13.12.1966
Neðri deild: 28. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

74. mál, verðstöðvun

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það lítur út fyrir, að þeir vilji halda áfram að skemma þetta stjfrv., hv. meðnm. mínir í fjhn. Ég verð að segja það, að hún er ekki álitleg, þessi brtt. þeirra. Ég fæ ekki betur séð en a.m.k. í a-liðnum sé heimild til eignaupptöku, án þess að nokkuð komi fyrir. Við skulum hugsa okkur, að eitthvert fyrirtæki hafi flutt inn vöru 20. nóv., við skulum segja það, og hún hafi verið allmiklu verðhærri frá útlandinu en sams konar vara áður var og það hafi ákveðið verð á þessari vöru alveg í samræmi við þær verðlagningarreglur, sem gilda, og samkv. heimild verðlagsnefndar, hafi þetta verið vörutegund, sem hefur komið til afskipta hjá því yfirvaldi, og ef svo á að skylda þennan aðila til þess að lækka verð á sinni vöru niður í það, sem var fyrir verðhækkunina, sé ég ekki betur en þetta sé beinlínis heimild til upptöku eigna og ekkert um það, að neinar bætur skuli koma fyrir.

Það er af þessu að segja, þessu máli, að ég og hv. 11. þm. Reykv., sem eigum sæti í fjhn., getum ekki fallizt á þetta og leggjum á móti því, að þessar brtt. verði samþykktar.