12.12.1966
Neðri deild: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

74. mál, verðstöðvun

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Við höfum, ég og hv. 11. þm. Reykv., skilað sérstöku áliti um þetta frv. á þskj. 129.

Ég vil fyrst nefna það, að það er ein lítil prentvilla síðast í nál. Undir mínu nafni er þar skammstafað formaður. Nú var það ekki meining mín að taka formannstitilinn af hv. 6. landsk. þm. Hins vegar þótti mér ekki ástæða til að láta kosta því til að prenta þskj. upp fyrir þessa villu, en hef óskað þess, að þetta verði leiðrétt í skjalaparti þingtíðindanna, að þarna komi frsm. í staðinn fyrir formaður.

Það var fyrir 7 árum, sem núv. stjórnarflokkar tóku að sér í félagi að stýra málum þjóðarinnar. Þeir höfðu að vísu gert það í eitt ár, 1959, en þá voru Alþfl.-menn einir í stjórn, en nutu stuðnings Sjálfstfl. Í kosningunum haustið 1959 sögðust Alþfl.-menn vera búnir að stöðva dýrtíðina, og þeir fóru fram á stuðning kjósendanna í landinu til þess að halda verðlaginu niðri óbreyttu án þess að leggja nokkra nýja skatta á þjóðina. Einhverjir hafa líklega lagt trúnað á þetta, að þeir mundu gera þetta, ef þeir hefðu aðstöðu til. En þeir hinir sömu vöknuðu við vondan draum, eftir að samsteypustjórnin var mynduð rétt fyrir árslokin 1959. Þá hækkaði skjótt allt verðlag stórkostlega. Þá reis hærri dýrtíðaralda en áður hafði sézt hér, og hún hefur haldið áfram að stækka og hækka með gífurlegum hraða alla tíð síðan.

Það var mikið og margt, sem átti að gera samkv. fyrirheitum samsteypustjórnarinnar. Það átti að koma atvinnuvegum landsmanna á heilbrigðan grundvöll og öllum rekstri þjóðarbúsins. Í aths. með efnahagsmálafrv. sínu í febr. 1960 kvaðst ríkisstj. ætla að innleiða verzlunarfrelsi, en leysa höft af landsmönnum. Á einum stað í aths. sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Höftin takmarka eðlilega samkeppni í innflutningsverzluninni og stuðla þannig beinlínis að hærra vöruverði og minni þjónustu við neytendur en ella mundi. Það er ekki á færi neins verðlagseftirlits að hamla á móti þessu, hversu gagnlegt sem verðlagseftirlit annars kann að vera.“

Efnahagsmálafrv. stjórnarinnar fór til fjhn. hér í hv. Nd. Þá var formaður í þeirri n. einn af fulltrúum Sjálfstfl., 6. landsk. þm. eins og nú, en það var ekki sá sami, það var ekki fiskimálastjórinn, heldur Birgir Kjaran. Hann var þá einnig 6. landsk., eins og formaður okkar nú, Davíð Ólafsson. Hann flutti ræðu sem frsm. meiri hl. fjhn. um efnahagsmálin í Nd. þingsins 11. febr. 1960, langa og skelegga ræðu. Þá sagði hann m.a.; með leyfi hæstv. forseta:

„Uppbóta- og haftastefnan hefur lokið hlutverki sínu. Hún hefur runnið sitt skeið á enda.“

Skömmu síðar á sama þingi bar ríkisstj. fram frv. um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála. Í raun og veru voru engin nýmæli í því. Hömlum á útflutningi á vörum frá landinu var haldið, gjaldeyrisverzlunin ófrjáls sem áður og heimild til ríkisstj. til að takmarka innflutning á vörum. Það var reynt að gera þetta frv. að stóru númeri í ritum og ræðum stjórnarflokkanna. Birgir Kjaran sem frsm. meiri hl. fjhn., þ.e.a.s. stjórnarflokkanna í n., sagði í ræðu um þetta stjfrv. um innflutnings- og gjaldeyrismál hér í hv. d. 28. apríl 1960 m.a. þetta:

„Verzlunarhöft, fjárfestingarhöft, skömmtun og verðlagshöft eru að mínu viti allt meðlimir sömu Bakkabræðrafjölskyldunnar.“

Hann tók þó fram á eftir þetta: „En þessi skoðun verður að skrifast á minn reikning, en ekki meðnm. minna eða hæstv. ríkisstj.,“ eins og hann orðaði það.

Það var venja þá og eins hefur það verið núna á þessu kjörtímabili, að formaður fjhn. hefur venjulega haft framsögu af hálfu n. fyrir málum, sérstaklega þeim, sem stjórnin hefur staðið að eða flutt, eða þá fyrir meiri hl. n., stjórnarflokkamenn þar, ef nm. voru ekki allir sammála. Þannig var þetta á fyrra kjörtímabili með Birgi Kjaran. En þegar kom að því að mæla hér fyrir frv., sem stjórnin flutti í maí 1960 um verðlagsmál, kom Birgir Kjaran sér hjá því að hafa framsögu í því máli. Það var nefnilega þannig, að það var gert ráð fyrir opinberum verðlagsákvörðunum og verðlagseftirliti áfram, og honum þótti rétt að láta fulltrúa Alþfl. í fjhn., hv. 1. landsk., mæla fyrir því, að Bakkabræðrafjölskyldan fengi þó að lifa áfram um sinn, og hv. 1. landsk. gerði þetta vitanlega með sóma, eins og hans var von og vísa. En ég skil það vel, að formaður n. vildi gjarnan vera laus við það starf.

Í ræðu um þetta verðlagsmálafrv. sagði þáv. hæstv. forsrh., Ólafur Thors, 23. maí 1960: „Trú manna á verðlagseftirliti innan ríkisstj. er nokkuð misjöfn.“

Og hann sagði enn fremur: „Enda þótt það sé sameiginlegur vilji ríkisstj. miðað við það ástand, sem er í dag, að verðlagseftirlitið verði, er það engan veginn af því, að við allir höfum sömu óbilandi trú á ágæti verðlagseftirlitsins.“

Í ræðu, sem hæstv. forsrh. núv. flutti um þetta mál hér í hv. d. við 1. umr. þess 29. f. m., sagði hann m.a. þetta:

„Nú er það auðvitað svo, að við höfum ákaflega misjafna trú á gildi verðlagseftirlits og verðlagshamla, og það er skoðun okkar margra, að slíkar ráðstafanir séu bæði þýðingarlitlar og óframkvæmanlegar, ef þær eiga að standa til langframa:“

Þarna mælti hann mjög á sömu lund og fyrirrennari hans í forsrh.-stólnum, og ég get vel skilið þá. Lögin, sem sett voru um verðlagsmál í maí 1960, eru enn í gildi. Upphaf 1. gr. þeirra laga er þannig: „Með verðlagsákvarðanir fer 6 manna n. Formaður hennar skal vera ráðuneytisstjórinn í viðskmrn. Hinir 5 nm., skulu kosnir hlutbundinni kosningu í Sþ.“ En í 2. gr. frv. eru fyrirmæli um, að ráðh. sá, sem fer með verðlagsmál, skipi verðlagsstjóra. Hann á að hafa, verðlagsstjóri, eftirlit með, að ákvörðunum verðlagsnefndar sé hlýtt, og hann á að fylgjast með verðlagi í landinu og hefur heimild til að afla upplýsinga um annað verðlag en það, sem ákveðið er af verðlagsnefnd.

Ég var að tala áðan um fyrrv. formann fjhn., Birgi Kjaran. Hann flutti mjög skeleggar ræður, sérstaklega um innflutnings- og gjaldeyrismálið, hér í Alþ. snemma árs 1960, og snerust þær einkum um hið fullkomna verzlunarfrelsi, sem í vændum væri, og aðrar góðar ráðstafanir. Svo liðu tímar fram og þetta fór nú allt saman út um þúfur hjá hæstv. ríkisstj., eins og menn vita, og Birgir Kjaran mun hafa verið einn þeirra, sem urðu þar fyrir vonbrigðum. Hann var hér 4 ár í þingflokki sjálfstæðismanna, og þegar leið að lokum kjörtímabilsins, var hann búinn að fá nóg af fjölskyldunni, axlaði skinn sín og fór, sá ágæti rithöfundur.

Verðlagsnefndin er nú þannig skipuð: Í henni eru, eins og lög gera ráð fyrir, 5 þingkjörnir menn. Þrír af þeim eru stjórnarflokka-. menn, þeir hafa þar meiri hl., og auk þess er svo formaðurinn, ráðuneytisstjórinn í viðskmrn., svo að ríkisstj. og hennar flokkar hafa þar mikil völd. En n. fer ekki með verðlagseftirlit. Það er einmitt það. Það gerir verðlagsstjórinn, og hann er beint undir viðskmrh. Eftir því sem upplýst var í fjhn. nú, hefur hann 27 þjóna sér til aðstoðar við eftirlitið, og talið er, að kostnaður við það hafi árið 1965 numið um 4.5 millj. kr. En hvernig hefur svo framkvæmdin á þessu verðlagseftirliti verið hjá hæstv. viðskmrh., verðlagsstjóra hans og öllum þeim, sem þar að starfa? Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að hún hafi verið ákaflega slæleg, sú framkvæmd. T.d. hafa þeir sleppt að líta eftir söluverði á íbúðarhúsum. Það er talið og það er víst rétt, að verð á einni íbúð af meðalstærð sé nú komið upp í 1 millj. kr. Þetta er langstærsti liðurinn í framfærslukostnaðinum fyrir vaxandi fjölda manna, sérstaklega fyrir unga fólkið, sem er að byggja upp heimili sín, og reyndar fyrir alla aðra, sem þurfa að byggja yfir sig, langerfiðasti liðurinn í kostnaðinum við að lifa.

Samkv. skýrslum hagstofunnar hefur byggingarvísitalan hækkað frá því 1959 og þar til í október nú í haust um 126%: En á sama tíma, sem þessi gífurlega hækkun hefur orðið á byggingarkostnaðinum, hefur húsnæðisliðurinn í framfærsluvísitölunni aðeins hækkað um 40% : byggingarkostnaðurinn aukist um 126%, en húsnæðisliðurinn í vísitölu framfærslukostnaðar um 40%. Þannig er þetta, að það er aðeins lítið brot af húsnæðiskostnaðinum, sem er komið inn í vísitölu framfærslukostnaðar og þar með inn í kaupgjald manna. En það er vitað, að það eru margir einstaklingar og mörg fyrirtæki, sem hafa atvinnu af því að byggja hús, margar íbúðir, og selja. En það er ekkert eftirlit með starfsemi þeirra aðila af hálfu verðlagseftirlitsins. Þeir eru heilagir í augum ríkisstj. og verðlagsstjóra hennar, eins og kýrnar hjá Indverjum. Þeim dettur ekki í hug að líta eftir húsaverzlun þeirra, athuga þeirra kostnaðarreikninga og verðútreikninga. Þeir eru hins vegar að snatta í búðum smásöluverzlana og líta eftir verði á sykri, grjónum og hveiti, en kaup á nauðsynjavörum til heimilanna, þeim sem verðlagsnefndin skiptir sér af, eru harla lítill þáttur í útgjöldum manna í samanburði við þann óbærilega húsnæðiskostnað, sem þessi gífurlega verðhækkun íbúðarhúsa veldur og leggst á vaxandi fjölda manna með hverju ári.

Ég verð að segja það, að þetta eru harla einkennileg vinnubrögð af hálfu þess opinbera, en alvarleg um leið. En hvaða árangur er svo af eftirlitinu með vöruverðinu? Hann er oft enginn. Það má nefna nýjasta dæmið um það. Það eru dönsku viðskiptin, sem lögreglumenn tveggja landa hafa verið að rannsaka nú að undanförnu. Það er talið, að það hafi komið upp, að innflytjendur hér hafi lagt fram falsaðar faktúrur hjá tollyfirvöldum, sloppið við að greiða þannig mikinn hluta af aðflutningsgjöldum, sem þeim ber að greiða í ríkissjóðinn, en þeir hafa þó bætt þeim undandregnu tollafjárhæðum við útsöluverðið á vörunum. Hvar voru þá eftirlitsmenn ríkisstj., hvar voru þeir? Hvar var sjálfur toppurinn á því eftirliti, hæstv. viðskmrh.? Hann er ekki hérna núna, — nú, hann er að koma. Hvar var hann? Hvar var verðlagsstjóri hans og þjónar þeirra, 27 að tölu? Hvar voru allir þessir menn, sem áttu að líta eftir verðlagi í landinu? Sofandi á verðinum? Það verður ekki komizt hjá því að álykta svo. Sennilega hefði aldrei komizt upp um þennan undandrátt á tollum o.fl. í því sambandi, ef danskir lögreglumenn hefðu ekki rekizt hingað til að rekast í þessu.

En hefur ekki eitthvað þessu líkt gerzt oftar hér á undanförnum árum? Spyr sá, sem ekki veit: Dansk-íslenzka rannsóknarmálið sýnir, að menn, er sniðganga lögin, þurfa ekki svo mjög að óttast verðlagseftirlitið, eins og því er háttað nú hér. Gretti Ásmundssyni þótti illt að treysta merinni forðum. En það er langtum, langtum verra fyrir fólk að treysta verðlagseftirliti ríkisstj. nú á tímum. En margir eru því miður of trúaðir á opinbera forsjón í þessu efni og fleirum. Þeir gera sér lítið far um það að leita sjálfir fyrir sér, þegar þeir eru að kaupa vörur, sem þeir þurfa að nota. Það væri áreiðanlega hollara fyrir almenning að leita fyrir sér, hvar hægt er að gera kaupin bezt, en treysta á eftirlit viðskmrh. og manna hans. Og nú er ætlunin að halda verðlagseftirliti áfram, skilst manni, og jafnvel auka það. Þetta tel ég jafngilda viðurkenningu ríkisstj. á því, að hún hafi ekki gert það, sem hún lofaði í öndverðu, að veita þjóðinni viðskiptafrelsi. Enda er það alkunnugt, að um það loforð hefur farið hjá stjórninni eins og flest önnur, sem hún gaf, þegar hún tók hér við. Ef verzlunin væri raunverulega frjáls, væri opinbert verðlagseftirlit algerlega óþarft. En það eru mikil höft á verzluninni, og þess vegna ætlar stjórnin að halda verðlagseftirlitinu áfram. Margar útlendar vörur, einkum nauðsynjavörur, er bannað að flytja til landsins án innflutningsleyfis, og mér skilst á þeim reglum, sem ég hef séð, að það þurfi gjaldeyrisleyfi til þess að fá yfirfærðan gjaldeyri til kaupa á öllum vörum frá útlöndum. Og svo eru lánsfjárhöftin þar að auki, sem auðvitað hvíla mjög og hafa hvílt ákaflega þungt á verzlunarfyrirtækjum eins og öðrum atvinnurekstri í landinu. Höftin á verzluninni eru eina afsökunin, sem stjórnin hefur fram að færa fyrir því að halda þessu eftirliti áfram að nafninu til.

Já, stjórnin nefnir þetta frv. sitt frv. til l. um heimild til verðstöðvunar. En það gefur ekki vonir um verðstöðvun. Þarna er aðeins verið að slá ryki í augu manna. Það er fyrirsjáanlegt, að fjárlög næsta árs, sem nú á að afgreiða innan skamms, gera ráð fyrir 20–30% meiri álögum á landslýðinn en fjárl. 1966. Og svo hefur heyrzt, að álögurnar hjá Reykjavíkurborg, fjölmennasta sveitarfélagi á landinu, muni hækka um allt að því 20%. Það getur engum vitibornum manni dottið í hug, að það sé hægt að stöðva allt annað, alla dýrtíðina í þjóðfélaginu, og láta þetta ganga þannig, 20–30% hækkun á ríkisútgjöldum á einu ári. Einhvers staðar hlýtur þetta að koma niður. Hitt er annað mál, að það er hugsanlegt, að stjórninni takist að halda framfærsluvísitölunni í skefjum fram yfir kosningar, það er hugsanlegt, með því t.d. að halda áfram að reikna þar aðeins lítið brot af húsnæðiskostnaðinum hjá unga fólkinu og öllum öðrum, sem búa í nýjum eða nýlegum húsum, og með því að ausa stórfé úr ríkissjóði í niðurgreiðslur, miklu meira en áður hefur þekkzt, með því að verja stórfé úr ríkissjóði til þess að halda sjávarútveginum og fiskvinnslustöðvunum gangandi á vertíðinni. Þetta er hugsanlegt, að takist með þessu að halda framfærsluvísitölunni í skefjum um sinn. En þetta er engin stöðvun á dýrtíðinni, það er annað mál. Það þarf nefnilega meira að gera til að stöðva dýrtíðina en að prenta upp lagafyrirmæli frá 1960 um verðlagsmál, en þetta frv. er aðallega uppprentun á eldri lögum. En ef það hins vegar væri nú svo einfalt að framkvæma verðstöðvun, þá mætti spyrja: Hvers vegna gerði hæstv. ríkisstj. þetta ekki fyrir löngu, ef það var svona einfalt? Þá er ástæða til að spyrja: Hvar ætla þeir að taka fé í stórfelldar niðurgreiðslur og til að fleyta atvinnuvegunum áfram á næsta missiri án þess að auka álögur í einu eða öðru formi og auka þar með dýrtíðina, — hvar ætla þeir að taka þetta fé? Þeir eiga eftir að svara þessari spurningu. Það er nefnilega ekki rúm fyrir þessar miklu greiðslur á fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir þinginu, og vantar þar mikið á. Hvar ætla þeir að taka þetta fé?

Nú kann að verða spurt: Hvers vegna flytjið þið í 1. minni hl. fjhn. till. um að samþykkja frv., úr því að þið teljið allt skrafið um verðstöðvun fram borið í blekkingarskyni? Því er til að. svara, að vegna þeirra hafta í ýmsu farmi, sem eru enn á verzluninni, getum við fallizt á, eins og segir í nál., að stjórnin hafi enn um sinn heimild til verðlagseftirlits, hún hefur það nú þegar í lögum og hefur alltaf haft, — þó að litlar líkur séu til, að það verði framkvæmt þannig af núv. ríkisstj., að það komi að verulegu gagni. Og einnig er á hitt að líta, að það er nýmæli í frv., það nýmæli, að stjórnin fái heimild til að koma í veg fyrir hækkun útsvara og aðstöðugjalda í sveitarfélögunum. Vafalaust eru skiptar skoðanir um þetta ákvæði í frv. Mér þykir trúlegt, að ýmsir sveitarstjórnarmenn séu mótfallnir þessu, en nefnd gjöld, einkum aðstöðugjöldin, hvíla óeðlilega þungt á gjaldendum í ýmsum sveitarfélögum. Ég hef rætt um það áður hér á þessu þingi, að á því þarf að verða leiðrétting. Við í 1. minni hl. getum því fallizt á að veita stjórninni umbeðna heimíld til íhlutunar um málefni sveitarfélaganna fram á næsta haust, og þess vegna mælum við með frv.

Þegar við, fulltrúar Framsfl. í n., höfðum ákveðið að styðja frv., gerðum við okkur vonir í um, að samstaða fengist um það í fjhn. En þá kom skyndilega nýtt til sögunnar. Fulltrúar stjórnarflokkanna vildu fara að breyta frv., sjálfu stjórnarfrv., komu með brtt., sem þeir hafa nú flutt á þskj. 120, sögðu, að hún væri flutt samkv. beiðni stjórnarinnar. Það þótti mér skrýtið, mjög skrýtið, þetta var ein af þeim fréttum, sem ég lét segja mér þrem sinnum. En þó sá ég við nánari athugun, að stjórninni var betur til þess trúandi en hv. samnefndarmönnum mínum í fjhn. að flytja svona fráleita till. inn í þingið. Þarna kemur fram, að ráðherrarnir sjálfir vilja fá að endurskoða verk verðlagsnefndarinnar og ákvarðanir hennar um að leyfa verðhækkanir, hversu smávægilegar sem þær eru. Þetta er fullkomið vantraust á verðlagsnefndina, þar sem stjórnarflokkamenn eru þó í meiri hl. og þar sem sjálfur ráðuneytisstjórinn í viðskmrn. er formaður, — fullkomið vantraust á þessa menn. Og úr því að hæstv. ríkisstj. vantreystir þannig sínum eigin mönnum, þá getur hún ekki vænzt þess, að við framsóknarmenn treystum henni til að fara með þessi mál, enda erum við andvígir brtt. Fleira kemur hér til en það, að við treystum ríkisstj. ekki til að fara með þetta vald, þetta er óframkvæmanleg villa. Ráðherrarnir eiga að hafa önnur störf með höndum en að standa í slíku. Ég held, að þeir hafi alls ekki gert sér ljóst, hvað í þessu felst, hverjar afleiðingar þetta hefur, ef það verður samþykkt og ef ætlunin er að framkvæma lagafyrirmælin. En e.t.v. stendur alls ekki til að framkvæma þetta, þó að það verði samþykkt, og það þykir mér líklegast.

Það eru ákaflega margar vörutegundir fluttar til landsins, og oft verða verðbreytingar á innfluttum vörum. Séu þær til hækkunar, þurfa ráðherrarnir að samþykkja það, hvað litið sem er. Mér er sem ég sjái hæstv. forsrh. ganga árla morguns heim götuna í gamla stjórnarráðshúsið við Lækjartorg, í fylgd með honum eru sex aðrir ráðh. Fundur er settur í stofu forsrh., það eru yfirverðlagseftirlitsnefndarmenn ríkisins á fundi, sjö að tölu, og allir ráðh. Á borðinu eru staflar stórir af innkaupareikningum og verðútreikningum, þar er reikningsfærður margs konar smávarningur, einnig stærstu vélar og tæki og allt þar á milli. Öll þau skjöl þurfa ráðherrarnir að yfirlíta. Trúlega nefna þeir þetta faktúrur og kalkúlasjónir eins og margir kaupsýslumenn. Ráðherrarnir setja upp gleraugun og rýna í skjölin með alvörusvip, þetta endurtekur sig dag eftir dag, og gott er, ef þeir geta fengið frí á helgidögum frá þessu. Það verður að sitja fyrir öðrum störfum. Innflutningurinn má ekki tefjast eða torveldast, því að fjmrh. þarf að fá aðflutningsgjöldin í ríkissjóðinn, önnur störf í stjórnarráðinu verða að sitja á hakanum, og það er mjög vafasamt, að ráðherrum gefist tími til að ferðast til annarra landa, t.d. á ráðstefnur um málefni Norðurlanda, Evrópumál eða vandamál alheimsins. Það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar, mjög alvarlegar, ekki einasta fyrir okkur, heldur fyrir aðrar þjóðir, og eitt er víst, að þá mun fækka ferðasögum í ríkisútvarpinu.

Ég hygg, að óhætt sé að fullyrða, að svona fyrirkomulag á verðlagsákvörðunum þekkist ekki á byggðu bóli. Það er ekki hægt að samþykkja slíka fjarstæðu.

Nú vil ég í fullri vinsemd skjóta því að hv. samnefndarmönnum mínum í fjhn., sem skipa meiri hl. n., hvort þeir vilji ekki taka þessa vanhugsuðu till. aftur. Þá getum við samþykkt frv. í sátt og samlyndi. Bezt væri, ef þeir gætu því til vegar komið, að nál. þeirra á þskj. 120 verði prentað upp og brtt. þar felld niður til þess að forða því, að hún sjáist í þingtíðindunum á komandi árum og öldum.