16.12.1966
Neðri deild: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

58. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Ég hef oft verið að velta því fyrir mér hér framan af á þessu þingi, að ég hef heyrt það nokkrum sinnum í sambandi við þessar umr. um togara og um olíu, að togararnir hafi að undanförnu borgað meira og minna til síldarverksmiðja á Austurlandi í gegnum olíuverð. Þetta hefur bögglazt dálítið fyrir mínu brjósti og sérstaklega núna vegna þess, sem ég stóð nú eiginlega upp til að vekja athygli á og ekki hefur komið fram í þessum umr. hingað til, ekki svo að ég hafi heyrt, — en það er, að nýlega er búið að byggja á Austurlandi innflutningsbirgðastöð fyrir olíu. Og ég skil þetta mál þannig, að rökin fyrir því, að það sé hægt að segja, að togararnir hafi staðið undir eða greitt með olíunni til Austurlandsins, séu þau, að hingað til hefur allur innflutningur á olíunni verið til Reykjavíkur, og þess vegna hefur orðið að flytja hana þaðan og til verksmiðjanna fyrir austan. Nú er þetta breytt með byggingu birgðastöðvarinnar á Seyðisfirði, og þá sé ég ekki annað en það hljóti að vera alveg sama aðstaða með að afgreiða olíu frá þeirri stöð, sem hún er flutt beint til frá útlöndum, eins og frá stöðvum hér í Reykjavík. Þetta finnst mér nauðsynlegt að komi hér fram. Þetta er að vísu nýtilkomið. En ég vil þá jafnframt bæta því við út af því, sem fram hefur komið t.d. með togarana á Akureyri og það spursmál, sem mér skilst að sé nú kannske aðaltilefni þeirrar brtt., sem hér liggur fyrir, það er flutningskostnaðurinn á olíunni frá innflutningshöfn og þangað, þá skilst mér, að sú spurning væri úr sögunni, ef t.d. á Akureyri væri komin ein innflutningsstöð fyrir olíu. Og ég man það í umr. við menn um þessi mál, sem hafa verið þeim kunnugir, þá hafa þeir talið, að það væri nú orðið fullkominn grundvöllur fyrir, að slík innflutningsstöð væri sett upp á Norðurlandi og þá sennilega helzt á Akureyri. Mér þykir rétt, að þetta komi fram hér, af því að það hefur ekki verið dregið inn í þessar umr. Það er kannske að einhverju leyti vegna þess, að Austurlandið hefur verið nefnt svo mikið í þessu sambandi eða síldarverksmiðjurnar þar.

Ég dreg ekki í efa, að hægt sé að finna einhver rök fyrir því, sem hæstv. viðskmrh. sagði, að það mundi vera hægt að reikna það út, að sá hagnaður, sem síldarverksmiðjurnar hefðu notið af olíujöfnuninni, næmi millj. kr. á undanförnum árum. Það kann að vera rétt.

En ég vil þá jafnframt minna á það í leiðinni, sem auðvitað er öllum ljóst og ætti ekki að vera þörf á, að það er ótalinn milljónahagnaður, sem þjóðfélagið í heild hefur notið af síldariðnaðinum á Austurlandi á undanförnum árum.

En sem sagt, aðalerindi mitt hingað í ræðustólinn undir þessum umr. var einmitt að vekja athygli á þessu, að það er nýbúið að reisa innflutningsbirgðastöð á Austfjörðum fyrir olíu, þar sem hún er flutt beint frá útlöndum, og mér sýnist, að það hljóti að snúa þessu dæmi við og mundi gera það á sama hátt hvað Norðurlandið snertir, þegar slík stöð væri komin þar upp.