12.04.1967
Sameinað þing: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í D-deild Alþingistíðinda. (2765)

131. mál, störf flugvallanefndar

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Viðvíkjandi þessari fsp. hef ég fengið grg. frá meiri hl. flugvallanefndar um það, hvað störfum n, liði og hvenær vænta megi, að nál. verði skilað. Með leyfi hæstv. forseta, segir meiri hl. n. það, sem hér skal fram tekið:

„Flugvallanefnd var skipuð 28. maí 1965. Samkv. skipunarbréfi skyldi n. kynna sér vandlaga till. þær og athuganir, sem áður höfðu verið gerðar um sama mál og fyrir lágu í rn. Enn fremur skyldi n. gera allar þær tæknilegar og fjárhagslegar athuganir, sem að hennar dómi væru nauðsynlegar til að finna heppilega framtíðarskipan þessara mála með hliðsjón af sennilegri þróun í samgöngumálum og miðað við æskilega arðsemi fjárfestinga og raunhæfar fjáröflunarleiðir.“

Af þessu skipunarbréfi er ljóst, að hér er um umfangsmikið og vandasamt verkefni að ræða, sem hlaut að taka nokkurn tíma að leysa. Áður höfðu starfað að þessum málum eftirtaldir sérfræðingar og n.: C. Burkley. sem skilaði skýrslu dags. 15. júli 1961, nefnd undir forustu Árna Snævarrs verkfræðings, sem starfaði frá 11. júlí 1960 til febrúar 1962, Bertil Hellman flugvallasérfræðingur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, sem starfaði hér árin 1963 og 1965 og skilaði skýrslu, langri og ýtarlegri, í bæði skiptin.

Flugvallanefnd hefur athugað álit þessara aðila rækilega miðað við staðhætti, eins og þeir nú eru, en auk þess hefur n. látið gera sjálfstæðar athuganir á flugvallasvæðum og áhrifum mismunandi valkosta á rekstrarkostnað flugfélaganna. Er gagnasöfnun n. var langt komið í byrjun þessa árs, tókst n. fyrir milligöngu flugmálastjóra að fá hingað til lands Bertil Hellman flugvallasérfræðing Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, sem eins og fyrr er sagt hefur unnið að athugun þessa máls áður. Athugaði hann hinar mismunandi hugmyndir nefndarmanna dagana 16.—26. marz þ.á. og skilaði um það skýrslu til n.

Var þá gagnasöfnun n. endanlega lokið, og má afstaða nm. nú teljast fullmótuð.

Nm. eru allir sammála um, að æskilegt og nauðsynlegt sé að taka frá land á Álftanesi til flugvallagerðar, ef hentug þætti og nauðsynleg í framtíðinni. N. taldi rétt að beina þeim tilmælum til skipulagsstjóra ríkisins, að eigi yrðu leyfðar varanlegar byggingar í Bessastaðahreppi, meðan á þessum athugunum n. stæði.

Enda þótt nál. liggi enn ekki fyrir, er óhætt að fullyrða, að till. n., sem væntanlegar eru um næstu mánaðamót, verði á þá lund, að tekið verði frá land, sem nota mætti sem flugvallarstæði samkvæmt framansögðu, á Álftanesi og því landi ekki ráðstafað til annarra nota fyrst um sinn. Hins vegar er skoðanamunur um það í n., hversu stórt land þurfi að taka frá í þessu skyni, og fer það eftir mismunandi skoðunum nm. um æskilegustu legu og stærð flugbrauta.

Meiri hl. n. telur fullnægjandi landrými fyrir flugvöll, sem nægja mundi höfuðborgarsvæðinu ásamt Keflavíkurflugvelli, á eignarlandi ríkissjóðs á Bessastaðanesi að viðbættu landi jarðarinnar Breiðabólsstaðar. Minni hl. n. mun telja, að ekki sé unnt að koma fyrir á landi því, sem meiri hl. n. telur fullnægjandi, flugbrautum með æskilegri legu eða lengd, og er minni hl. nefndar þeirrar skoðunar, að taka þurfi frá allmiklu meira land.“

Undir þetta rita Brynjólfur Ingólfsson, Baldvin Jónsson og Gústaf E. Pálsson.

Það er sem sagt gert ráð fyrir, að nál. verði tilbúið um næstu mánaðamót. Það hefur dregizt að svara þessari fsp., vegna þess að það var búizt við, að nál. dægi fyrir nú fyrir þinglokin. En að sjálfsögðu tekur ríkisstj. ekki endanlega afstöðu til þessa máls, fyrr en nál, er komið og tækifæri hefur gefizt til að gera sér fulla .grein fyrir málinu með tilliti til þeirra ráða, sem báðir nefndarhlutarnir hafa fram að bera.

Enda þótt mér sé kunnugt um talsvert af innihaldi þessarar skýrslu, tel ég ekki eðlilegt að fara að ræða hana, fyrr en gengið hefur verið frá henni af n. hálf. En þar sem vonir standa til, að nál. komi um næstu mánaðamót, finnst mér eðlilegt að stuðla að því, að svo fljótt sem auðið verður eftir það verði afstaða tekin til málsins. Mér finnst eðlilegt, að íbúar Bessastaðahrepps vilji fá að vita vissu sína. Þeir hafa orðið fyrir óþægindum af því, að þeir hafa ekki fengið skipulagt landssvæði, þannig að þeir hafa ekki getað byggt á þeim tíma, sem þeir hafa hugsað sér, og úr þessu þarf þess vegna að fást skorið.

Um það, hvort nokkurn tíma verður byggður flugvöllur á Álftanesi, vil ég engu spá. Hitt tel ég líklegt, að Reykjavíkurflugvöllur verði notaður fyrir innanlandsflug um alllangan tíma enn, 20, 30 eða jafnvel 40 ár eða svo. Hvað skeður eftir það og hvernig flugbrautir þurfa, að vera eftir þann tíma, um það get ég vitanlega engu spáð. En hitt er víst, að það væru mikil óþægindi að því, ef ekki væri flugvöllur hér nærri borginni fyrir innanlandsflugið. Það mundi skapa óþægindi fyrir þá farþega, sem ferðast innanlands með flugvélum, að þurfa að fara langt til þess að komast í flugvélina og til þess að komast úr flugvélinni á áfangastað.

Ég tel, að fsp. sé að nokkru svarað, og vænti þess, að hv. fyrirspyrjendur láti sér nægja þessi svör í bili og ætlist tæplega til, að þau verði skýrari eða ákveðnari með tilliti til þess, að nál. er enn ókomið.