15.12.1966
Efri deild: 29. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

74. mál, verðstöðvun

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann, er gamalt orðtæki, sem víst mætti nú hafa um hæstv. ríkisstj. um þessar mundir, — þá ríkisstj., sem við upphaf göngu sinnar felldi gengið og hét því að láta uppbótakerfi aldrei þrífast, heldur skyldu atvinnuvegirnir búa við slíka gengisskráningu og rekstrargrundvöll yfirleitt, að þeir yrðu reknir á það sem kallað var heilbrigðan hátt, án allra uppbóta og styrkja, — þá ríkisstj., sem hefur lifað eftir þeim boðorðum og starfað, að frjáls verðmyndun, frjáls samkeppni, frjáls innflutningur væri öllum hagkvæmasta stjórnunaraðferðin, jafnt þjóðfélagsheildinni sem öllum almenningi og þ. á m. neytendum, vegna þess að með þeim hætti væri verðlagi haldið í lágmarki.

Það var að vísu svo, að uppbótakerfið hvarf aldrei fullkomlega úr sögunni þrátt fyrir gengisbreytinguna 1960, en hefur allar götur síðan verið að smáaukast að umfangi, og nú er svo komið, ef með eru taldar þær aukningar á uppbótakerfinu, sem verða að koma til og líklegt er að komi til nú um áramótin, ef fiskveiðar og fiskvinnsla eiga ekki að stöðvast algjörlega, þá mun láta mjög nærri, að uppbóta- og niðurgreiðslukerfið, sem viðreisnarstjórnin hefur komið á, verði því sem næst jafnumfangsmikið og það var mest í tíð fyrrv. ríkisstj. En til þess að samanburður á því verði raunhæfur, þá verður að sjálfsögðu að taka með í reikninginn þær gífurlegu breytingar, sem hafa orðið á verðlagi útflutningsframleiðslunnar í innlendri mynt talið með gengisbreytingunum og síðan með árlegum verðhækkunum á mörkuðum, sem nema á okkar aðalútflutningsvörum frá 1960 milli 40% og 50% miðað við fast gengi. Og það má ekki heldur gleyma þeirri stórfelldu framleiðsluaukningu í mikilvægum greinum útflutningsatvinnuveganna, sem að sjálfsögðu hefði átt, ef rétt væri á haldið, ásamt með verðhækkunum að hafa þau áhrif að bæta hag atvinnuveganna og gera þá hæfari til þess að standa undir örugglega bættum launakjörum og lífskjörum alls almennings og það án þess, að þeim væru veittar til þess nokkrar uppbætur eða styrkir.

Verzlunarfrelsið, annað höfuðboðorð hæstv. ríkisstj., hefur verið í algleymingi síðustu árin. Síaukin gjaldeyrisöflun hefur verið lögð til alfrjálsrar ráðstöfunar innflytjenda og fullt álagningarfrelsi verið veitt í stöðugt fleiri greinum, en rýmkað stórlega á öllum öðrum. Sjálfur álagningargrundvöllur verzlunarinnar og milliliðanna hefur verið hækkaður ákaflega með gengisbreytingunum, og aukning innflutningsins í kjölfar vaxandi gjaldeyristekna hefur gerbreytt aðstöðu verzlunarinnar til þess að taka til sín aukinn hlut í afrakstri góðæranna öll þessi ár. En hin síðustu ár hefur svo aftur á móti verið sú þróun viðvarandi um verðlag innflutnings, að það hefur miðað við stöðugt gengi haldizt svo að segja óbreytt eða naumast breytzt yfir 1% á ári að meðaltali frá 1960, á meðan okkar útflutningsvörur hafa verið að hækka í verði um, eins og ég sagði áðan, milli 40% og 50%. Og þessi staðreynd um hið litla eða ekki breytta verðlag á innflutningsvörum okkar kemur heim við þá staðreynd, að Ísland sé eina landið í V.-Evrópu, sem hefur búið við stöðugt bætt verzlunarkjör síðustu 5–6 árin a.m.k. Það ætti því að vera svo, að ekki væru mikil vandræði á ferðum hjá okkur.

Við höfum lifað við hin mestu velgengnisár að því leyti, að framleiðslan hefur aukizt vegna ársældar, og jafnframt hefur verðlag hennar farið gífurlega hækkandi, gjaldeyrisöflun hefur gert okkur fært að flytja til landsins lítt takmarkað vöruúrval o.s.frv. Það mætti því vissulega ætla, þegar á þessar staðreyndir er litið, að útflutningsatvinnuvegirnir byggju við góða afkomu, að þeir væru reknir án bóta og styrkja af almannafé og allur almenningur hefði hlotið varanlegar kjarabætur og örugglega batnandi lífsskilyrði. En er þessu nú svo farið? Síðustu atburðir benda víst aldeilis ekki til þess, að svo sé. Hver grein útflutningsatvinnuveganna af annarri lýsir því nú yfir, að þar sé um yfirvofandi gjaldþrot að ræða. Enginn rekstrargrundvöllur er fyrir starfsemi frystihúsanna, fullyrða forustumenn þeirrar atvinnugreinar. Helmingur togaraflotans hefur verið seldur úr landi fyrir brotajárnsverð og það, sem eftir er af honum, er rekið með yfirþyrmandi tapi og jafnvel svo að skiptir mörgum millj. kr. á ári á hvert skip, að því er forustumenn atvinnugreinarinnar telja a.m.k. Smærri bátarnir liggja í stórum stíl ónotaðir og hlaða á sig kostnaði og skuldum. Aðrir berjast í bökkum eða er haldið á floti með illa launuðum þrældómi sjómanna og jafnvel þeirra, sem bátana eiga. Á síðustu fáum árum hefur minni bátum fækkað um 100, vegna þess að stjórnarstefnan hefur ekki tryggt með nokkrum hætti, að nokkur endurnýjun ætti sér stað í bátaflotanum, nema í stærstu skipunum, sem beint er á síldveiðar, og það er ein af höfuðástæðunum fyrir því, hvernig komið er hag frystihúsanna, ásamt verðbólgunni. Síldarverksmiðjurnar, sem liggja næst miðunum, eins og þau hafa verið nú að undanförnu, eru að vísu reknar með hagnaði, en þær, sem fjær liggja, eru reknar með tugmilljóna tapi eða hefur verið lokað fyrir fullt og allt. Það, sem upp úr öngþveitinu virðist helzt standa, eru stóru síldveiðiskipin og síldarbræðslurnar á Austfjörðum og saltsíldarverkunin, að viðbættu einstaka frystihúsi, sem býr við sérstöðu um hráefnisöflun og hefur jafnframt beitt nýtízku hagræðingaraðgerðum í rekstri sínum.

Ég held, að þó að auðvitað megi um það deila, hvert stig vandræðanna er, liggi það fullkomlega fyrir, að ávinningur útflutningsatvinnuveganna af tvennum gengisfellingum, af stórfelldri framleiðsluaukningu og gífurlegum verðhækkunum er rokinn út í veður og vind. Og þessar atvinnugreinar, sem eru undirstaðan að efnahag þjóðarinnar og afkomu, standa nú verr að vígi en oftast eða nokkru sinni áður. Eftir öll velgengnisárin mega þeir nú, sem bera hitann og þungann í rekstri þessara atvinnugreina, líta með eftirsjá til þeirra vesælu tíma, þegar uppbótafargan og haftaófrelsi vinstri stjórnarinnar settu svip sinn á ástandið, til þeirra tíma, þegar þessar atvinnugreinar bjuggu við þriðjungi og í sumum tilfellum helmingi lægra verð á mörkuðum en þær nú gera og miklu minni framleiðslu.

Ég ætla mér ekki og mun ekki gera tilraun til þess að skýra nema þá að litlu leyti orsakirnar, sem liggja til þess, að svo er komið sem komið er, hver firn það eru, sem valda því, að sjálfar undirstöðuatvinnugreinarnar, sem skapað hafa sívaxandi þjóðartekjur og þjóðarauð síðustu árin, hafa sjálfar verið rúnar svo gersamlega öllum árangri starfsemi sinnar, að við þroti liggur. En það þykir mér þó sýnt, að skýringin geti í höfuðatriðum varla verið önnur en sú, að þessar atvinnugreinar hafi á margvíslegan hátt og eftir mörgum krókaleiðum efnahagskerfisins og efnahagsþróunarinnar verið mergsognar og hlunnfarnar, að aðrir aðilar innan efnahagskerfisins hafi fengið of mikið til hlutar, en útflutningsatvinnugreinarnar of lítið. Í þessu sambandi vil ég segja það út af því, sem hæstv. forsrh. gerði hér að umtalsefni, að höfuðvandamálið liggur ekki í þeim verðlækkunum, sem orðið hafa síðari hluta ársins á einstaka útflutningsvörutegundum, og það viðurkenndi hæstv. ráðh. raunar líka með því að segja, að það væri ekki svo alvarlegt, þótt nokkrar sveiflur hefðu orðið á okkar síldarafurðum, það alvarlegasta væri og það, sem væri raunar ástæðan fyrir þeim ákvörðunum, sem ríkisstj. hefði nú tekið í efnahagsmálunum, væri afkoma frystihúsanna. En hvernig hefur ástandið verið með rekstur frystihúsanna? Á þessu ári er það alveg öruggt og ég hef fyrir því heimildir, sem ekki verða vefengdar, að meðalverð afurða frystihúsanna er a.m.k. 6–7% hærra á þessu ári en það var á s.l. ári og engar líkur eru til, að á næsta ári, — um það er erfitt að segja, m.a. vegna þess að nú standa verzlunarsamningar yfir við eina okkar stærstu viðskiptaþjóð, og ekki vitað um, hvaða verð fæst út úr þeim samningum, — en engar líkur eru á því, að verðfallið, sem orðið hefur, geti haggað því, að það verði hærra meðalverð á næsta ári en á þessu ári, sem nú er að líða. Það er því auðsætt, að það, sem veldur höfuðvandanum í okkar undirstöðuatvinnugreinum, eru ekki þær sveiflur, sem nú hafa orðið, heldur er orsakanna annars staðar að leita. Og eins og ég sagði er það mín skoðun, að höfuðástæðan sé sú, að afrakstri góðæranna hafi verið misskipt milli aðilanna í efnahagskerfinu. Og því verður vissulega ekki heldur neitað, að þau úrræði, sem ríkisstj. hyggst nú grípa til til þess að leysa, þó að til algerra bráðabirgða sé, fram yfir næstu alþingiskosningar, vanda útflutningsatvinnuveganna, benda til þess, að með henni sé að vakna glæta skilnings á því, að svona sé þessu farið. En úrbótaaðferðirnar sanna líka, að hér er aðeins um skilningsglætu að ræða, en viljinn til fulls skilnings virðist vera mjög takmarkaður.

Úrbótaleiðir hæstv. ríkisstj. virðast mér vera þrenns konar: Í fyrsta lagi er um þá leið að ræða að nota það fé, sem útlit er fyrir að verði afgangs á þessu ári í ríkisbúskapnum, tekjuafganginn, sem hefur skapazt, annars vegar vegna algerlega óþarfra skattahækkana, sem framkvæmdar voru með lögum á síðasta Alþ., og hins vegar vegna óþarfs og óeðlilega aukins innflutnings á árinu, sem á rætur sínar í gengisfellingarótta og andúð á sparnaði í þeirri verðbólguspennu, sem ríkt hefur í landinu. Þetta fjármagn, sem er það eina, sem til greina getur komið, ef ekki á að samþykkja enn nýja skatta á þessu þingi, en því hefur hæstv. forsrh., að mér skilst, algerlega neitað, það er því aðeins til staðar, að alveg óvenjulegur afli hefur verið í síldveiðunum, að gengið hefur verið á gjaldeyrissjóðina með innflutningi, sem ekki stenzt miðað við samtíma gjaldeyrisöflun, og þannig fengið með tapi þjóðarbúsins og versnandi stöðu þess út á við. Hér er þess vegna um að ræða hæpna og einstæða uppsprettugreiðslugetu ríkissjóðs, sem hlyti að leiða til algerra vandræða og hruns, ef af slíkri ætti að ausa til langframa, og það því fremur sem engar líkur eru á, að þessi uppspretta verði til staðar ár eftir ár. Sú ráðabreytni er vitanlega fráleit, að halda útflutningsatvinnuvegunum gangandi með þeim hætti að eyða gjaldeyrisvarasjóðnum og reka gjaldeyrisviðskiptin með 100 millj. kr. halla eða þá að öðrum kosti með stórkostlegum halla ríkissjóðs. En annað þessara tveggja virðist mér, að verði að koma til, ef fjármagn á að fást til þess að gera fær þau bráðabirgðaúrræði, sem hæstv. ríkisstj. hefur á prjónunum. Ég held, að slík ráðsmennska hlyti að hefna sín illilega, þó að síðar yrði, og hefur sjaldan þótt góðri lukku að stýra, ef hliðstæðum aðferðum hefur verið beitt. En þetta byggist vafalaust á þeirri kenningu, að það geri minnst til, þó að syndaflóðið komi eftir minn dag, eins og forðum var sagt. En það er þó ekki alveg fyrir það að synja, að það úrræði ríkisstj. að hverfa að auknum styrkjum og niðurgreiðslum í eins konar endurgreiðsluformi á þeirri skattheimtu, sem hún hefur að undanförnu að ástæðulausu haft í frammi, það sýni, að það hvarfli að ríkisstj., að þensla ríkisbáknsins og skattheimtan eigi einhvern þátt í því, að undirstöðuatvinnuvegirnir eru nú að sligast undir þeim byrðum, sem stjórnarstefnan að þessu leyti hefur verið að klyfja þá með, bæði með beinum og ekki síður með óbeinum hætti.

Annað þrautaráð hæstv. ríkisstj. er svo fólgið í þessu frv., sem hér er á ferðinni og er kallað frv. um heimild til verðstöðvunar. Nafnið gæti bent til þess, að hæstv. ríkisstj. væri að aukast skilningur á því, að verzlunin og milliliðirnir hefðu á undanförnum frelsisárum gerzt helzt til djarftækir til síns hluta af þjóðartekjunum, og það væri raunar sízt að undra. Ef betur er að gáð, sést þó fljótlega, að hér er ekki um að ræða endurheimt á neinu af því, sem milliliðirnir hafa tekið til sín umfram það, sem áður var, heldur eingöngu er um það að ræða og í bezta falli, að þar haldist óbreytt ástand. Það er sem sagt alls ekki hugmyndin með þessu frv. að taka verðlagningarkerfið, eins og það hefur verið að undanförnu, á nokkurn hátt til endurskoðunar. Verzlunin og milliliðirnir eiga að halda sínum hlut, eins og þeir hafa skammtað sér hann að mestu leyti á undanförnum árum og án afskipta hins opinbera. Verzlunin og milliliðirnir eiga að halda áfram að njóta til fulls þess gífurlega hækkaða álagningargrundvallar, sem orðið hefur með gengisbreytingunum, nokkuð hækkuðu verðlagi innflutnings og auk þess allri hinni beinu prósentuhækkun álagningar, sem er staðreynd, að hefur átt sér stað, bæði með samþykki verðlagsyfirvalda, að því er snertir þær vörutegundir, sem enn eiga að heita, að háðar séu verðlagsákvæðum, og einnig að því er áhrærir þær mörgu tegundir vöru og þjónustu, sem algerlega hafa verið gefnar frjálsar á síðustu árum. Því miður er okkar hagskýrslugerð ekki slík, að það sé mögulegt að segja með neinni nákvæmni til um, hve mikil sú fjármunatilfærsla er, sem átt hefur sér stað til verzlunarinnar og milliliðanna á frelsisárunum, svo brýnt rannsóknarefni sem það þó væri og vel framkvæmanlegt að mínu viti að vinna, ef áhugi og vilji væri fyrir hendi til þess. En hann hefur vissulega skort, og jafnvel einföldustu spurningum um þessa hluti, eins og t.d. þeim, sem ég beindi til hæstv. viðskmrh. á síðasta Alþ., er ekki svarað eða reynt að svara. En þrátt fyrir það eru ýmsar staðreyndir, sem liggja fyrir og sanna, að hér er um gífurlegar fjárhæðir að ræða, hundruð, ef ekki þúsund milljóna fjárflutning frá undirstöðuatvinnuvegunum, þeim atvinnuvegum, sem mæla fyrst og fremst kaup og kjör hins almenna manns í landinu, og til hinnar þjóðhagslega óarðbæru milliliðastarfsemi. Og ég ætla að nefna hér fáeinar staðreyndir um þetta efni. Í fyrsta lagi þá, að fjármyndun hefur verið langsamlega mest í verzluninni af öllum greinum þjóðarbúskaparins á síðustu árum. Miðað við fast verðlag og aukningu mannfjölda hefur fjármunamyndun í verzluninni verið að meðaltali 103% hærri 1960–1964 en árið 1959, og þá eru þær tölur bæði reiknaðar með mannfjölda og gert ráð fyrir föstu verðlagi. Það er sem sagt verðmætisaukningin á hvern mann, sem þarna er um að ræða. Þetta hlutfall er fjórfalt miðað við fiskveiðar og fiskiðnað, og engin önnur grein fjármunamyndunarinnar kemst nálægt því að vera hálfdrættingur á við verzlunina að þessu leyti. Á þessu tímabili, sem þessi viðmiðun mín er gerð, 1960–1964, uxu þjóðartekjur um 23.3% og meðalaukning fjárfestingar miðað við sömu viðmiðun og ég áður hafði var 7.8% á ári, og menn beri það saman við það, sem átt hefur sér stað í verzluninni. Og það segir vissulega sína sögu um það, hvar menn hafa haft bezta trú á því að ávaxta fé sitt og í hvaða rekstur menn hafa haft hug á að leggja á þessum árum. Mannfjöldaaukning í verzluninni hefur verið gífurleg á þessum árum. Árið 1959 var rúmlega 11% af virku vinnuafli þjóðarinnar talið bundið við verzlun og viðskipti. En nú er þessi tala komin upp í milli 14 og 15%. Þannig hefur verzluninni ekki nægt að taka til sín ámóta aukningu vinnuafls og fólksfjölguninni nemur, heldur allt að 30–40% vinnuaflsaukningarinnar að auki. Þetta sýnir auðvitað greinilega hvort tveggja: yfirburði verzlunarinnar umfram aðrar atvinnugreinar í því að geta boðið í vinnuaflið og einnig þá gífurlegu og óþörfu þenslu, sem átt hefur sér stað. Þetta sýnir líka þann algera skort á aukinni hagkvæmni í rekstri verzlunarinnar og hve fánýtt notagildi fjárfestingarinnar hefur verið þrátt fyrir hin ákjósanlegustu skilyrði.

Þriðja staðreyndin, sem ég nefni og raunar skýrir hinar tvær fyrrnefndu að verulegu leyti, er fyrirliggjandi gögn um það, hvernig álagningarfrelsið hefur verið notað. Í hverju einasta tilfelli hefur álagningarfrelsið valdið stórkostlegum hækkunum álagningar, hvað heildsöluna snertir oft upp undir 300%, og það hefur venjulega gerzt mjög snögglega, og að því er smásöluna snertir hefur reynslan að vísu ekki verið eins slæm, en þar hefur þó iðulega verið um 200 eða allt að 200% álagningarhækkun að ræða. Ég veit, að um þetta eru til fullkomnar skýrslur hjá verðlagsnefnd og verðlagsstjóra, og ég kalla það hart að leggja þær skýrslur ekki á borðið fyrir alþm., þegar þeir eru að taka mikilvægar ákvarðanir í sambandi við verðlagsmálin, en það hefur ekki verið gert. Þessum gögnum, þessum upplýsingum er haldið leyndum vitandi vits, vegna þess að þær þola ekki að sjá dagsins ljós. Það þýðir þess vegna hvorki fyrir hæstv. ráðh. né aðra að koma hér og segja, að hér sé um eitthvert smáræði að tefla, sem raunar hafi ekkert að segja í okkar þjóðarbúskap. Það, sem milliliðirnir taka til sín, er svo gífurlegur hluti af arði þjóðarbúsins, að það getur ráðið algerum úrslitum bæði um hag undirstöðuatvinnugreinanna og um hag almennings, hvernig þeim málum er varið, og ég tel, að á því sé lítill vafi, að fjármunatilfærslan til verzlunar og milliliða sé einhver allra stærsta og mikilvægasta breytingin, sem hefur orðið í okkar efnahagskerfi á síðustu árum. Það getur vel verið gott og blessað að segja nú við verzlunina og milliliðina, að nú skuli þeir ekki ganga feti framar í því að auka sinn hlut, heldur skuli um takmarkaðan tíma stöðva frekari sókn þeirra. Og það er það, sem felst í þessu frv. í bezta falli, ef allar heimildir þess eru notaðar til hins ýtrasta. Það er óbreytt ástand. Ég held, að það sé alveg óhætt að fullyrða, að slíkt frv. eða slík lög sem hér er gert ráð fyrir að setja skera ekki fyrir rætur neinna meina í efnahagskerfinu, en eru hins vegar að öðrum þræði staðfesting og viðurkenning á því, að sá hlutur, sem milliliðirnir hafa sjálfir skammtað sér, sé ekki óhæfilega mikill, — yfirlýsing um, að hann skuli standa óbreyttur, án þess að nokkur endurskoðun verðmyndunarkerfisins komi til.

Þriðja úrræði hæstv. ríkisstj. og það síðasta, sem raunar er nátengt hinum tveímur, sem ég nefndi, er svo það að reyna að halda kaupgjaldi óbreyttu. Það er ekki fjarri lagi að skilja svo túlkun ríkisstj., eins og hún er í aths. með þessu frv., að hún segi nánast við verkalýðshreyfinguna: Ef þið unið ekki óbreyttu kaupgjaldi, verður ekki heldur nein verðstöðvun, þá verður öllu sleppt lausu aftur. — Þetta staðfesti hæstv. forsrh. greinilega í ræðu sinni áðan og mun ekki í annarri ræðu, sem hann hefur haldið hér á hv. Alþingi, hafa kveðið svo fast að orði um þetta atriði. Notkun heimildanna væri algerlega háð því, sagði hæstv. forsrh., að engar kauphækkanir yrðu næstu mánuðina. Það má að vísu segja, að slík ummæli, hvort sem á að kalla þau hótanir eða einhverju öðru nafni, séu ekki alveg nýtt fyrirbrigði, heldur er hér um ofurlítið breytt viðlag að ræða við þann söng, sem atvinnurekendur og stjórnarvöld hafa yfirleitt sungið síðasta aldarfjórðunginn í sambandi við allar eða flestar kaupbreytingar. Slík ummæli, hótun eða hvað menn vilja kalla það munu þess vegna auðvitað ekki nú frekar en áður ráða neinum úrslitum um það, hvaða ákvarðanir eða aðgerðir koma til greina af hálfu verkalýðshreyfingarinnar við núverandi aðstæður. Það hlýtur fyrst og fremst að koma til, að tekið sé mið af hagsmunum almennings og af því, hvernig verkalýðshreyfingin getur stutt að hagkvæmri efnahagsþróun.

Um kauphækkanir almennt vil ég í þessu sambandi segja það, að auðvitað eru þær hvorki trúaratriði fyrir mér eða fyrir neinum öðrum í verkalýðshreyfingunni né heldur eru þær nokkurt takmark í sjálfu sér. Þær eru aðeins leið, ég vil segja ein leið af fleiri hugsanlegum leiðum til þess að nálgast þau takmörk, sem verkalýðshreyfingin stefnir að með kjarabaráttu sinni og yfirleitt allri starfsemi sinni, — leið til þess, að láglaunafólk og aðrir þeir, sem miður eru settir í þjóðfélaginu, geti hlotið meira til að bíta og brenna, betri húsakost, meiri tómstundir og bætt menningarleg skilyrði, og ef það sannast, að unnt sé að ná eða nálgast þessi markmið eftir öðrum leiðum að einhverju eða öllu leyti en beinum launahækkunum, yrði sjálfsagt enginn fegnari því en verkalýðshreyfingin, og ég held, að samningsgerðir verkalýðshreyfingarinnar síðustu úrin a.m.k. sanni fullkomlega þann vilja samtakanna, með því að það hefur í ríkara mæli en áður verið reynt að fara einmitt slíkar kjarabótaleiðir. Og þó að það sé sannast mála, að margt hafi farið öðruvísi en æskilegt hefði verið, hvað verðlagsþróunina snertir í kjölfar þeirra samninga, vil ég ekki nú eða enn slá því föstu, að það hafi endanlega sannazt, að slíkar leiðir séu með öllu ófærar. En með þessu er þó engan veginn sagt, að verkalýðshreyfingin nú telji efni til að falla að meira eða minna leyti frá kröfum sínum um samningsbundnar kjarabætur. Þvert á móti eru nú flestar ástæður þannig vaxnar, að brýnni þörf en nokkurn tíma áður er á því að breyta kjarasamningum og reyna með því að tryggja hagsmuni vinnustéttanna, ekki sízt vegna þeirrar óvissu og öngþveitis, sem nú ríkir í efnahagsmálunum.

Ef litið er á þróun kjaramála verkafólks síðustu 6–8 árin, ber þá staðreynd einna hæst, að samningsbundin laun fyrir eðlilegan vinnudag hafa lengst af verið á þessu tímabili lægri miðað við kaupmátt en við upphaf þess og stöðugt í meira ósamræmi við vöxt þjóðartekna. Óyggjandi tölur um þetta efni hef ég hér í höndum, tölur, sem ekki geta verið umdeilanlegar, vegna þess að þær eru byggðar á útreikningsaðferðum, sem fullt samkomulag hefur verið um milli aðila vinnumarkaðarins, og þær segja okkur, að í almennri vinnu Dagsbrúnarverkamanna sé kaupmáttur á vinnustund nú 97.7% af því, sem hann var 1959, í fiskvinnu, sem á þessu tímabili hefur hækkað um tvo taxtaflokka og er þess vegna nokkuð góður mælikvarði á þær greinar, sem hafa fengið verulega tilfærslu við samningsgerð, er kaupmáttur nú 100.3%, í hafnarvinnu, sem hefur hækkað um fjóra taxtaflokka og langmest af öllum starfsgreinum, er kaupmáttur tímakaupsins nú 105 á móti 100 1959. Þetta eru tölur, sem ekki verða að mínu viti vefengdar og sýna það alveg svart á hvítu, hvernig þróunin hefur verið, hvað þau laun áhrærir, sem bundin eru í kjarasamningum. Þetta er að vísu ekki tæmandi, en þessir þrír starfsgreinaflokkar eru áreiðanlega mjög táknandi fyrir þær breytingar, sem hafa orðið á kaupgjaldinu hjá almennu verkafólki síðustu árin. En þess ber líka að geta í sambandi við þetta, að svona gott hefur ástandið ekki verið lengst af þetta tímabil. Lengst af á viðreisnartímabilinu hefur verið um miklu lægri kaupmátt að ræða, og það er í raun og veru ekki fyrr en með júnísamkomulaginu, sem fer að marka fyrir bata í þessum efnum. En lægst hefur kaupmátturinn komizt eftir þeim útreikningsaðferðum, sem hér er beitt, niður í 84% af kaupmættinum 1959, en það var árið 1962. Þessar tölur held ég, að sanni og það svo að ekki verði um villzt, að kjarasamningar almenns verkafólks mæla verkafólki nálega ekkert af þeirri miklu þjóðarteknaaukningu, sem hefur orðið á þessum árum. Það, sem verkafólk hefur hlotið af þeirri aukningu, hefur verið fengið eftir öðrum leiðum. Það hefur verið fengið með auknum yfirvinnutekjum, með auknu vinnuálagi, með ýmsum ósamningsbundnum greiðslum og yfirborgunum, sem hafa þrifizt í skjóli þeirrar spennu, sem ríkt hefur á vinnumarkaðinum, og að einhverju litlu leyti hefur það fengizt fyrir aukinn hlut ákvæðisvinnu. En í gegnum hina almennu samninga, sem undir öllum venjulegum kringumstæðum ákveða kjörin, hefur ekki fengizt neitt af þeirri þjóðarteknaaukningu, sem orðið hefur. Sú aukning, sem verkafólk hefur fengíð á kaupmætti ráðstöfunartekna, byggist á þessum atriðum, sem ég nefndi, hún byggist m.a. á því, að verkafólk á Íslandi vinnur um 1/3 lengri vinnudag en þekkist annars staðar í Evrópu, hátt upp í 3 þús. vinnustundir á ári á móti kringum 2 þús., sem tíðkast í öðrum löndum, þ.e.a.s., að íslenzkt verkafólk fær því aðeins nokkurn hlut í auknum þjóðartekjum, að það leggi á sig vinnu, sem svarar að meðaltali allt að 5 mánaða aukavinnu á ári, og mörg dæmi eru til þess, að slík aukavinna svari til allt að 7 mánaða vinnu á ári auk vinnu allra hinna 12 mánaðanna. Það er svo vitað um yfirborganirnar, sem nokkuð tíðkast, a.m.k. hér á þéttbýlissvæðunum, að þær byggjast eingöngu á því, að það er yfirspenntur vinnumarkaður, sem við búum við, og um leið og þar verður breyting á, eru þær úr sögunni. Og það er í raun og veru um hvort tveggja þessara meginatriða, sem hafa fært verkafólki eitthvað af aukningu þjóðarteknanna, að segja, bæði hinn aukna vinnutíma, sem hefur orðið á þessu tímabili, og yfirborganirnar, að þær hætta að mæla verkafólki ráðstöfunartekjur, um leið og spennuna lægir. Fyrir þeim er engin trygging í samdráttarástandi, sem er alls ekki óhugsandi að geti orðið afleiðing af núverandi efnahagsástandi. Og þegar við hugleiðum þetta ásamt þeirri staðreynd, að verkafólk fær nú í dag aðeins um 60% tekna sinna með dagvinnunni, þó að yfirborganir séu þar með taldar, þá fæst ekki nema um 60% af atvinnutekjunum með venjulegri dagvinnu, og a! því verður auðsætt, hve gífurleg sú tekjuskerðing gæti orðið að óbreyttum kjarasamningum, ef til samdráttar í atvinnulífinu kæmi, og jafnvel þótt ekki væri nema eitthvað skipti um á vinnumarkaðinum og hann yrði ekki jafnyfirspenntur og hann er í dag.

Ég tel ekki neinn vafa á því, að í þeim samningum, sem nú hljóta að standa fyrir dyrum á milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj., því að ég tel, að raunar hafi hún með þeim ákvörðunum, sem eru í þessu frv., tekið samningsréttinn í sínar hendur af hálfu atvinnurekenda, — og ég harma það í sjálfu sér ekki, það er ekki víst, að það sé neitt verra að semja við hana en atvinnurekendur, — þá hlýtur það að vera ein meginkrafa verkalýðssamtakanna að brúa a.m.k. að verulegu leyti það bil, sem nú er orðið á milli samningsbundinna launa og þeirra tekna, sem a.m.k. verulegur hluti verkalýðsstéttarinnar getur, miðað við núverandi ástand, aflað sér með óhæfilegum vinnutíma og ósamningsbundnum yfirborgunum. En til þess að þetta gæti hugsanlega tekizt, þarf auðvitað margt að koma til, og ég tel hvorki stað né stund til þess að rekja það ýtarlega. Þar þyrfti ekki sízt að koma til aukið samstarf ríkisstj., atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar um stórfellda styttingu vinnutímans án tekjuskerðingar, lög um vinnuvernd, ásamt samningum við atvinnurekendur um raunverulega styttingu vinnutímans með óbreyttum launum og um yfirfærslu tekna, sem nú er aflað með yfirvinnu yfir á daglaun, t.d. með svipuðum hætti og reynt var í litlum mæli í júnísamkomulaginu 1964. Og síðast, en ekki sízt þarf að vinna að því skipulega að gerbreyta rekstrarfyrirkomulagi og vinnutilhögun fyrirtækja til þess að gera hina óhjákvæmilegu styttingu vinnutímans mögulega og til þess að koma í veg fyrir, að hún valdi fyrirtækjunum og atvinnuvegunum meiri tilkostnaði en þeir fá undir risið, og til þess eru áreiðanlega fullir möguleikar, ef rétt er að staðið. Og ég tel það alls ekki óhjákvæmilegt, að a.m.k. verulegt átak í þessum efnum þyrfti undir öllum kringumstæðum og að öllu leyti að þýða aukinn tilkostnað atvinnuveganna, því að það er áreiðanlegt, að núverandi fyrirkomulag í þessum efnum veldur þeim einnig mörgum hverjum miklum skaða, en ekki ávinningi. En það má raunar segja svipað um fleiri af þeim kjarabótaleiðum, sem koma til greina við kaupbreytingar, að það þarf ekki að vera undir öllum kringumstæðum um að ræða beinlínis, að lagðar séu óhæfilegar byrðir á atvinnuvegina. En á það þarf að reyna að mínu viti og það alveg á næstunni, hvort ríkisstj. og atvinnurekendur vilja opna einhverjar slíkar leiðir í sambandi við samningamálin. En þar vil ég þó taka það skýrt fram, að ég útiloka ekki heldur kauphækkunarleiðina að einhverju leyti a.m.k. En hvort þetta tekst, fer svo að sjálfsögðu ákaflega mikið eftir því, hvernig tekið verður á sjálfum verðlagsmálunum, hvort þar koma til róttækari og árangursríkari aðgerðir en hægt er að vonast eftir, eftir að hafa séð þetta frv., sem hér er á ferðinni.

Ég vil segja það að lokum, að ef það er ærleg meining hæstv. ríkisstj. að reyna að opna leiðir til þess, að verkalýðshreyfingin eigi einhverra annarra kosta völ til þess að nálgast markmið sín í kjarabaráttunni en þá aðferð að hækka launin að krónutölu, og þá leið hlýtur hún að fara, ef aðrar reynast ófærar eða eru gerðar ófærar, þá verður hún að taka bæði verðlagsmálin og efnahagsmálin í heild öðrum tökum en nú er gert og heldur en þetta frv. gerir ráð fyrir, nota aðrar aðferðir en hún fyrirhugar í þeim vanda, sem bæði höfuðatvinnugreinarnar og launastéttirnar standa nú frammi fyrir, fyrst og fremst vegna verðbólguþróunarinnar, sem geisað hefur í landinu undanfarin ár og er staðreynd, sem ekki verður haggað, hvort sem karpað er um það á einn eða annan veg, hverjar ástæður liggi til hennar. Hvað meðferð verðlagsmálanna snertir, hefur það verið og er skoðun okkar í verkalýðshreyfingunni, að það sé óhjákvæmilegt, ef verðlagið á ekki að fara úr skorðum og verðbólgan að geisa áfram, að fylgja þar verðhömlunarstefnu, því sem ég vildi kalla verðhömlunarstefnu, og sporna við því eftir mætti, að grundvöllurinn fyrir útflutningsatvinnuvegunum riði til falls vegna verðþenslunnar, þannig að þeir geti mælt með eðlilegum hætti til verkafólks þann hlut, sem því ber af þjóðartekjunum og þjóðarframleiðslunni. Til þess að þetta sé unnt teljum við, að þurfi að vera starfandi virkt verðlagseftirlit og mjög víðtækt vald til þess að ákveða af opinberri hálfu hámarksverð á vörum og margs konar þjónustu. Um þetta efni höfum við Alþb.-menn flutt frv. bæði á þessu þingi og á fyrri þingum hér á hv. Alþingi.

Ég held, að þróun verðlagsmélanna hafi líka sannað, að kenningarnar um, að frjáls samkeppni skipi verðmyndunarmálunum á farsælan veg, — ég held, að hún hafi sýnt gjaldþrot sitt og sé að gera það m.a. með flutningi þessa frv. af hendi þeirrar ríkisstj:, sem boðað hefur frelsið sem allra meina bót í þessum efnum. En því þá ekki að viðurkenna þetta til fulls og fara að ráðum okkar Alþb.-manna og gera verðlagsnefndina og verðlagseftirlitið að raunverulegu verðhömlunartæki, ekki bara um stundarsakir, heldur varanlega? Þó að núverandi hæstv. ríkisstj. þurfi kannske ekki að lifa lengur en til næsta sumars eða næsta hausts, þá þurfa undirstöðuatvinnuvegirnir í þjóðfélaginu og verkafólkið í landinu að lifa lengur. En þetta frv. tekur ekki þannig á þessum málum, og í raun og veru er hæstv. ríkisstj. enn að berja höfðinu við steininn að nokkru leyti með því að lýsa því yfir, að hér sé eingöngu um bráðabirgðaúrræði að ræða, að því leyti sem þetta frv. kynni að leiða til einhverrar verðhömlunar, frelsið sé eftir sem áður meginstefnan, sem eigi að sigla eftir, og það eigi að taka upp aftur að haustnóttum á næsta ári.

Hér er því miður ekki um það að ræða, að það sé um neina varanlega stefnubreytingu að ræða hjá ríkisstj. þrátt fyrir reynsluna á undanförnum árum, né heldur er um það að ræða, að tjaldað sé lengur en til einnar nætur. Bæði þetta frv. og aðrar þær fyrirætlanir, sem eru á döfinni í sambandi við það, benda hins vegar því miður til þess, að hér sé fyrst og fremst verið að hugsa um að fleyta vandamálunum á undan sér í stuttan tíma án þess að leysa þau, fleyta þeim á sýndarmennsku og algerum bráðabirgðakrafti við efnahagskerfi, sem er komið að fótum fram og hver ábyrg ríkisstj., sem ætlar að ráða í landinu, hlýtur að taka til gagngerðrar endurskoðunar.