16.12.1966
Neðri deild: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

58. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það var með sérstöku tilliti til landsbyggðar á Íslandi mjög góð regla að mínum dómi, sem tekin var upp með setningu l. árið 1953 um verðjöfnun á olíu og benzíni. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þessar vörur, olía og benzín, eru í vaxandi mæli hér og annars staðar í veröldinni undirstaða atvinnulífs í ýmsum greinum og lífsþæginda. Það er því mikilsvert, að menn eigi um allt land hinn sama kost á þessum vörum, en í 1. gr. l. frá 1953 segir svo: „Söluverð á gasolíu, brennsluolíu, ljósaolíu og benzíni skal vera hið sama á öllum útsölustöðum á landinu.“ Þessi gr. er í raun og veru undirstaða l., en í öðrum gr. frv. er gerð nánari grein fyrir því, hvernig eigi að koma þessu í kring, það skuli gert með því, eins og segir í 2. gr., að greiða verðjöfnunargjald af olíu og benzíni, sem keypt er til landsins. Í l. er ekkert um það, hvað þetta verðjöfnunargjald eigi að vera hátt, hvorki lágmark né hámark. Það er á valdi viðskmrn. á hverjum tíma, sem ákveður verðjöfnunargjaldið til 3 mánaða í senn, en upphæð gjaldsins á að vera við það miðuð, að hún nægi til að greiða flutningskostnað.

Mér finnst, að ætla mætti af sumu, sem hér hefur fram komið, að ákvæði l. væru ýtarlegri um þessa hluti og að hér væri verið að grípa inn í einhverja sérstaka lögbundna ákvörðun um þetta verðjöfnunargjald, en hún er nú ekki lögbundnari en þetta, að á skuli lagt verðjöfnunargjald. Þetta er ákaflega rúmt lagaákvæði og mjög í höndum þessa aðila, þ.e.a.s. viðskmrn., sem ákveður verðjöfnunargjaldið.

Með sérstöku tilliti til þess, hvernig ákvæðin um verðjöfnunargjaldið eru, fæ ég raunar ekki séð, að það hafi verið nauðsyn að flytja þetta lagafrv. varðandi togarana. Það getur verið, að ég hafi ekki fullkomlega skilið einhverjar þær ástæður, sem þarna kunna að vera fyrir hendi, en mér virðist, að þetta sé mjög í höndum rn., sem leggur verðjöfnunargjaldið á. Það er t.d. ekki sagt, að verðjöfnunargjaldið skuli vera jafnt á öllum tegundum, sem hér er um að ræða. Jafnframt virðist mér það koma fram, að togaraflotinn í heild muni ekki hagnast mjög mikið á framkvæmd þessa frv., þótt að lögum yrði og heimildin notuð, eins og hæstv. viðskmrh. gerir ráð fyrir að verði. Um það virðist ekki vera ágreiningur, að hér sé ekki um háa upphæð að ræða, sem togaraflotanum komi til góða í þessu sambandi, meira að segja mjög lága miðað við þær upphæðir, sem þar er um að ræða, og þær upphæðir, sem togaraflotanum hafa verið greiddar, bæði úr ríkissjóði og úr aflatryggingasjóði sjávarútvegsins, til þess að mæta þeim rekstrarhalla, sem hann hefur átt við að búa undanfarin ár. Þetta er mjög lítil upphæð, sem hér er um að ræða í sambandi við það, sem að sjálfsögðu ætti að vera hægt að útvega á einhvern annan hátt. En því er ég að tala um þetta, að mér finnst, að varhugavert geti verið að skerða ákvæði þessarar löggjafar frá 1953 með undanþáguákvæðum. Ég efast um, að það verði til góðs fyrir neinn að gera það. Þó að þetta skipti ekki miklu máli, sem hér er farið fram á, og um litlar upphæðir sé að ræða, getur það e.t.v. skipt meiru síðar, að þetta hafi verið gert núna.

Ég er einn þeirra manna, sem telja, að mikil þörf sé á að styðja togaraútgerðina, eins og sakir standa. En ég mundi ekki hafa lagt til, að það yrði gert með því að breyta á þennan hátt þessari mjög svo mikilsverðu og þörfu löggjöf og skapar þar smugu, sem síðar gæti orðið undanfari annars meira. Þess vegna vil ég nú skjóta því hér fram til hæstv. ráðh. og annarra, sem að þessu standa, hvort ástæða sé til þess að vera að hraða þessu máli nú í gegnum þingið, hvort ekki væri réttara að hugsa sitt ráð, hvort ekki væri einhver önnur leið til að fá þessa tiltölulega litlu upphæð til togaraflotans, samanborið við aðrar upphæðir, sem nefndar hafa verið í því sambandi og af höndum reiddar, annað ráð en að hrófla við þessum lögum.