13.12.1966
Neðri deild: 28. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

74. mál, verðstöðvun

Frsm. meiri hl. (Davíð Ólafsson):

Herra forseti. Á fundi Nd. í gærkvöld bar hv. 5. þm. Vestf. fram skrifl. brtt. við 2. gr. frv. um heimild til verðstöðvunar. Efni þeirrar till. var það, að ef verðhækkanir hefðu átt sér stað, rétt áður en frv. var lagt fram, sem rekja mætti til þess, að þeir, sem þær verðhækkanir hefðu framkvæmt, hefðu haft vitneskju um, að frv. væri að koma fram, skyldi vera ákvæði í l., sem gerðu slíkar verðhækkanir óheimilar. Nú hefur n. haft þetta mál til athugunar síðan og m.a. borið sig saman við lögfróða menn um það, hvort svona ákvæði nægði, hvort hægt væri að setja svona ákvæði í lög um verðstöðvun, og eftir að hafa gert þetta og rætt málið í sínum hópi, hefur n. að vísu ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins, en meiri hl. n., eins og fram kemur á þskj. 156, hefur orðið sammála um að bera fram tvær brtt. eða brtt. í tveimur liðum við 1. gr. frv., sem er ætlað að ná þeim tilgangi, sem hin skrifl. brtt. miðaði að, og sú brtt., sem meiri hl, n. ber fram, er raunar formúleruð á sama hátt eða sambærilega við það, sem var í brbl. um stöðvun verðiags og kaupgjalds, sem sett voru 28. ágúst 1956, en stöðvunarákvæði þeirra laga miðuðust við tveggja vikna tíma fyrir setningu laganna, eða 15. ágúst. Sams konar ákvæði eða sambærilegt ákvæði er hér lagt til, að sett verði inn í þetta frv., eins og segir í till. frá meiri hl. n., að í 1. gr. komi fyrir orðin „eigi megi hækka verð á neinum vörum frá því, sem var, er frv.. til þessara laga var lagt fyrir Alþ.“, þ.e. í 1. og 2. línu 1. gr., komi þetta: „Verð á hvers konar vöru megi eigi vera hærra en það var 15. nóv. 1966“. Og sambærilegt ákvæði komi síðar í þessari gr., í 3. málsl. 1. gr., hann umorðist svo: „Enn fremur er ríkisstj. heimilt að ákveða, að hundraðshluti álagningar d vörum í heildsölu og smásölu megi eigi vera hærri en hann var 15. nóv. 1966.“ Með þessu telur meiri hl. n., að sé náð þeim tilgangi, sem hv. 5. þm. Vestf. stefndi að með flutningi sinnar brtt. í gær. Og það verði sem sé miðað við 15. nóv., þegar ákveðið verði, að verðlag megi eigi hækka á því, sem tiltekið er í lögunum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum og vona, að mér hafi tekizt að skýra það, sem vakir fyrir meiri hl. n. með flutningi þessarar brtt.