákvæðanna um heimild til sparifjárbindingar, er lánuð aftur út með einhverjum hætti eða er fólgin í gjaldeyrisvarasjóðnum, sem er utanríkisviðskiptum þjóðarinnar algerlega ómissandi. Þetta er staðreynd, sem ég hefði raunar haldið, að a.m.k. þingmönnum ætti að vera nokkurn veginn Ijós í grundvallaratriðum.

Hitt er annað mál, að aldrei hefur áður verið að því vikið hér á hinu háa Alþ. og er raunar fagnaðarefni, að það skuli vera gert, hvernig viðskipti Seðlabankans í sambandi við innstæðubindinguna séu við einstaka landshluta. Að því hefur hingað til ekki verið vikið hér, og er, eins og ég segi, beinlínis ánægjuefni að fá tækifæri til að greina frá því, hvernig viðskiptum Seðlabankans í sambandi við innstæðubindinguna er hagað við þann landsfjórðung, sem hér er sérstaklega gerður að umtalsefni, einmitt og sérstaklega af alveg sömu ástæðu og þm. gerði alveg réttilega að umræðuefni í sínum orðum áðan, að á Norðurlandi hefur verið um atvinnuerfiðleika að ræða, sem ríkisstj. og bankakerfið hefur haft fullan skilning á og fullan vilja til að bæta úr, eftir því sem mögulegt er. Á því er enginn efi, að þær tölur, sem ég nefni hér á eftir, beinlínis sýna og sanna vilja ríkisvaldsins og bankakerfisins til þess að greiða úr atvinnuerfiðleikum á Norðurlandi. Heildartölurnar, sem ég skal sundurliða nánar á eftir, um þetta efni eru þannig, að um er að ræða heildarbindiskyldu á Norðurlandi í nóvemberlok s.l. að upphæð 213.9 millj. kr. vegna innlánsstofnana á Norðurlandi. Heildarbindiskylda í nóvemberlok var 213.9 millj. kr., en greiðslutilhögun á bindiskyldunni er þannig háttað, að aðalbankarnir í Reykjavík sjá um greiðslu bindingarinnar til Seðlabankans. Sumir þeirra greiða hana formlega fyrir útibúin, þ.e. á skuldfærslu- og viðskiptareikning þeirra. Af þessari 213.9 millj. kr. heildarbindiskyldu í nóvemberlok s.l. greiddu aðalbankarnir í Reykjavík sjálfir af sínu eigin fé 64.7 millj. kr., þannig að bundnar innistæður innlánsstofnana á svæðinu námu formlega 149.2 millj. kr. Frá innlánsstofnunum á Norðurlandi hafa m.ö.o. borizt til Seðlabankans í Reykjavík eða hann geymdi fyrir þær 149.2 millj. kr. í nóvemberlok s.l.

En þá kemur að hinni hlið dæmisins: Hvað fær Norðurland í staðinn frá Seðlabankanum og bankakerfinu hér í Reykjavík? Eins og ég gat um í upphafi þessara orða minna, liggur þetta fé ekki grafið í kjöllurum Seðlabankans. Það er auðvitað í umferð eins og annað ráðstöfunarfé bankanna hér fyrir sunnan. Á móti þessari 149.2 millj. kr. bindiskyldu af Norðurlandssvæðinu eru endurkeyptir víxlar af svæðinu 394.1 millj. kr. Seðlabankinn hefur m.ö.o. endurkeypt víxla af Norðurlandssvæðinu fyrir 394.1 millj. kr. Með þessu er sagan ekki öll sögð, vegna þess að útibú Reykjavíkurbankanna á Norðurlandi skulda aðalstöðvunum í Reykjavík. M.ö.o.: bankarnir í Reykjavík láta útibúum sínum á Norðurlandi í té verulegt fjármagn, og heildarupphæð þess fjármagns er 105.2 millj. kr. Það fé, sem Norðurland hefur til umráða frá Seðlabankanum og ríkisbönkunum í Reykjavík, er samtals 499.3 millj. kr. Það, sem bankastofnanir á Norðurlandi hafa því til umráða frá bankakerfinu í Reykjavík, er umfram það, sem bundið er á Norðurlandi, hvorki meira né minna en 350.1 millj. kr., — það er 350.1 millj. kr. Þetta er sú upphæð, sem bankakerfi höfuðstaðarins veitir til ráðstöfunar í þágu atvinnulífsins á Norðurlandi, 350.1 millj. kr.

Það er því ekki aðeins, að það sé í grundvallaratriðum fullkominn misskilningur, að bankakerfið í Reykjavík sogi til sín fé frá Norðurlandi, — ég vil ekki segja, að Norðurland sogi það frá Reykjavík, heldur sé það fé, sem bankakerfið í Reykjavík lætur í té í þágu atvinnulífs á Norðurlandi, mjög verulegt, 350.1 millj. kr. Þetta er mergurinn málsins.

Til frekari upplýsinga skal ég sundurliða þessa heildartölu, sem ég lýsti áðan um heildarbindiskylduna af Norðurlandi. Ég geri ráð fyrir, að það sé fróðlegt fyrir hv. fyrirspyrjendur og alla aðra að sjá, hvernig það skiptist á kaupstaði og sýslur á Norðurlandi. Enn er miðað við 30. nóv. s.l. Heildarbindiskyldan úr Húnavatnssýslu er 23.7 millj. kr., úr Skagafjarðarsýslu 1.7 millj., úr Eyjafjarðarsýslu 7.8 millj., úr Þingeyjarsýslu 15.8 millj. Samtals 49 millj. úr sýslunum á Norðurlandi. Úr kaupstöðunum eru tölurnar þannig: Heildarbindiskylda á Sauðárkróki 19.8 millj., Siglufirði 16.9 millj., Ólafsfirði 4.6 millj., Akureyri 102.2 millj., Húsavík 21.4 millj. Samtals í kaupstöðunum 164.9 millj. kr. Heildarbindiskyldan samtals 213.9 millj., eins og ég gat um áðan, en þar af greitt af aðalbönkunum í Reykjavík 64.7, þannig að formleg bindiskylda á Norðurlandi er margnefnd tala, 149.2 millj. kr. Því miður var ómögulegt að fá upplýsingar um, hvernig endurkaupin skiptast á sýslur og kaupstaði, og þá auðvitað enn þá síður, hvernig skuld útibúanna við aðalbankana hefur dreifzt á sýslur og kaupstaði. Til þess þyrfti að gera formlegar skýrslur um svæðaskiptingu hjá útibúunum, en slíkar skýrslur eru mér vitanlega alls ekki gerðar.

Með þessu vona ég, að spurningunum teljist fullnægjandi svarað.