29.11.1966
Neðri deild: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

74. mál, verðstöðvun

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. né fara að ræða hér um það, sem okkur bar almennt á milli um ástand í landinu, vegna þess að jafnvel hv. stjórnarandstæðingar viðurkenna, að það séu mjög verulegar breytingar, sem á hafi orðið einmitt á þessu ári um aðstöðu atvinnuveganna, breytingar, sem íslenzku ríkisstj. eru með öllu óviðráðanlegar. Hv. 1. þm. Austf. hélt því fram, að þær væru svo alvarlegar, þær breytingar, og það kom raunar fram hjá hv. 5, þm. Austf. nú undir ræðulokin hjá honum líka, að þetta frv. væri allsendis ófullnægjandi til þess að rétta við hag atvinnuveganna, til þess þyrfti að gera miklu veigameiri ráðstafanir. Nú vék ég raunar lítillega að þessu í minni frumræðu, nokkuð á sama veg og hv. 5. þm. Austf. gerði, þegar hann var að svara hæstv. viðskmrh. um viðhorf höfuðútflutningsatvinnuveganna, að á þessu stigi eru það svo mörg óviss atriði, að það er með öllu ógerlegt að segja, hvort e.t.v. þarf frekari ráðstafanir en þessar og þá hvers eðlis. Það er mál, sem þarf miklu betur að skoðast vegna þess, eins og hv. 5. þm. Austf. sagði, að það er með öllu óljóst enn, hversu lengi það verðfall stendur, sem orðið er, og raunar óvitað, hversu víðtækt það er í raun og veru varðandi hraðfrysta fiskinn. Og hv. 1. þm. Austf. lagði áherzlu á það, að hér væri einungis um bráðabirgðaverðfall að ræða, sem við allir vonum, en því miður vitum ekki neitt um. Það, sem liggur fyrir nú og er raunar óumdeilanlegt, er, að það eru orðnar slíkar breytingar, að þær einar gefa tilefni til róttækari aðgerða en á venjulegum tímum eru tíðkanlegar eða verjanlegar, og þar með til slíkra verðstöðvunarráðstafana, sem í þessu frv. felast.

Hv. 5. þm. Austf. taldi, að hér væri í raun og veru ekki um mikið efni að ræða, og hv. 1. þm. Austf. lagði líka á það nokkuð ríka áherzlu, að þetta væru umbúðir, sem eitthvað væri innifalið í. Hann viðurkenndi þó, að þar væri mikilsvert nýmæli varðandi sveitarfélögin, sem hv. 5. þm. Austf. minntist ekki á. En ég vil vekja athygli á því, að varðandi festingu verðlags er þetta frv. í raun og veru sama efnis og brbl., sem sett voru 28. ágúst 1956, þegar vinstri stjórnin hafði nýlega tekið við völdum og festi verðlag og kaupgjald fram til áramóta. Orðalagið er raunar nokkuð annað, en efnið varðandi verðfestingu er hið sama, eins og ég veit að hv. þm. sjá, ef þeir skoða það mál og bera ákvæðin vendilega saman. Um það er ekki að villast. Og ég vil að gefnu tilefni lýsa því alveg hiklaust yfir, að þessarar heimildar er leitað, til þess að henni verði beitt, og henni mun verða beitt, strax og frv. hefur verið samþ. og staðfest af forsetanum. Hitt er svo annað mál, og það er sjálfsagt, að það komi fram, að það er viss fyrirvari gerður í grg., að þetta er hugsað sem liður í víðtækari ráðstöfunum. Ef þær heppnast ekki, verður að skoða málið allt í heild og íhuga, hvaða aðrar ráðstafanir þurfi að gera, sem tiltækar eru og framkvæmanlegar.

Nú má þá spyrja, eins og einkanlega hv. 5. þm. Austf. lagði ríka áherzlu á: Er ríkisstj. að hverfa frá sinni frjálsræðisstefnu í verðlagningu? Eitthvað svipað minnir mig, að hv. samþm. hans, 1. þm. Austf., hafi einnig talað um. Auðvitað er það svo, að við höfum ákaflega misjafna trú á gildi verðlagseftirlits og verðlagshamla. Og það er skoðun okkar margra, að slíkar ráðstafanir séu bæði þýðingarlitlar og óframkvæmanlegar, ef þær eiga að standa til langframa, vegna þess að þá verði bæði meira eða minna fundnar leiðir til þess að fara í kringum þau ákvæði og eins ali þau upp þann hugsunarhátt, sem verki á móti gildi verðlagsákvarðananna, þannig að betra sé, ef því verður við komið á venjulegum tímum, að hafa í þessu fullt eða sem allra mest frjálsræði og þá tryggja, að raunveruleg samkeppni eigi sér stað, og ég hef viljað ætla, eins og hv. 5. þm. Austf. gat um, að tilvera og störf kaupfélaganna tryggðu það, að engum liðist að koma í veg fyrir, að frjáls samkeppni ætti sér stað. En hvað sem um þetta er, og auðvitað má um þetta deila eins og flest annað, er ljóst, að sú almenna regla staðfestist einungis af undantekningunni, að verðfesting um skamman tíma með eftirliti um, að henni verði fylgt, getur haft mikla þýðingu og ráðið úrslitum, þó að menn hafi ekki trú á því sem frambúðarreglu, allsherjarreglu. Það er einmitt það verðhrun, sem orðið hefur á verulegum hluta okkar framleiðslu og við enn getum ekki gert okkur grein fyrir, hvort er einungis til bráðabirgða og hvað það stendur lengi, jafnvel þó að það væri til bráðabirgða, né heldur hve víðtækt það er, sem gefur ríka ástæðu til þvílíkra aðgerða, sem þetta frv. fjallar um.

Það er sjálfsagt, að frv. verði athugað í n. og menn íhugi allar brtt, við það. En eðli þess ástands, sem hér hefur skapazt nú, er í raun og veru allt annað en það, sem við stöðugt erum að deila um, þegar við tölum um verðbólguna, um hennar afleiðingar og orsakir, því að hvaða vel rekinn atvinnuvegur getur í raun og veru staðizt það, ef hann verður fyrir slíku verðfalli, að verðmæti hans vöru minnki um þriðjung? Það sjá allir í hendi sér, að ef hann hefði áður verið rekinn með þvílíkum gróða, að hann stæðist þvílíkt verðfall, væri eitthvað meira en lítið bogið við. Þá hefði verið staðið óhæfilega á móti, að bæði launþegar, almannavaldið og aðrir aðilar í landinu fengju eðlilegan hlut af því mikla verðmæti, sem þannig er komið í land. Þetta verða allir að játa, og það eru þessar sérstöku ástæður, sem gefa tilefni til þess, að nú séu þessar reglur settar, þeim fylgt eftir, meðan þær eru í gildi, og menn geri glöggan greinarmun á slíkum bráðabirgða — ég vil segja neyðarreglum af sérstökum ástæðum og því varanlega vandamáli, hvort það sé til góðs að hafa verðlagseftirlit eða verðlagseftirlit ekki.

Ég hef verið því fylgjandi að losa um verðlagseftirlitið. En ef það verður að ráði hér í framtiðinni að hafa verðlagseftirlit, er vafalaust þörf á því að endurskoða þær reglur, sem gilt hafa. Ég efast um, að till. hv. Alþb.-manna séu til góðs í þeim efnum, en það er vafalaust, að þetta er orðið steingert og meira og minna haldlaust. Upplýsingar hv. þm. um hækkun álagningar í einstökum tilfellum segja í raun og veru ákaflega lítið, vegna þess að þar hefði þurft að segja frá hinu raunverulega verðlagi, hvort það hefur breytzt í samræmi við þetta eða ekki. Þess vegna var í raun og veru utan við málefnið sá tölulegi fróðleikur, sem hv. þm. las upp og vonandi verður betur athugaður í n., hvaða þýðingu hefur.

Um þá aðfinningu, sem komið hefur fram, einkanlega frá 1. þm. Austf. hv., að hér væri miðað við áð setja upp einhverjar umbúðir fram yfir kosningar, er það svo, að kosningar eiga í síðasta lagi að fara fram síðast í júní n. k. Það er ætlazt til þess, að þetta frv. veiti heimildir til 31. okt. Það er ætlazt til þess, að hægt sé að halda verðlagi niðri með fjárveitingum, sem fé verður veitt til í því fjárlagafrv., sem nú er til undirbúnings, og það er eðlilegt og sjálfsagt, að nýkjörið Alþ. fái færi á því að segja, hvaða stefnu það vilji fylgja í þessum málum, alveg án alls óðagots með eðlilegum hætti á næstu mánuðum, eftir að úrslit kosninganna liggja fyrir. Hér er fyllilega á lýðræðislegan hátt að farið, og því frekar er ástæða til þess að hafa hér tímabundin ákvæði sem það kom glögglega fram hjá hv. 1. þm. Austf., sem fann að því, að þetta væri tímabundið, að hann telur verðfallið einungis bráðabirgðaverðfall, og það eru þær miklu verðbreytingar, sem gera ákvæði frv. að okkar viti óumflýjanleg.