16.12.1966
Neðri deild: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

58. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég verð að síðustu að endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að mér eru það mikil vonbrigði og raunar einnig undrunarefni, að eftir að öll hv. Ed. hefur fallizt á það sjónarmið, sem liggur til grundvallar þessu frv., skuli þessi hv. þm. hér í Nd. hefja andóf við frv. og vilja spilla því, að tilgangur þess náist. Þetta er sérstakt undrunarefni vegna þess, að þessi hv. þm. leggur gjarnan á það mikla áherzlu, að hann sé sérstakur stuðningsmaður útgerðar á Íslandi og þá ekki síður togaraútgerðar en annarrar útgerðar. En það er augljós tilgangur þessa frv., það mundi verða afleiðing af samþykkt þess, að togaraútgerðin, eins og margsagt hefur verið, mundi njóta nokkurs stuðnings af verðjöfnunarkerfinu, og ég er búinn að segja áður og vil endurtaka það hér að síðustu, að ég tel þann stuðning vera fullkomlega réttlætanlegan á næstu árum, vegna þess að það er sannanlegt og raunar sannað, að togararnir hafa borið bagga vegna verðjöfnunarkerfisins á undanförnum árum. Það er auðvitað algerlega rétt, að þann stuðning, sem þeir fá á næstu árum vegna samþykktar þessa frv., verður einhver að borga, — hann verður einhver að borga, það er alveg rétt, og það er líka rétt, að það munu olíunotendur almennt í landinu borga á næstu árum. En ég tel sanngirnismál, að þetta gerist, vegna þess, að togararnir hafa á undanförnum árum greitt meira í verðjöfnunarkerfið en þeir hafa fengið úr því, og þar af leiðandi stutt aðra olíunotendur á undanförnum árum. Það, sem gerist og mun gerast á næstu árum, er ekkert annað en það að snúa því við, sem hefur gerzt á undanförnum árum. Alveg eins og togararnir hafa verið nettógjaldendur um mörg undanfarin ár, munu þeir á komandi árum verða nettóþiggjendur. Það mætti auðvitað reyna að gera þetta dæmi endanlega upp, alveg frá því að verðjöfnunarkerfið kom í gildi. Það er hægt, reikningar þess eru svo glöggir og svo skýrir, að það væri enginn vandi að gera það. En hv. þm. fann ekkert til með togurunum á undanförnum árum, þegar þeir voru sannarlega nettógjaldendur í verðjöfnunarkerfið. Þá fann hann ekkert til með þeim. Þeir máttu gjarnan bera þær byrðar. Það kom aldrei rödd frá honum á þeim árum, að það væri eðlilegt; að þarna væri togaraútgerðinni íþyngt. En þegar þeir eiga að njóta nokkurs góðs af sama kerfinu, er komið. við hjartað í honum og hann segir: Látum heldur ríkissjóð borga þetta. — En ég vil enda á því að endurtaka það, sem ég sagði áðan: Þessum hugsunarhætti mætti alveg eins vel beita gagnvart síldariðnaðinum, alveg nákvæmlega eins gagnvart honum sem heild. Og ég staðhæfi og ég veit, að enginn leyfir sér að andmæla því, að síldariðnaðurinn hefur á undanförnum árum notið stórkostlegs góðs af því, að það hefur verið verðjöfnun á olíum í landinu. Ef ríkissjóður á að hlaupa undir bagga í framtíðinni vegna togaranna, mætti eins segja, að hann ætti kröfu á síldariðnaðinn, til þess að hann endurgreiddi allar þær millj., sem síldariðnaðurinn hefur notið góðs af verðjöfnunarkerfinu á undanförnum árum. Auðvitað þýðir ekki að viðhafa þau rök, eins og hv. þm. sagði áðan, að í raun og veru græddi enginn á verðjöfnun og enginn tapaði á henni. Þetta er auðvitað alger misskilningur, vegna þess að verðjöfnun er einmitt til þess að létta byrðum af atvinnurekstri og borgurum utan þéttbýlisins. Og hver borgar það? Það borga auðvitað notendur sömu vöru í þéttbýlinu. Hitt er svo annað mál, að ég er ekki með þessu að andmæla verðjöfnun, hún er sjálfsögð á mörgum vörum, en hún er á fæstum vörum, sem íslenzka þjóðin notar, og tiltölulega lítið um slíka verðjöfnun með öðrum þjóðum. Ef við reynum að gera upp hagnað eða halla af verðjöfnuninni, verðum við auðvitað að bera saman við ástandið, sem mundi vera, ef engin verðjöfnun væri, og til verðjöfnunar þarf lög eins og nú gilda. Við verðum að bera ástand einstaklings og atvinnugreinar undir verðjöfnunarlöggjöf saman við það, hvernig hagur þeirra mundi vera, ef ekki væri til verðjöfnunarlöggjöf. Þetta er sá eini skynsamlegi samanburður, sem til greina getur komið. Hitt er svo annað, að auðvitað verður staðsetning atvinnufyrirtækja og staðsetning verzlunarfyrirtækja, t.d. banka, með allt öðrum hætti eftir því, hvort verðjöfnunarlög gilda eða gilda ekki, en það er þessu máli algerlega óskylt. En ef við berum saman ástand í olíuverzluninni, það verðlag, sem mundi gilda á olíu, ef hér væri frjáls verðmyndun á olíu, við það, sem er núna, að hér er verðjöfnun á olíu, er engum efa bundið, að frá því að verðjöfnunarkerfið var tekið upp 1953, hafa togararnir tapað á þessu kerfi, en t.d. síldariðnaðurinn grætt á því. Ég væri alveg tilbúinn til þess að gerast meðflm. hv. þm.till. um það, ef honum býður svo við að horfa, það væri beint framhald af hans röksemdafærslu við þessar umr., — gerast meðflm. að till. um það, að togaraútgerðin og síldariðnaðurinn yrðu gerð algerlega óháð verðjöfnunarkerfinu, frá því að það var tekið upp, og skyldi hagnaður eða halli, sem upp kæmi hjá þessum atvinnugreinum, ganga í ríkissjóð. Ég veit alveg hvað út úr dæminu mundi koma. Hins vegar tel ég þetta ekki aðeins vera ástæðulaust, heldur beinlínis bjánalegt, að þetta yrði gert, en þetta væri rökrétt afleiðing af þeirri hugsun, sem í till. hv. þm. felst.