12.04.1967
Sameinað þing: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í D-deild Alþingistíðinda. (2772)

216. mál, námskeið fyrir starfsfólk verksmiðjuiðnaðarins

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. þær upplýsingar, sem hann gaf hér áðan viðkomandi þeim námskeiðum, sem fsp. fjallar um. Mér finnst, að það taki nokkuð langan tíma að koma þessum námskeiðum á stofn, enda þótt ég viðurkenni, að það sé rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að í lögunum um iðnfræðslu eru mörg nýmæli, sem eðlilega tekur nokkurn tíma að koma í framkvæmd. En nú hefur hæstv. ráðh. upplýst, að þessi námskeið geti hafizt í byrjun næsta skólaárs, og vil ég treysta því, að svo geti orðið, því að mér er kunnugt um, að það er þörf fyrir þessi námskeið og áhugi mikill ríkjandi fyrir þeim.