15.12.1966
Efri deild: 29. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

74. mál, verðstöðvun

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég hef nú almennt heldur takmarkaða trú á verðlagseftirliti. En ég tel þó, að við sérstakar ástæður geti það átt rétt á sér og jafnvel eftir atvikum verið nauðsynlegt. Ég tel þær ástæður vera fyrir hendi nú og hafa raunar verið fyrir hendi að undanförnu. Og sú ástæða er verðbólgan, sem er og verið hefur.

Verðbólgan, sem verið hefur hér allt of mikil og vaxandi, hefur valdið mörgum vanda, sem ég sé ekki ástæðu til þess að fara að ræða hér um. Það er öllum kunnugt um, hvernig verðbólgan hefur leikið atvinnuvegina, kippt stoðunum undan þeim, og það er öllum ljóst, að verðbólgan veldur oft ranglátum og handahófslegum eignatilfærslum í þjóðfélaginu. Þess vegna tel ég rétt og nauðsynlegt að beita öllum tiltækum ráðum til þess að hafa hemil á verðbólgunni, til þess að reyna að halda aftur af henni, eftir því sem kostur er. Ég tel, að strangt verðlagseftirlit geti átt sinn þátt í því að halda verðbólgu í skefjum. Þess vegna er ég fylgjandi þessu frv. í þeirri mynd, sem það var lagt fyrir Alþ. í öndverðu. Ég tel það og sérstaklega þær stefnuyfirlýsingar, sem því fylgja af stjórnarinnar hálfu, spor í rétta átt. En þær stefnuyfirlýsingar ganga út á það, að hér eigi að hafa virkilegt verðlagseftirlit og að verðhækkanir verði engar leyfðar, nema brýna nauðsyn beri til. Og frv. veitir ríkisstj. heimild til þess að ákveða, að hvers konar verðhækkanir innanlands skuli óheimilar nema að fengnu leyfi réttra verðlagsyfirvalda.

Þetta er í sjálfu sér lítið nýmæli í löggjöf. Þess vegna get ég út af fyrir sig ekki fallizt á það, sem hér hefur verið haldið fram, að vísu held ég, að það hafi ekki komið fram í ræðu hæstv. forsrh. hér áðan, en það hefur komið fram annars staðar, bæði á þingi og þó enn fremur utan þings, í málgögnum ríkisstj. og stjórnarflokka, að hér væri um mikið stórmál að tefla og jafnvel allra merkasta mál, sem lagt hafi verið .fyrir þetta þing, sem nú situr. Undir það get ég ekki skrifað. En málið og frv. getur fyrir því verið gott, svo langt sem það nær.

Í frv. eru ekki neinar nýjar heimildir til verðákvörðunar og verðlagseftirlits umfram það, sem er í gildandi löggjöf, þegar frá er skilin heimildin til að ákveða, að álagningarstiga útsvara og aðstöðugjalda megi ekki hækka. Um það nýmæli í löggjöfinni eru út af fyrir sig skiptar skoðanir. Ég geri ráð fyrir því, að þeir fínnist og þeir séu kannske nokkuð margir, sem finnst sjálfstjórnarréttur sveitarfélaganna í raun og veru skertur með slíku ákvæði meira en góðu hófi gegnir. Ég get hins vegar fyrir mitt leyti fallizt á þetta ákvæði. Ég tel það ekki mikilsvert í sjálfu sér. Ég ætla, að það hafi ekki verið mikil brögð að því, að sveitarstjórnir hafi lagt á um þörf fram, að þær hafi notað sér hærri útsvarsstiga eða aðstöðugjaldsstiga en þörf þeirra hefur sagt til um. Og í öðru lagi ér þetta ákvæði frv. undanþægt, þannig að sveitarstjórnir geta þó þrátt fyrir það eftir sem áður fengið leyfi til þess að hækka álagningarstiga útsvara og aðstöðu gjalda, ef þörf krefur og þau geta ekki með öðrum hætti staðið undir nauðsynlegum útgjöldum sveitarfélagsins. Ég geri naumast ráð fyrir því, að slíkum leyfum til hækkunar verði neitað, þegar sýnt er fram á þarfir sveitarfélagsins. Ég geri þess vegna ekki út af fyrir sig mikið úr þessu ákvæði frv. En þetta er í raun og veru eina nýmælið í þessu frv., í öllu falli eins og það var lagt fram fyrir þingið í upphafi.

Heimildir þær aðrar, sem eru í þessu frv. til afskipta af hálfu verðlagsyfirvalda af verðlagi í landinu, eru fyrir hendi í núgildandi löggjöf. Stjórnin óskar eftir að fá þær heimildir staðfestar. Ég fyrir mitt leyti tel sjálfsagt að verða við þeim óskum stjórnarinnar. Það, sem hér er nýtt í sambandi við þetta mál, er fyrst og fremst yfirlýsing eða yfirlýsingar stjórnarinnar um það, að hún ætli að beita þessum heimildum, sem henni eru veittar í því og hún raunar hefur haft í lögum, en ekki notað nema þá að litlu leyti. Þessum yfirlýsingum stjórnarinnar ber að mínum dómi að fagna, þó að auðvitað hefði verið betra, að stjórnin hefði gefið þær yfirlýsingar fyrr og hún hefði fyrr framfylgt þeim. Vitaskuld leggja menn misjafnlega mikið upp úr þessum yfirlýsingum stjórnarinnar og hafa á þeim mismunandi trú, og kem ég að því síðar. En hvað sem því liður, tel ég út af fyrir sig ekki ástæðu til annars en að láta í ljós ánægju yfir þessum yfirlýsingum út af fyrir sig og þeim stefnubreytingum, sem þær bera vitni um. Ég var því og er því reiðubúinn að samþykkja frv. í þeirri mynd, sem það var lagt fyrir hv. Nd.

Á frv. hafa hins vegar verið gerðar nokkrar breytingar, flestar eða allar runnar undan rifjum stjórnarinnar. Sumar breytingarnar tel ég litlu skipta, en á eina breytinguna, sem gerð hefur verið, get ég ekki fallizt og kem að því síðar, hver áhrif hún hafi á afstöðu mína til frv.

Það er staðreynd, sem ekki verður um deilt, að verðlagsyfirvöld hafa haft í lögum allar þær heimildir til afskipta af verðlagi í landinu, sem þau fá með þessu frv., nema þessa einu heimild, sem ég hef áður minnzt á. Þær heimildir er að finna í lögunum um verðlagsmál, sem sett voru snemma á stjórnarárum þessarar hæstv. stjórnar eða lögum nr. 54/1960. Skv. þeim lögum er sett upp sérstök verðlagsnefnd, sem skipuð er sex mönnum, fimm þeirra eru kjörnir af Alþ. hlutfallskosningu, en formaðurinn er sjálfur ráðuneytisstjórinn í viðskmrn. Það er ljóst, að í þessari n. hafa stjórnarflokkarnir nægan meiri hluta til þess að koma þar fram sínum áhugamálum, þar sem þeir hafa þrjá af hinum kjörnu nm., en auk þess er nú til öryggis tekið fram, að ef atkvæði skyldu þar verða jöfn, þá skuli atkvæði formanns n., ráðuneytisstjórans í viðskmrn., ráða úrslitum.

Ég skal ekki fara langt út í að rekja ákvæði þessara laga um þær heimildir, sem verðlagsnefnd eru fengnar, en þar er það í stuttu máli svo, að henni er veitt heimild til þess að ákveða verð á hvaða vöru og verðmæti sem er og álagningu, umboðslaun og annað, sem máli skiptir í sambandi við verðlag í landinu. Og verðlagsnefndinni eru lagðar ákveðnar lífsreglur um það, við hvað hún skuli miða þessar verðlagsákvarðanir sínar. Hún á að miða við þörf fyrirtækja, sem hafa vel skipulagðan og hagkvæman rekstur. En verðlagningarvald verðlagsnefndarinnar er á engan hátt takmarkað við það, sem kalla má vöru eða verðmæti, heldur er beint og sérstaklega tekið fram, að hún hafi heimild til þess að ákveða endurgjald fyrir hvers konar flutninga á sjó og landi og lofti og afgreiðslugjöld og annað, sem að því lýtur. Enn fremur er tekið sérstaklega fram, að hún hafi heimild til þess að ákveða endurgjald til verktaka fyrir ýmislegt, sem þar er talið upp sem dæmi, eins og t.d. smíðar, pípulagningar og raflagnir o.fl., o.fl., sem ég skal ekki tefja tímann á að vera að telja upp. Og loks er svo talin upp ýmiss konar þjónusta, en líka í því formi, að það sé upp talið sem dæmi um það, sem verðlagsnefndinni er heimilt að fjalla um, því að aðalatriðið um valdsvið þessarar nefndar kemur fram í niðurlagi 3. gr., þar sem eru tekin undan verðlagningarvaldi, hinu óskoraða og almenna verðlagningarvaldi verðlagsnefndarinnar, aðeins 3 tilvik, og það eru vörur, sem eru fluttar úr landi, í fyrsta lagi, í öðru lagi vörur, sem verðlagðar eru samkv. sérstökum lögum, og í þriðja lagi kaupgjald, sem ákveðið er með samningum stéttarfélaga. Þess vegna hefur þessi verðlagsnefnd haft heimild til þess að halda verðlagi niðri í landinu, eftir því sem kostur hefur verið. Þær heimildir hafa hins vegar, að því er ég held, ekki verið notaðar nema að litlu leyti. Að vísu er kunnugt um það, að þessi verðlagsnefnd hefur alltaf öðru hverju verið að ákveða hámarksálagningu og hámarksverð á vissum hlutum, en ótalmargir hlutir hafa, að ég held, legið þar fyrir utan, sem hún hefur ekki haft afskipti af, og ég stend í þeirri meiningu, að það hafi smám saman æ fleiri vörur með sérstökum ákvörðunum stjórnvalda eða verðlagsnefndar verið undanskildar þessari hámarksverðlagningu verðlagsnefndarinnar.

Það er einmitt eitt af því, sem hæstv. ríkisstj. hefur sérstaklega fært sér og sinni stefnu til gildis, að hún vildi hafa sem mest frjálsræði í þessum efnum. En nú er skipt um tón, nú er farið fram á að fá allar þessar heimildir staðfestar og því jafnframt lýst yfir, að þær eigi að nota, og ríkisstj. veitt heimild til að ákveða það, að engar vörur megi hækka nema með sérstöku leyfi verðlagsyfirvaldanna. Þetta er talið nauðsynlegt nú og líklegt úrræði til þess að standa gegn verðbólgu.

Það fer ekki hjá því, þegar á þetta er litið, að spurt verði, hvers vegna þessu úrræði hafi ekki verið beitt fyrr. Það fer ekki hjá því t.d., að maður spyrji um það, hvers vegna þessu hafi ekki verið beitt 1960, eftir að gengið hafði verið lækkað og eftir, að því sem þá var talið af stjórnarinnar hálfu, að þessi mál voru sett á hreinan og traustan grundvöll. Og það verður ekki komizt hjá því heldur að spyrja, hvers vegna þessu úrræði hafi ekki t.d. verið beitt 1964, eftir að þeir marglofuðu júnísamningar höfðu verið gerðir. Ef þetta er þjóðráð nú og líklegt til þess að halda verðlagi í skefjum, þá var það vitaskuld þjóðráð þá og líklegt til að halda verðlagi í skefjum þá og líklegt til þess að tryggja, að sá árangur næðist af júnísamkomulaginu, sem látið var í veðri vaka, að ætti af því að nást. Það er spurt, en það fást ekki fullnægjandi skýringar.

Það er sagt, að til þessa ráðs sé sérstaklega gripið nú vegna þess verðfalls, sem hefur orðið á útflutningsvörum. Vissulega er það rétt, að það hefur orðið verðfall á útflutningsvörum. Það hefur orðið verðfall á lýsi og mjöli og freðfiskí, en slíkt verðfall hefur oft orðið áður annað veifið, og verðsveiflur á þessum vörum eru alltíðar, en það hefur ekki af þeirri sök þótt ástæða að grípa til þessa.

Nú segir stjórnin, að það sé nauðsynlegt að grípa til þess, af því að útflutningsatvinnuvegirnir geti nú ekki lengur borið hinn háa tilkostnað, sem er. Þetta er út af fyrir sig rétt. En ég held, að það séu ekki þær verðbreytingar eða það verðfall, sem hefur átt sér stað, sem á nándar nærri eins ríkan þátt í því og stjórnin vill vera láta. Sannleikurinn er sá, að þó að það hafi orðið verulegt verðfall á þessum vörum, þá var nýlega reiknað með því, að verðmæti útfluttra sjávarafurða árið 1966 mundi ekki verða nema 2% minna en það hefði orðið, ef það hefði verið reiknað með sama verðlagi 1966 og var 1965. Þegar þessir útreikningar voru gerðir, mun þó ekki hafa verið komin til sögu fyllilega sú hækkun, sem síðar hefur átt sér stað, m.a. á lýsi, þannig að ég vildi mega álykta nú, þó að vitaskuld verði ekki sagt um það með fullri vissu, að heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða mundi naumast verða minna miðað við verðlagið 1965, af því að þessi 2%, sem reiknað var með, muni jafnvel geta horfið. Ég vil ekki fullyrða um það, en a.m.k. ætti mismunurinn að minnka vegna þeirrar hækkunar, sem síðar hefur orðið á lýsi. Það hafa sem sé orðið upp á síðkastið verulegar verðhækkanir á lýsi og mjöli. Það er gleðilegt. Auðvitað vitum við ekki, hve lengi þær halda áfram, en það sýnir, að það er ekki réttmætt að miða aðgerðir við það, þegar þessi mál standa í botni eða verst horfir á einhverjum tíma um verðlag á þeim.

Það er hins vegar sagt, og hæstv. forsrh. lagði á það nokkra áherzlu í ræðu sinni áðan, að verðlagið á hinum frysta fiski hafi farið mjög lækkandi og útlitið í þeim efnum sé ekki gott. Það er rétt, það hefur farið lækkandi og útlitið er víst ekki gott. Það er óhætt að segja það. En þó hygg ég nú, að það muni vera svo, að meðalverðlag á útfluttum þorskafurðum árið 1966 sé u.þ.b. 10% hærra en meðalverðlag var árið 1965, og sé það rétt, það má vera, að þetta sé einhver misskilningur hjá mér, þá leiðréttist það, — en sé það rétt, þá kippir það að nokkru leyti stoðum undan þeim röksemdum, sem bornar hafa verið fram í þessu sambandi, þannig að ég vil í stuttu máli segja það, að ég vil ekki leggja eins mikið upp úr þeim röksemdum, sem talsmenn stjórnarinnar hafa látið svo mjög í veðri vaka, að þessar aðgerðir væru sérstaklega nauðsynlegar nú vegna þeirra verðlækkana á útfluttum afurðum, sem hafa átt sér stað upp á síðkastið.

En þá er það ein staðhæfingin, að útflutningsatvinnuvegirnir hafi borið og getað borið þennan háa innanlandstilkostnað fram að þessu og þess vegna hafi ekki verið þörf á að beita þeirri verðstöðvun, sem svo er kölluð, fyrr en nú. Þetta er að mínu viti ekki heldur rétt staðhæfing. Útflutningsatvinnuvegirnir hafa ekki getað borið þann tilkostnað, sem verið hefur, það vitum við fullvel. Það hefur þurft að veita einmitt útflutningsatvinnuvegunum, togaraflotanum, bátaflotanum og hraðfrystihúsunum, stuðning, vegna þess að þeir hafa ekki verið þess umkomnir að standa óstuddir undir tilkostnaðinum. Og um hitt þarf ekki að ræða, um það eru sjálfsagt allir sammála, að verðbólguvöxturinn á undanförnum árum hefur verið allt of mikill. Þó að hann hafi kannske ekki verið eins mikill, eins og ég held að hæstv. forsrh. hafi sagt, og í sumum löndum, sem til mætti nefna, þá hefur hann þó verið svo miklu meiri hér en í ýmsum okkar helztu viðskiptalöndum, að það hefur valdið okkur stórkostlegum vandkvæðum. Og upplýst hefur það verið, að ég held, að verðlagshækkanirnar, ef svo má segja, hafi að meðaltali verið um 11% á ári að undanförnu. En hins vegar hef ég annaðhvort lesið það eða heyrt eftir mætum manni, að það væri óðaverðbólga, sem færi á ári yfir 10%, þannig að skilyrði virðast hafa verið fyrir hendi til þess að grípa til þeirra ráðstafana, sem hér er boðað til nú. Og þess vegna er nú spurt, eins og ég sagði áðan, og beðið eftir skýrari svörum en til þessa hafa fengizt um það, hvers vegna hafi ekki verið gripið áður til þessara góðu úrræða, sem við viljum styðja. En hvað sem um það er, þá á við hinn gamli málsháttur, að betra er seint en aldrei, og þess vegna styðjum við jafnt málið fyrir því, þó að við gerum þessar aths., því að auðvitað er betra, að þetta komi þó einhvern tíma en aldrei, ef þetta er úrræði á annað borð.

Þó að ég vilji styðja viðleitni þá, sem fram kemur í þessu frv. og þeim yfirlýsingum, sem því fylgja, þá er ég hræddur um, að sá árangur, sem boðaður hefur verið, verðstöðvun, sem kölluð hefur verið og kölluð er í þessu frv., náist ekki. Ég held nefnilega, að forsendur þess séu ekki fyrir hendi. Ég leyfi mér að efast um, að verðstöðvun nú að öllu óbreyttu sé raunhæf og framkvæmanleg, og kemur þar það fyrst til, að stöðvun á verðlaginu er ekki ein út af fyrir sig nægileg útflutningsatvinnuvegunum. Það er kunnara en frá þurfi að segja og hefur verið staðfest með athugun stjórnskipaðra nefnda, að bátaflota og togaraflota vantar svo að hundruðum millj. skiptir til þess að geta gengið stuðningslaust, og það er öllum ljóst og staðfest með athugun, eins og ég sagði, stjórnskipaðra nefnda, að þessar atvinnugreinar þurfa á stórauknum stuðningi að halda frá því, sem verið hefur. Það er sýnt fram á það í skýrslu togaranefndarinnar, sem hér hefur verið útbýtt á þingi og ég skal ekki fara hér frekar að ræða. Það er sýnt fram á það í skýrslu hinnar svokölluðu bátanefndar, sem hér hefur líka verið útbýtt á þingi, en í henni áttu sæti fulltrúar allra flokka. Þeir eru allir sammála um þær niðurstöður, sem þar koma fram, en þar telja þeir, að verð á fiskinum til bátanna þurfi að hækka mjög verulega, eins og þeir nánar rekja. Þessar skýrslur er ekki hægt að vefengja. Hitt er aftur á móti frekar að sjálfsögðu hægt, eins og hæstv. forsrh. drap á í framsöguræðu sinni hér áðan, að telja að enn sé ekki fullkannað, hver staða hraðfrystihúsanna er. Það er þó víst, að hraðfrystihúsin og þeirra fyrirsvarsmenn hafa látið frá sér heyra, og það mjög mikið neyðaróp, þar sem þeir hafa lýst því yfir á fundi sínum, að gjaldþrot margra frystihúsa vofði yfir, ef ekki væru gerðar ráðstafanir til bjargar. Ég get fallizt á það með hæstv. forsrh., að það sé ekki rétt út af fyrir sig að taka það alltaf gott og gilt, sem kemur þannig frá aðilum sjálfum og atvinnuvegunum án rannsókna þar á. Ég hygg þó, að það verði ekki vefengt, að ástandið í þessum efnum sé þannig, að það vanti mikinn stuðning til þeirra, að það vanti stórfé, þó að það sé ekki hægt að fullyrða um það á þessu augnabliki, hve mikið það muni vera.

Ég held, að það verði ekki hjá því komizt á næstunni að gera ráðstafanir til styrktar þessum atvinnuvegum, því að auðvitað þarf ekki að fjölyrða um þá augljósu staðreynd hér, að með atvinnuvegunum lifum við eða deyjum, við getum ekki lifað hér og haldið uppi þjóðfélagi, nema atvinnuvegirnir geti gengið. Um þá augljósu staðreynd þarf ekki að ræða. Það verður því ekki undan því komizt, það er sama, hvaða stjórn situr að völdum, það verður ekki undan því komizt að líta á þessi málefni og gera þær ráðstafanir í einni eða annarri mynd, sem til þarf, til þess að þessar höfuðatvinnugreinar okkar geti gengið. Ég held, að hverjar sem ráðstafanirnar verða, hljóti þær að koma út í verðlagið og hafa áhrif á verðlagið innanlands. Því held ég, að það sé ekki stætt á því að setja fast nú, vegna þess að þetta kemur rétt á eftir, og þá hlýtur það að trufla og hafa sín áhrif, ég fæ ekki annað skilið. Ég held, að það sem hefði nauðsynlega þurft að gera, ef átt hefði að stefna að virkilegri verðfestingu, þá hefði fyrst þurft að hreinsa grunninn, eins og gert var á vissan hátt, — ég er ekki að leggja blessun yfir það, — en eins og gert var á vissan hátt 1960. Fyrst að undangenginni hreinsun grunnsins og því, að atvinnuvegunum sé komið á þann grundvöll, að þeir geti gengið, er að mínum dómi von um, að það geti átt sér stað virkileg festing á verðlagi. En þetta er eftir, og það er nú augljóst, að þinginu er ætlað að fara heim, fara í frí, án þess að fjallað sé um þessi málefni og ráðstafanir séu gerðar þeim til úrlausnar, þ.e. frekari en áður hafa verið gerðar og haldast í fjárlögum. Það verð ég að telja mjög óvarlegt, og náttúrlega verður ekki hjá því komizt í sambandi við þetta mál að leita fregna hjá hæstv. ríkisstj. um það, hvað hún hugsi sér í þessum efnum, hverjar ráðstafanir hún hugsi sér að gera í þeim efnum. Það er kannske misminni hjá mér, en mig minnir, að hæstv. forsrh. hafi einmitt áður hér á þingi vakið alveg sérstaka athygli á því og lagt á það áherzlu, að það væri ekki hægt að skiljast við málefni togaranna, eins og þau væru, án þess að það væri tekin afstaða til þeirra vandamála, sem þar væri við að glíma. Ef þetta er ekki rétt munað hjá mér, þá bið ég afsökunar á því. En þessi atriði þarf stjórnin nánar að skýra, hvernig hún ætlar sér að samræma það tvennt: að ætla nú að boða og gera stöðvun, eftir því sem hún segir, en þurfa svo innan skamms að gera alveg á næsta leiti ráðstafanir til bjargar og stuðnings þessum atvinnuvegum. Það er sagt, að ef það verði að gera, þá verði að horfast í augu við það á sínum tíma og taka þessi mál þá til athugunar. Auðvitað verður að gera það. En hefði ekki verið brotaminna að horfast í augu við allan vandann, eins og hæstv. forsrh. var að tala um hér áðan, að menn þyrftu að horfast í augu við vanda þann, sem væri við að etja? Hefði ekki verið betra að horfast í augu við allan vandann nú og reyna að koma þessum málum öllum á hreint, áður en það var horfið að því að stöðva? Það held ég. Ég tel það mikinn ágalla, að það er ekki gert. En þrátt fyrir það tel ég það út af fyrir sig rétt að reyna að stöðva, það getur út af fyrir sig aldrei neinu spillt.

Ég tel það líka mjög vafasamt, að þessi fyrirhugaða verðstöðvun takist af þeirri ástæðu, að ég tel, að þau fjárlög, sem afgreidd voru hér í dag, beri ekki vitni neinni verðstöðvunarstefnu. Ég ætla ekki að hefja fjárlagaumr. hér, rétt eftir að þær eru nýafstaðnar, en aðeins með örfáum orðum vildi ég víkja að því efni.

Það liggur fyrir, að útgjöld á þessum fjárlögum, sem nú hafa verið afgreidd, eru hækkuð um nær því 1 milljarð frá því, sem var í fjárlögum síðasta árs. Til þess að mæta þeirri útgjaldahækkun þarf mikla tekjuaukningu. Það liggur að vísu ekki fyrir eða ég hef ekki heyrt það nákvæmlega, hversu miklu tekjur ársins 1966 muni nema, og raunar ekki séð fyrir alveg enn. Það er vitað, að þær munu fara fram úr 4 milljörðum. Hve mikið þær fara fram úr þeim, það er ekki á mínu færi að fullyrða neitt um, en maður hefur heyrt nefndar ýmsar tölur, t.d. 4 milljarða og 300 millj. En þó að svo væri, er sýnilegt, að bilið er mikið á milli þeirra fjárlaga, sem afgreidd voru hér í dag, og fjárl. síðasta árs. Nú er það vitað mál, að aðaluppistaðan í tekjuöflun ríkissjóðs er tekjur af innflutningi. Þróunin undanfarin ár hefur verið sú, að innflutningur hefur vaxið ár frá ári. Árið 1965 var hann t.d. 13% meiri en árið 1964, og árið í ár er áætlað, að hann muni verða um 20% meiri en hann var árið 1965. Mér sýnist alveg ómögulegt að komast fram hjá þeirri staðreynd, að það hljóti að vera gert ráð fyrir því, að innflutningurinn haldi áfram að aukast, til þess að hann geti gefið þær tekjur, sem á þarf að halda til þess að mæta þeim útgjöldum, sem hafa verið samþykkt í fjárlagafrv. Ef innflutningurinn heldur þannig áfram að aukast, heldur spennan áfram og sú verðstöðvun tekst ekki, sem stefnt er að. Ef hins vegar innflutningurinn heldur ekki áfram að aukast, get ég ekki annað séð en að miklar líkur séu á því, að greiðsluhalli verði á fjárlögum, því að hér kemur ekki aðeins til greina magn innflutningsins, heldur samsetning hans. Það verður að taka tillit til þess, hvernig það hefur verið. T.d. á þessu ári, ú þremur fyrstu ársfjórðungum þessa árs, óx innflutningurinn um 830 millj. Af þeirri aukningu var aukningin í bílum einum 186 millj. Halda menn, að þetta geti haldið áfram? Aukningin í rafmagnsvélum og áhöldum var 109 millj. Halda menn, að þetta geti haldið áfram, ef verðstöðvun ætti að eiga sér stað? Nei, það liggur í augum uppi, að ef verðstöðvun tækist og þar af leiðandi stöðvun tekna, þá mundu líka staðna innkaup í þessum vörum, sem gefa ríkissjóði mestar tekjur. En eins og ég sagði, þá skal ég ekki fara út í neinar fjárlagaumr. frekar, en ég bendi bara á þetta, að mér virðist þarna ekki vera samræmi é milli, eða a.m.k., að ríkisstj. hafi ekki tekizt að gera mönnum það ljóst, hvernig hún ætlar að samræma þetta tvennt, framkvæma verðstöðvun og þá líka auðvitað teknastöðvun, og ná jafnframt í ríkissjóð þeim miklu viðbótartekjum, sem á þarf að halda.

Ég bendi líka á í þessu sambandi, þegar um er að ræða spurningu um það, hvort verðstöðvun sé framkvæmanleg og raunhæf, og spurningu um það, hvort ekki þurfi áður að reyna að koma málunum á betri grundvöll, að þessi verðstöðvun, sem svo er kölluð, er á því byggð, að niðurgreiðslur eiga sér stað, stórkostlegar niðurgreiðslur, 708 millj. áætlaðar í fjárlagafrv. því, sem samþ. var í dag, og þó er það svo frábærlega úr garði gert, að í því fjárlagafrv. er gert ráð fyrir tekjum allt árið, en útgjaldaárið er aftur á móti, að því er niðurgreiðslurnar snertir, stytt í 10 mánuði, þ.e.a.s. það er gert ráð fyrir því, að niðurgreiðslur eigi sér aðeins stað — eða a.m.k. þessar auknu niðurgreiðslur eigi sér aðeins stað til 1. nóv. 1967. Hvað tekur þá við? Það veit enginn. Annaðhvort verður að halda niðurgreiðslunum áfram, og kannske hefur þurft að auka þær eitthvað á árinu til þess að halda verðstöðvuninni, þá þarf vitanlega viðbótartekjur í ríkissjóð, eða það verður hætt við niðurgreiðslurnar og sleppt lausu. Þá hækkar vísitalan, sagt, að hún muni hækka um 25 stig, ef öllum niðurgreiðslum er hætt. Þá hækka launagreiðslurnar, og þá hækka líka útgjöld ríkissjóðs þar af leiðandi. Kannske verða líka á þessu tímabili einhver ný úrræði fundin, sem geti komið hér í staðinn fyrir, en fyrir þessu öllu verður að gera eða væri æskilegt, að gerð væri nánari grein. Ég held, að það hljóti allir að gera sér ljóst, að þó að niðurgreiðslur geti verið réttmætar og eðlilegar, og það geti veríð réttmætt að grípa til þeirra í stórum stíl til bráðabirgða, þá verði erfitt að halda þeim áfram um ófyrirsjáanlegan tíma. Er hætt við, að engin ríkisstj., hvorki þessi né nokkur önnur, endist til þess.

Þetta heitir frv. um heimild til verðstöðvunar, og það er mikið talað um verðstöðvun. Í sjálfu sér er verðstöðvun ekkert annað en slagorð. Verðstöðvun í bókstaflegri merkingu er blátt áfram útilokuð. Hún er jafnútilokuð eins og það, að allri mannlegri starfsemi skuli hætt. Það hefur verið rakið hér rækilega, að við ráðum ekki yfir verðlagi á útlendum mörkuðum, að því er okkar útflutningsafurðir varðar. Það er rétt. En hitt er auðvitað jafnrétt og satt, að við ráðum ekkert við það, hvernig verðlag verður á þeim vörum, sem við þurfum að kaupa á útlendum mörkuðum og flytja til landsins. Það hlýtur að vera breytilegt. Það er ekki hægt að draga þar neitt rautt strik og segja: verðstöðvun, — það er ekki hægt. Það er raunar viðurkennt í þessu frv., að svo sé það, því að þrátt fyrir heiti frv. er gert ráð fyrir því, að það megi, eins og sjálfsagt er og auðvitað óhjákvæmilegt er, leyfa verðhækkanir, ef þær eru óhjákvæmilegar. Það er þess vegna ekki tryggt með þessu frv. út af fyrir sig, að verðstöðvun í bókstaflegri merkingu eigi sér hér stað. Þegar um slíkt og þvílíkt er að tefla sem þetta, að það er ákveðið, að verðhækkanir megi ekki eiga sér stað, nema óhjákvæmileg þörf knýi, er þar um að ræða teygjanlegt og matskennt skilyrði. Það, sem öllu ræður þar og allt veltur á, er því það, hver sá aðili er, sem á að meta það, hvort sú óhjákvæmilega þörf sé fyrir hendi eða ekki. Það er enginn yfirdómur, sem getur metið það, annar en verðlagsyfirvöldin, sem hér er gert ráð fyrir, og svo stjórnin, sem gert er ráð fyrir, eins og frv. lítur nú út, að hafi neitunarvald í þessum efnum. Það er þess vegna, þegar um slíkt verðlagningarvald sem hér er að tefla, aðalatriðið, hvaða aðili það er, sem hefur verðlagningarvaldið með höndum. Það er, eins og ég sagði, ekki hægt að stöðva verðbólguna með aðgerðum sem þessum. Það er ekki hægt. En það er hægt að hafa með úrræðum sem þessum hemil á verðlagi, og það er hægt að halda verðbólgunni eitthvað í skefjum með þessum aðgerðum, með virku eftirliti. Það er hægt að leggja þeim, sem með verðlagningarvaldið fara, vissar lífsreglur, en samt er það svo, að þegar þær eru úr garði gerðar eins og hér er, þá er það alltaf mjög undir mati verðlagningaryfirvaldanna komið.

Þetta verða menn að gera sér ljóst, þegar verið er að tala um verðstöðvun og þegar verið er að blása þetta út sem eitthvert óskaplegt stórmál. Menn verða að gera sér ljóst, hvað hér er í raun og veru um að tefla. Það er aðeins um það að ræða að taka upp aukið verðlagseftirlit. Það er um það að ræða að heimila ríkisstj. að ákveða, að það megi ekki hækka nema með leyfi yfirvalda. En verðlagningaryfirvöldin geta leyft hækkanir.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, það eitt leysir út af fyrir sig ekki neinn vanda. Það er, eins og hæstv. forsrh. gerði grein fyrir hér áðan, aðeins heimildarlög, sem þar er um að ræða. Allt veltur þess vegna á því, hvernig ríkisstj. ætlar að beita þeim heimildum, sem henni eru í því fengnar, og allt er komið undir framkvæmdinni. Ég gæti í því sambandi vitnað til og tekið undir orð, sem hæstv. forsrh. lét eitt sinn falla, þegar rætt var um mál, sem ekki er alls ósvipað því, sem hér er til umr., þ.e.a.s. brbl. um festingu verðlags og kaupgjalds frá 1956. Þá talaði hæstv. forsrh., sem að vísu var þá ekki forsrh., heldur í stjórnarandstöðu, nokkuð til Alþfl. og þess flokks, sem nú heitir Alþb., og taldi, að þeir hefðu þurft að greiða nokkuð fyrir að komast upp á stjórnarskútuna og þyrftu að greiða fyrir farmiðann. Og í framhaldi af þeim orðum sagði hæstv. forsrh. þá — með leyfi forseta — þetta: „Það mun koma í ljós, þegar hin varanlegu úrræði verða birt, — hvaða gagn mundi af þessu verða sem sagt, — það mun koma í ljós, þegar hin varanlegu úrræði verða birt, því að vitanlega stoða þessi brbl. lítt eða ekki, ef ekki verður frekar að gert, bæði með skynsamlegri tillögugerð og þjóðhollri framkvæmd.“ Ég tel þetta mjög vel mælt. Ég tel þessi orð alveg í fullu gildi og eiga við um þetta frv., sem hér liggur fyrir. Það er vitaskuld allt undir framkvæmdinni komið í þessum efnum. Hvernig verður hún? Það er vitaskuld ekki nóg að banna verðhækkanir. Það er ekki nóg að veita ríkisstj. heimild til þess í þessum lögum og að hún svo ákveði það, að verðhækkanir skuli bannaðar. Menn eru nú því miður ekki almennt svo löghlýðnir, að þeir taki það alveg til greina, sem þannig er bannað. Slíkum bönnum verður að fylgja eftir með virku eftirliti og ströngu. Yfir þá, sem ekki vilja hlíta slíku banni, verður að koma lögum, og þeir verða að sæta viðurlögum. Með því móti einu er hægt að halda uppi svona lögum í framkvæmd.

Það er góður siður skálda að mæra höfðingja, og nú nýverið hefur eitt ágætt skáld mært vorn ágæta forsrh. ásamt forsrh. á Norðurlöndum og talið þá fullkomna og syni guða. Mér finnst nú þetta nokkuð mikið sagt. Ég held satt að segja, að það sé talsverður skilsmunur á guði almáttugum og ríkisstj. Guð almáttugur sagði á sínum tíma: Verði ljós og það varð ljós. Ríkisstj. segir: Verði verðstöðvun. En það bara verður engin verðstöðvun við það eitt, að ríkisstj. segir þetta. Það þarf meira á eftir að fara. Ef það á að halda uppi slíkum lögum sem þessum í framkvæmd, vil ég fullyrða það, að það þarf geysilegt starfslið, geysilegt bákn af verðlagseftirliti. Því verða menn að gera sér grein fyrir. Er stjórnin við því búin? Hvernig hefur verið séð fyrir því? Það er alveg rétt, að slíku miklu verðlagseftirliti eru miklir annmarkar fylgjandi. Það kostar mikla fyrirhöfn fyrir viðkomandi fyrirtæki. Það er mikil skriffinnska því samfara. En menn verða að vera við því búnir að greiða það, ef menn vilja koma þessu kerfi á og gera það þannig úr garði, að gagn verði að.

Ég hef drepið á það áður, að í meðförum hv. Nd. hafa verið gerðar nokkrar breytingar á þessu frv., sem hér liggur fyrir. Af þeim breytingum er sú veigamest að mínum dómi, að skotið er inn í 1. mgr. 1. gr. því, að leyfi til slíkrar verðhækkunar, sem verðlagsnefnd eða önnur verðlagsyfirvöld telja óhjákvæmilega, skuli háð samþykki ríkisstj. Með þessari breytingu er ríkisstj. í raun og veru fengið í hendur verðlagningarvaldið að verulegu leyti. Ríkisstj. er þar fengið neitunarvald gagnvart þeim verðhækkunum, sem lögleg verðlagsyfirvöld annars meta óhjákvæmilegar og nauðsynlegar. Ég tel, að í slíku felist óbeint traustsyfirlýsing til ríkisstj., að fela henni svo víðtækt vald. Auðvitað er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. leggi eftir sem áður og eigi eftir sem áður að leggja til grundvallar sömu sjónarmið og verðlagsyfirvöldin og ríkisstj. eigi ekki að leyfa verðlagshækkanir, nema hún meti verðlagshækkun óhjákvæmilega. En eins og ég raktí áðan og skal ekki endurtaka, er það svo þrátt fyrir slík ákvæði eða skilyrði, sem sett eru, að allt veltur í raun og veru d því, hver fer með valdið. Spurningunni um þetta væri t.d., að ég held, varla hægt að koma fyrir dómstóla. Það væri ríkisstj., sem hefði þarna síðasta orðið, úrslitavaldið um þessi efni. Þetta er í raun og veru þess vegna mikil breyting á frv. frá því, sem var, þegar það var lagt hér fyrir þingið í öndverðu. Ríkisstj. segir, að í þessu frv. felist ekki nein kaupbinding, hún setli ekki að festa kaup, og það er út af fyrir sig alveg rétt. En samt verður ekki fram hjá því gengið, að með þessu ákvæði í frv. er ríkisstj. fengið vald til að ókveða, hvað fjölmennar stéttir beri úr býtum, fengið endanlega valdið um það í raun og veru. Auðvitað eiga verðlagsyfirvöld landbúnaðarvara að fylgja því boðorði, sem sett er í lög um framleiðsluráð, og ákveða verðlagið þannig, að því boði þeirra verði fullnægt, að bændur hafi kaupgjald í samræmi við aðrar vinnandi stéttir. En það er mjög undir mati verðlagsyfirvaldanna komið. Og þegar það á svo aftur að ganga undir úrskurðarvald ríkisstj., er auðsætt líka, að það er mjög undir hennar mati komið. Þetta gildir bæði um hlut bænda og hlut sjómanna, því að ég geri ráð fyrir því, — ég hef að vísu ekki heyrt á það minnzt í þessum umr., en ég geri ráð fyrir því, að það sé enginn vafi á því, að verðlagsyfirvöld sjúvarafurða eigi einnig undir þetta að falla. Það þarf sem sagt til að framkvæma slíkar hækkanir leyfi ríkisstj. Ég get ekki verið sammála þessari breytingu, sem þannig hefur verið gerð á frv., af því að ég vil ekki votta ríkisstj. það traust, sem mér finnst í því felast að veita henni jafnmikið vald og hér er gert. Í öðru lagi vil ég taka það fram, að ég er persónulega alveg andvígur því, að ríkisstj. fari með vald í verðlagsmálum. Ég tel slíkt vald alls ekki í hennar verkahring. Ég tel, að ákvörðun í slíkum málum eigi alls ekki að leggja í hendur ríkisstj., hins hreinræktaða pólitíska valds í landinu. Það eiga að vera stofnanir, sem settar eru upp með öðrum hætti, og embættismenn, sem fara með slíkt vald, þar sem nauðsynlegt er eða þegar nauðsynlegt þykir, að þjóðfélagið hafi þar íhlutun um. Þess vegna get ég ekki, þegar frv. er þannig orðið úr garði gert sem nú er, greitt því atkv. og það af þeim ástæðum, sem ég hef hér lítillega reynt að gera grein fyrir. Ég mun hins vegar, þó að þetta ákvæði sé í frv., ekki leggja neinn stein í götu þess, en ég tel eðlilegt, að eftir að slíkt ákvæði hefur verið sett inn í það, beri stjórnarflokkarnir einir ábyrgð á samþykkt þess, og ég fyrir mitt leyti mun því væntanlega sitja hjá við endanlega afgreiðslu málsins.

Það verður sjálfsagt á móti því, sem ég hef hér sagt, vitnað til fordæmis frá 1956, þar sem þetta var sett í brbl. um bindingu verðlags og kaupgjalds, að breytingar skyldu vera háðar samþykki ríkisstj. Viðvíkjandi því vil ég aðeins segja það, að ég álit út af fyrir sig engan styrk í því fólginn að vísa til fordæma, sem eru varhugaverð, og ég tel þetta ákvæði þá hafa verið varhugavert, alveg eins og ég tel það nú. Og ég vil benda á, að einmitt þá var það af hálfu stjórnarandstöðunnar talið varhugavert. Ég skal ekki fara langt út í að rekja það. En það mætti vitaskuld minna á það, sem núv. hæstv. landbrh. sagði þá í sambandi við þá ákvörðun, að verðlagning framleiðsluráðs eða verðlagning þeirra yfirvalda, sem fóru þá með verðlagningu á landbúnaðarvörum, skyldi vera háð samþykki ríkisstj. En ég ætla nú ekki sérstaklega að vitna til hans, en ég ætla að vitna til þess, sem þá var, að ég ætla, aðaltalsmaður stjórnarandstöðunnar í málinu. Það var þáv. hv. þm. Björn Ólafsson. Þá sagði hann svo, með leyfi forseta, og hans ummæli eru í þingtíðindum á bls. 160:

„Hver breyting þarf fyrst að ganga til verðlagsstjóra. Svo þarf hún að fara til innflutningsnefndarinnar og þar næst til ríkisstj. M.ö.o.: ríkisstj. þarf að taka ákvörðun um hverja einustu verðbreytingu, sem til greina kemur samkv. 4. gr. l. Þetta nær ekki nokkurri átt. Þetta er skriffinnska á hæsta stigi. Það er hægt að hafa í fullu tré við þessi mál, án þess að þörf sé á að gera ríkisstj. að innflutningsnefnd í þessu landi.“

Þetta sagði Björn Ólafsson 1956. Ég held, að þessi ummæli hans séu í góðu gildi enn. Eins og ég sagði, hafa verið gerðar aðrar veigaminni breytingar á þessu frv., en þær læt ég nú liggja á milli hluta. Ég verð þó að segja það, að ég skil alls ekki, hvað felst í þessari breytingu, sem gerð hefur verið á 2. mgr. 1. gr., þar sem skotið hefur verið inn í orðinu „framlags“ til viðbótar við þjónustu. Ég skil ekki, hvað í því felst. En það skiptir ekki miklu máli. Í öðru lagi vildi ég benda á, þó að það beri nú kannske ekki mikinn árangur frekar en þær ábendingar, sem maður er hér með, að breytt hefur verið ákvæði 1. gr. um það og þar sagt, að ríkisstj. sé heimilt að banna verðhækkanir frá 15. nóv. Þær eru bannaðar, verðhækkanirnar frá 15. nóv. Nú koma þessi lög ekki í gildi fyrr en síðar, svo að væntanlega verður ekki hægt að refsa þeim, sem kynnu að brjóta þetta bann á því tímabili, frá 15. nóv. og þangað til lög þessi öðlast gildi. En hins vegar er hægt að ákveða það, að þeir, sem brjóta gegn þessu banni, skuli breyta verðlagi og færa það í það, sem var, þegar verðbannið öðlaðist gildi. En það er út af fyrir sig sjálfsagt ekki hægt að refsa þeim fyrir þær breytingar, sem hafa orðið hjá þeim á þessu tímabili. Í upphaflega frv. var miðað við, að þetta skyldi miðað við það, þegar frv. var lagt fram á þingi. En þessu var sem sagt breytt í hv. Nd. og sagt, að það skyldi miða við 15. nóv., og það rökstutt með því, að menn kynnu að hafa komizt á snoðir um, hvað til stóð, og breytt verðlagi hjá sér skömmu áður en frv. var fram lagt. Ég er þessari breytingu alveg sammála, en ég bendi bara á, að til þess að ná þeim tilgangi, sem á bak við þessa hugsun er, hefði þurft að breyta 2. gr. Í 2. gr. stendur eftir sem úður, að þar er miðað við það, hvenær frv. var lagt fram á Alþ., þannig að eftir frv., eins og það er nú, geta menn breytt á tímabilinu frá 15. nóv. og þangað til frv. var lagt fram á Alþ. og þurfa ekki að færa þær verðbreytingar til baka, sem gerðar hafa verið á því tímabili. Ég ætla, að þetta sé nokkuð augljóst, að þarna hefur þeim skotizt, þótt skýrir væru, í hv. Nd., og skal ég ekki hafa fleiri orð um það.

Ég skal svo ekki hafa öllu fleiri orð um þetta frv. Eins og komið hefur fram í mínu máli, vil ég styðja hverja skynsamlega og alvarlega viðleitni, sem leiðir til eða getur átt þátt í verðbólgustöðvun eða dregið úr verðbólgu, og þess vegna vil ég styðja þá hugsun, sem þetta frv. er byggt á. Hins vegar er ekki því að leyna, að í mér og mörgum öðrum er nokkur uggur um það, að þetta frv. og yfirlýsingar stjórnarinnar, sem hún hefur gefið í því sambandi, séu ekki jafnalvarlega meintar og látið er í veðri vaka og sérstaklega er nú slegið upp af málgögnum stjórnarflokkanna, sem tala um þetta eins og allra merkasta þingmál, sem komið hafi til kasta þessa Alþ., o.s.frv. Það, sem veldur þessum ugg hjá mér og öðrum, er sú staðreynd, sem bent hefur verið á, að það hefur ekki verið gripið til þessa ráðs áður, enda þótt til þess hefði verið rík ástæða. Það er fyrst nú, þegar kosningar taka að nálgast, að þetta úrræði þykir þjóðráð. Og í annan stað er sú ástæða fyrir þessum ugg, að . það er í frásögnum af þessu máli gert miklu meira úr því en efni standa til. Það er í raun og veru sagt allt annað og meira en það er, og það er villandi. Það er verið að reyna að koma inn þeirri skoðun hjá fólki, að með þessu frv., ef að lögum verður, sé komin hér á verðstöðvun. En eins og ég hef sýnt fram á, fer því út af fyrir sig fjarri, að svo sé, þar sem allt hlýtur að vera komið undir framkvæmdinni í þessum efnum og skilyrði að öðru leyti til þess að festa ekki að mínum dómi fyrir hendi, eins og allt stendur í dag. Því er það, að ég óttast, að hér sé því miður um að ræða svipað sjónarspil og sett var á svið árið 1959. Þá var líka ákveðin verðstöðvun og boðuð verðstöðvun, og þá var sagt fyrir kosningar, að verðbólgan væri stöðvuð. En hvað skeði eftir kosningar? Gengið var strax fellt í ársbyrjun 1960. Það er ekki ástæðulaust, að margir eru hræddir um, að sagan muni endurtaka sig.

Það er ljóst af öllu, hvernig sem á er litið, enda viðurkennt af hæstv. forsrh., að hér er aðeins um bráðabirgðaúrræði að tefla. Nú er það út af fyrir sig ekki að lasta, að gripið sé til bráðabirgðaúrræða. Til þeirra verður oft að grípa í efnahagsmálum. En það fer óneitanlega betur á því, að til þvílíkra bráðabirgðaúrræða sé gripið í upphafi kjörtímabils, þegar stjórn og þeir, sem með völdin fara, eru af skiljanlegum ástæðum ekki búnir að átta sig til fulls á aðstæðum, sem fyrir hendi eru, og þeim vanda, sem við er að glíma. Þá er eðlilegt, að þeir þurfi á nokkru svigrúmi að halda til þess að hugsa sig um og undirbúa varanlegri úrræði. Hitt er að mínum dómi miklu lakara og óeðlilegra, að í lok kjörtímabils og eftir samfellda 8 ára stjórnarsetu skuli vera komið með bráðabirgðaúrræði ein. Það er betra og eðlilegra að koma með bráðabirgðaúrræði í upphafi kjörtímabils og rétt eftir kosningar en að koma með þau í lok kjörtímabils og rétt fyrir kosningar.