12.12.1966
Neðri deild: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

74. mál, verðstöðvun

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Vegna þessarar fsp. vil ég taka það skýrt fram, að ekkert slíkt er í huga mínum, sem hv. þm. minntist á. Eins og ég sagði, hafði ég samráð við lögfræðinga, sem eru mér vanari að athuga meðferð dómsmála, og þeir töldu öruggara, að þetta væri sett inn. Skilst mér þetta svara til þess, sem á mínum skólaárum var kallað, ef látin væru í té hlutbundin réttindi í staðinn fyrir beinar fjárgreiðslur og annað slíkt. Það má deila um, hvort þetta er nauðsynlegt, og sjálfur hefði ég ekki talið þetta nauðsynlegt, en að fram kominni þessari ábendingu manna, sem eru betur inni í tungutaki dómstólanna nú, þótti mér réttara að taka þetta upp, og við annað er ekki átt.

Út af því, sem hv. 5. þm. Austf. sagði, skýrir það ekkert í þessum málum, þó að við margoft höldum sömu ræðurnar og tökum upp það sama, það haggast ekki við það og málin verða ekki skýrari. Þegar hann talar um samanburð á verðlagi, — ég vil einungis víkja að því, þó að ég í rauninni hafi gert það líka við fyrri umr., — þá hefur sá samanburður, sem hann gerir t.d. í sínu nál., ekki ýkjamikla þýðingu, vegna þess að þar verður að bera saman, ekki hækkun álagningar, heldur hvort vöruverðið sjálft hefur hækkað, og það liggur ekki fyrir í þessum skýrslum. Ef hann vill sanna sínar fullyrðingar, verður hann að láta safna skýrslum, sem upplýsa þetta.

Eins er það, þegar hann talar um hækkun vísitölu á árinu 1964 sem áhrif af júnísamkomulaginu, þá hygg ég, að hann hafi sagt, að þá hafi vísitala á því ári hækkað um eitthvað 16–17 stig, en það hafi verið metið af Efnahagsstofnuninni, að raunveruleg kauphækkun með því, sem var óbein kauphækkun, mundi nema á milli 5 og 6 stiga — var það ekki? Já, 5.9 stig. Nú, en á jafnlengd frá maí til maí, frá 1964–1965, hækkar vísitalan einungis úr 163 í 171, og það er sú tala, sem hér verður að taka tillit til og máli skiptir. Það voru miklu fleiri hækkanir fyrr á árinu 1964 vegna afleiðinga ársins 1963. Eins má segja, að það urðu meiri og við getum sagt óhóflega miklar hækkanir á árinu 1965 fram til jafnlengdar 1966 af ýmsum ástæðum, sem ég skal ekki fara að rekja núna. En ef við viljum átta okkur á því, hvað gerðist á árinu 1964 eftir júnísamkomulagið, er rétt að halda sér við tímann frá maí til maí 1965. Að öðru leyti held ég, að það borgi sig lítið fyrir okkur að segja: það hækkaði af þessum og þessum ástæðum. — Þetta á að liggja fyrir í skýrslum. Og því þá ekki að setja alveg hlutlausa aðila til þess að kanna þetta til hlítar? Gætu menn ekki komið sér saman um það, í staðinn fyrir að við séum hér að segja: „Klippt var það, skorið var það.“ Til þess höfum við fullt af óhlutdrægum mönnum, að úr þessu sé skorið. Það getur vissulega orðið til mikillar leiðbeiningar.

Varðandi það, að fiskverð hafi verið ákveðið nú til frambúðar með þeirri uppbót, sem ríkisstj. og borgarstjórn Reykjavíkur hafa ákveðið að greiða til þess að afla fisks hingað til bæjarins á þessu tímabili nú í haust, þá má deila um það, hvort sú ákvörðun sé rétt eða ekki, en auðvitað stendur þar alveg sérstaklega á, vegna þess að það þarf að greiða fyrir, að fiskur sé fluttur langar leiðir með allt öðrum tilkostnaði og allt öðrum atvikum en þegar um venjulegar fiskveiðar til verkunar fyrir utanlandsmarkað er að ræða. Það er rétt, að þetta komi fram. Hitt er mér ljóst, að þessi ákvörðun út af fyrir sig er umdeilanleg, en hún segir ekkert til um frambúðarfiskverð, sem verður að ákveða af aðilum með hlutlausum oddamanni eftir þeim reglum, sem lög segja, þegar þar að kemur.