15.03.1967
Sameinað þing: 29. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í D-deild Alþingistíðinda. (2757)

118. mál, binding sparifjár innlánsstofnana á Norðurlandi

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það var vissulega einkennilegt að heyra hæstv. ráðh. gera því skóna hér í upphafi svara sinna, að þessi fsp. væri eingöngu komin fram af illvilja fyrirspyrjenda. Það liggur í augum uppi, að hér var fyrst og fremst óskað eftir upplýsingum, og þegar þær upplýsingar eru fram komnar, væntum við þess að geta athugað þær og metið, hvaða lærdóma má af þeim draga.

Ráðh. snerist þegar í stað í vörn og hóf jafnvel stórsókn á okkur fyrirspyrjendur, áður en hann var byrjaður að svara sjálfur þeirri spurningu, sem fyrir hann var lögð. Það var eins og hann vissi upp á sig einhverja skömm. En eins og ég hef þegar sagt, vildum við fyrst og fremst fá tölurnar á borðið, svo að unnt væri að skoða málið, því að auðvitað er ekki unnt að rökræða slík mál í fsp. tíma, þar sem þm. hafa 5 mínútur til umráða og ráðh. ótakmarkaðan tíma. Ég vil þó reyna að draga hér fram kjarna þessa máls, ekki sízt vegna mjög villandi málflutnings ráðh.

Það er staðreynd, að sparifjárbinding á sér stað, og ráðh. hefur upplýst, að hún nemur um 150 millj. kr. frá sparisjóðum og bönkum á Norðurlandssvæðinu. Mikill hluti af þessu fé er ekki endurlánaður í afurðavíxlum, heldur er geymdur í erlendum bönkum á mjög lágum vöxtum. Ég er ekki að halda því fram, að gjaldeyrisvarasjóðurinn hafi verið skapaður með erlendum lánum, en ég held, að það geti ekki verið nein goðgá að minna á, að á sama tíma og við erum með þennan gjaldeyrissjóð á mjög lágum vöxtum í erlendum bönkum, tökum við stórlán erlendis á mjög háum vöxtum og það jafnvel stundum í sömu bönkunum og geyma bindiféð.

En þetta er ekki fyrst og fremst hér til umr., heldur sparifjárbindingin. Hún hefur óneitanlega fyrst og fremst verið studd þeim rökum, að draga þurfi úr þenslunni, of mikið fé sé í umferð og nauðsynlegt að hafa hemil á verðbólgunni með því að binda þetta fé. Slíkan rökstuðning höfum við ekki svo sjaldan heyrt hér í þinginu. Við verðum að gefa okkur betri tíma til að ræða, hvort þessi kenning sé út af fyrir sig rétt eða ekki. En það, sem við viljum fyrst og fremst vekja hér máls á, er sú spurning: Á þessi sparifjárbinding rétt á sér á landssvæðum, þar sem engin þensla á sér stað og ekkert verðbólguvekjandi ástand? Það er spurningin. Á hún rétt á sér á landssvæðum, þar sem miklu frekar er hægt að segja, að sé kreppuástand og atvinnuleysi?

Ráðh. hefur haldið því fram í þessum umr., að villandi sé að taka aðeins tölur um sparifjárbindingu, og hefur komið með tölur á móti, sem snerta endurkaup á afurðavíxlum. Það er mjög erfitt að rökræða við ráðh. hér í fsp.-tíma, en ég vil halda því fram, að hér sé alls ekki um sambærilegar tölur að ræða. Tölurnar um sparifjárbindingu af Norðurlandi, að upphæð 150 millj. kr., gilda aðeins um úti búin á Norðurlandi. Það er sú upphæð, sem tekin hefur verið beint frá lánastofnunum á Norðurlandi. En tölurnar um keypta afurðavíxla af Norðurlandi gilda um alla þá víxla af Norðurlandi, sem berast inn í bankakerfið, ekki aðeins að norðan, heldur einnig í aðalbankana hér fyrir sunnan og jafnvel víðar.

Það er vissulega rétt, sem hv. 5. þm. Austf. undirstrikaði hér, að bankakerfið í Reykjavík er ekki sérstaklega ætlað fyrir Reykvíkinga, heldur verður að taka tillit til þess, að þetta eru lánastofnanir, sem eiga að þjóna öllu landinu. Þessar lánastofnanir hafa fengið mikið fé, sem þeim er ætlað að nota til útiána um allt land. Þess vegna er ekki hægt að bera þegar tölur saman með þeim hætti, sem ráðh. gerði hér áðan. Hins vegar má vel vera, að hægt sé að finna sambærilegar tölur í þessu efni. En ég vil að lokum leggja á það áherzlu, að tölurnar eru villandi og ekki sambærilegar.