17.12.1966
Efri deild: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

74. mál, verðstöðvun

Frsm. 1. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Það er nú ljóst, að við sjáum nú þess ýmis merki, að kosningar nálgast óðum. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er eitt þeirra. Þetta frv. er í sjálfu sér ekki merkilegt, það er lítið annað en staðfesting eldri heimilda, en ef því væri hins vegar að treysta, að þessi frv.-flutningur bæri vott um sinnaskipti hjá hæstv. ríkisstj., þótt síðbúin séu, skal það ekki lastað af mér. Gildi heimildarlaga á borð við þau, sem hér er um að ræða, fer að sjálfsögðu fyrst og fremst eftir því, hvernig til tekst um beitingu þeirra og framkvæmd. Og núverandi ríkisstj, er ekki nýliði, hún er ekki að byrja sinn feril, hún hefur setið í 7 ár, og í ljósi þeirrar reynslu, sem fengizt hefur, verður ekki sagt, að henni hafi tekizt að skapa um sig það traust, að hún sé líkleg til að framkvæma heimildarlög af þessu tagi, um verðstöðvun, með farsællegum hætti.

Sú spurning hlýtur að vakna í þessu sambandi, hvers vegna hæstv. ríkisstj. hafi ekki notað þær heimildir, sem hún hefur haft óumdeilanlega, til þess að framkvæma verðstöðvun, miklu fyrr, á meðan skaplegri verðlagsgrundvöllur var fyrir hendi til að festa. Sá verðlagsgrundvöllur, sem nú er gert ráð fyrir að festa, er augljóslega ekki til frambúðar. Vélbátaútgerðarnefndin hefur sýnt fram á með skýrslu sinni, sem allir hv. alþm. þekkja, að fiskverðið sé of lágt til þess að byggja áframhaldandi útgerð á þorskveiðar á. Togaranefndin hefur lýst í sinni skýrslu, að útgerðarkostnaður hvers togara sé mörgum millj. kr. meiri á ári hverju en má, til þess að endar nái saman í þeim rekstri. Fundur í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna nú nýlega hefur lýst því yfir, að gjaldþrot fjölda frystihúsa standi fyrir dyrum að óbreyttum verðlagsgrundvelli. Niðurgreiðslur vöruverðs, sem teknar hafa verið upp til þess að létta kostnaðarþrýstingi af útflutningsatvinnuvegunum, nema nú hátt í milljarð eða a.m.k. 800 millj. kr. miðað við eitt ár, og eðlileg verðmyndun í landinu er skekkt og brengluð að sama skapi. Þetta ástand segist hæstv. ríkisstj. vilja festa fram yfir kosningar, til þess að forða frá öðru verra í bili. En það er alls ekki gæfulega að þessu verki staðíð. Það er viðurkennt, að greiðsluhallalaus ríkisbúskapur, án þess að lagðir séu á nýir skattar, sé forsenda verðstöðvunar, en þau fjárlög, sem afgreidd voru hér á hv. Alþ. í vikunni, bera þess engin merki, að ríkisstj. sé verðstöðvun í huga. Tekjur eru áætlaðar nærri því heilum milljarði hærri en á fjárl. þessa árs var áætlað og þannig gert ráð fyrir áframhaldandi þenslu í innflutningnum. Samt munu þessar tekjur ekki nægja fyrir áætluðum gjöldum, og hafa útgjöld til nýákveðinna niðurgreiðslna verið felld niður úr gjaldaáætlun fjárl. fyrir seinustu tvo mánuði ársins til þess að láta endana ná saman á pappírnum. Stuðningur við útflutningsatvinnuvegina er áætlaður sé sami og verið hefur, þó að öllum sé það ljóst, að hann verður að aukast, ef útgerð á að verða nú strax á næstu vetrarvertíð. Þannig er í rauninni verulega mikill óskráður halli á fjárl., sem nú nýlega hafa verið afgreidd.

Það er víst ekki of djúpt tekið í árinni, þó að sagt sé, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki tekizt vel að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar undanfarin ár. Með þessu frv. á nú að láta líta svo út sem um nýja viðleitni og yfirbót sé að ræða. Hæstv. ríkisstj. hefur fengið harða dóma fyrir frammistöðu sína í þessum efnum, ekki bara hjá stjórnarandstæðingum, heldur einnig hjá mönnum langt inn í sínar eigin raðir. Hún hefur ekki náð tökum á vandamálum efnahagslífsins, einkum ekki á verðlagsþróuninni. Um það er í rauninni ekki deilt, að henni hafi ekki tekizt það, heldur öllu frekar er kannske um það deilt, af hverju henni hafi ekki tekizt það. Þjóðin vill tvímælalaust breytingu á þessu og þess vegna er þetta frv. flutt, til þess að láta líta svo út sem nú eigi að fara að breyta þessu og ýta um leið vandanum á undan sér fram yfir kosningar.

Það er haft eftir hæstv. forsrh. úr umr. um þetta mál í hv. Nd., að hann hafi talað um þetta frv. sem bráðabirgðaúrræði og jafnvel sem neyðarúrræði, og ég held, að hann hafi nefnt það einnig við 1. umr. þessa máls hér í þessari hv. d., — bráðabirgðaúrræði til þess að gefa mönnum tíma til að gera upp við sig, hvað gera skuli eftir kosningar. Frv. tekur þess vegna ekki é neinn hátt að rótum meinsins, það felur aðeins og í bezta falli frestar eitthvað afleiðingum af því, hvernig stefnt hefur verið.

Ég vænti þess, að ég sé ekki talinn vera farinn út fyrir efni málsins, þó að ég ræði hér lítið eitt um verðbólguvandamálið eða kannske réttara sagt nokkra þætti þess. Það vandamál er svo stórt og flókið, að því verða að sjálfsögðu ekki gerð nein fullnægjandi skil í einni ræðu eða jafnvel ekki í einum umr., en því aðeins gerum við okkur grein fyrir heillegri mynd af því vandamáli, að við tökum einstaka þætti þess nokkuð til meðferðar.

Verðbólguþróunin á undanförnum árum hefur verið geigvænleg og skapað margvísleg vandamál, eins og hér hefur verið nefnt af ýmsum ræðumönnum í þessum umr. og áður, og hún á að mínum dómi, hvað sem sagt verður um aflabrögð og afurðaverð, mestan þátt í þeim vanda, sem við nú stöndum frammi fyrir. Sveiflum í verðlagi, sem vissulega hljóta að koma á afurðum eins og okkar öðru hverju, hefðu atvinnuvegir okkar getað mætt, ef verðlagsgrundvöllur þeirra, verðlagsgrundvöllurinn í landinu, hefði verið þokkalegur, en verðbólgan er fyrir löngu búin að skaka og skekkja allan efnahagsgrundvöllinn í landinu og færa allt atvinnulífíð fram á yztu nöf. Niðurgreiðslur og uppbætur, sem í eina tíð voru fordæmdar og ekki taldar samrýmast þeim fínu aðferðum, sem viðreisnarmenn tíðkuðu, hafa verið teknar upp á nýjan leik og rugla auðvitað, eins og þær gera alltaf, eðlilega verðmyndun í landinu, og þær eru nú meiri en nokkru sinni áður.

Rétt gengi var eitt af slagorðum viðreisnarinnar á sinni tíð. Auðvitað er það heldur ekkert nema slagorð, því að það er auðvitað ekki neitt til, sem heitir rétt gengi. Það er ekkert óhagganlegt, við hvað er miðað, þá er talað er um rétt gengi, og má miða með jafnmiklum rétti við mjög margvíslega hluti, og þess vegna var það auðvitað ljóst, að þarna var eins og fleira í boðskap viðreisnarinnar slagorð eitt á ferð. En hafi gengið 1960 verið nærrí sanni fyrir ýmsa atvinnuvegi okkar og aðstæður, er verðlagsþróunin svo breytt nú, að tæplega verður með neinum sanni sagt, að það geti þá verið jafnrétt enn þá. Og af þeim sökum hafa niðurgreiðslur og uppbætur verið teknar upp í staðinn fyrir gengisleiðréttingar til þess að létta kostnaðarþrýstingi af útflutningsatvinnuvegunum. Þessar aðgerðir eru viðbrögð gegn verðbólguþróuninni.

En það, sem okkur er nauðsynlegt og að sjálfsögðu verður ekki gert nú, er að gera okkur fulla grein fyrir orsökum verðbólguþróunarinnar, skoða þann vanda niður í kjölinn, því að með öðrum hætti verður ekki fundin á honum farsæl lausn. Ég get tekið undir það, sem hv.- meiri hl. fjhn. segir í nál. sínu um þetta mál, að orsakir verðbólgunnar eru svo flóknar og margslungnar, að það er ekki auðvelt mál að meta hvern einstakan þátt þeirra, en eigi að síður er rétt og nauðsynlegt að gera þessa þætti öðru hverju að umræðuefni til þess að gera okkur ljós ýmis atriði, sem þetta snerta.

Fram til skamms tíma voru skýringar hv. talsmanna stjórnarflokkanna á verðbólguvandanum ákaflega einfaldar. Þeir sögðu, að rætur verðbólgunnar væri að finna í kaupgjaldshækkunum og verðhækkunum landbúnaðarafurða, verðbólgan ætti rætur sínar í óbilgirni launþega og bænda. Nú upp á síðkastið heyrist minna um þessar skýringar, því að nú lofa þessir sömu hv. talsmenn þá hófsamlegu samninga, sem gerðir hafa verið við verkalýðshreyfinguna og bændasamtökin. Nú eru kjarasamningar nefndir nöfnum eins og júnísamkomulag og þjóðhátíðarsamkomulag, og nú er lítið talað um óbilgirni, og þá þarf að leita annarra skýringa. Ein af þeim, sem nú er haldið á lofti, er að vísu gamalkunn, en hefur verið vakin upp á nýjan leik í skýrslu Efnahagsstofnunarinnar til Hagráðs frá því í sumar sem leið, og hún er é þá leið, að mismunandi framleiðniaukning í hinum ýmsu atvinnugreinum leiði til þess, að kaup hækki í þeim atvinnugreinum, þar sem framleiðniaukningin er mest, það vilji síðan aðrir taka sér til fyrirmyndar og þeirra kaup sé hækkað að sama skapi, án þess að framleiðniaukning sé fyrir hendi í þeirra atvinnugreinum til þess að borga þessar kauphækkanir, og þannig fari þær út í verðlagið og skapi verðbólgu.

Um það verður tvímælalaust ekki deilt, að bessi skýring er rétt, svo langt sem hún nær. Þarna er að finna einn af fjöldamörgum þáttum í því, hvernig verðbólgan þróast áfram. En mér virðist samt nauðsynlegt að skoða bessar skýringar eilítið betur, vegna þess að ég á. erfitt með að fallast á, að það sé eitthvert náttúrulögmál, að vandi eigi að skapast af þessum ástæðum.

Síldveiðarnar og sú mikla aflaaukning, sem þar hefur orðið, hafa oft verið teknar sem dæmi í þessu sambandi. Síldveiðimenn fá vinnu sína greidda sem aflahlut, og vinnulaun þeirra eða kaupgjald þeirra, tekjur þeirra hækka því í beinu hlutfalli við vinnuframleiðnina. Þeir njóta þannig allrar þeirrar aukningar vinnuframleiðni, sem verður í þeirra atvinnugrein, án tillits til þess, þó að einhver hluti þessarar aukningar stafi af aukinni fjárbindingu eða öðrum slíkum ástæðum. En ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekkert náttúrulögmál, sem óviðráðanlegt sé, að þetta hljóti að hafa þær afleiðingar, að verðbólga skapist í þjóðfélaginu: Það er nefnilega þannig, að til þess höfum við stjórn efnahagsmála í landinu, að leitazt sé við að skapa í landinu jafnvægi milli einstakra þátta atvinnu- og efnahagslífs og jafna út þróunarsveiflur. Þetta má að sjálfsögðu gera með ýmsum og margvíslegum hætti og misgóðum. Í þessu sambandi má benda á annað dæmi, sem er rétt að hafa í huga í sambandi við hugleiðingar af þessu tagi. Í landbúnaði hefur á undanförnum áratugum — allt síðan skömmu eftir stríðið — orðið mjög mikil aukning á vinnuframleiðninni. Sú aukning hefur að vísu, eins og í síldveiðunum, kostað talsvert fjármagn, og ef kaupgjald bændanna hefði þróazt í hlutfalli við vinnuframleiðnina með svipuðum hætti og síldveiðisjómanna, hefði kaupgjald þeirra hækkað í beinu hlutfalli við þessa framleiðniaukningu, en það hefur það ekki gert, heldur hefur það verið ákveðið í lögum allt frá því 1947, að ég held, að kaupgjald bænda skuli breytast í samræmi við kaupgjald annarra tiltekinna stétta í þjóðfélaginu. Þannig njóta bændur ekki þeirrar framleiðniaukningar, sem verður hjá þeim sjálfum, öðrum fremur, heldur njóta þeir góðs af meðalframleiðniaukningu í atvinnugreinum þjóðarbúsins öllum. Væri aukning þeirra undir meðaltalsframleiðniaukningu í þjóðarbúinu, fengju þeir hagsbætur á annarra kostnað. Væri aukning þeirra yfir meðaltalinu, nyti þjóðfélagið allt góðs af. Með þessum hætti er þarna jafnað út þessum verðbólguvaldi, sem Efnahagsstofnunin taldi mismunandi framleiðniaukningu í atvinnugreinunum vera:

Nú skal ég taka það skýrt fram, að ég held, að hvorug þessara aðferða sé sú æskilegasta, hvorki að láta atvinnustéttina njóta allrar vinnuframleiðniaukningar, sem í hennar grein verður, né heldur að láta hana ekki njóta neins af því umfram aðrar stéttir þjóðfélagsins, heldur beri hvort tveggja að koma nokkuð til: þær stéttir, sem auka vinnuframleiðni sína, eiga að njóta þess öðrum fremur, til þess að þarna sé hvatning, en hins vegar á auðvitað framleiðniaukning, þó að hún komi ekki jafnt niður á öllum atvinnugreinum, að verða þjóðfélaginu öllu til nokkurs hags. En ég drep á þetta vegna þess, að það er auðvitað ljóst, að hér eru ekki á ferðinni nein óviðráðanleg náttúrulögmál. sem stjórn efnahagsmála hefur engin tök á að skipta sér af. Þegar þessar aðstæður, sem þarna var lýst, hafa orðið verðbólguvaldur í þjóðfélaginu, er um það að sakast við þá, sem efnahagsmálum þjóðarinnar stjórna:

En um leið og drepið er á þetta atriði, get ég ekki látið hjá líða að drepa aðeins á aðra hlið þessa máls, því að með sama hætti eins og viðmiðunin, þegar um er að ræða tekjukröfur, verður gjarnan við þá, sem mestar hækkanir hljóta, eiga svipuð sjónarmið líka við, þegar metin er útgjaldaþörf ýmissa stétta og hópa þjóðfélagsins. Þeir, sem mest fé þurfa til framfæris, hljóta eðlilega að móta nokkuð þær kröfur, sem gerðar eru á hendur þjóðfélaginu. Og ýmsir aðrir, sem þurfa kannske ekki að standa undir sambærilegum útgjöldum, njóta þá góðs af þeim tekjuhækkunum. Þarna er um að ræða annan mismun, sem líka þarf að hafa augun opin fyrir. Dæmi um þetta eru augljóslega fyrir hendi, þar sem um er að ræða háan húsbyggingarkostnað. Við vitum það allir, að sá mikli byggingarkostnaður og hái fjármagnskostnaður, sem er í sambandi við byggingarnar, skapar útgjöld, ekki sízt hjá unga fólkinu, sem hlýtur að sjálfsögðu einnig að skapa þrýsting á tekjuþróunina eins og verðlagsþróunina. Og þetta á í rauninni ekki aðeins við um húsbyggingarkostnað, þetta á auðvitað við um allan stofnfjármagnskostnað, líka hjá atvinnuvegunum. Þeir, sem standa á gömlum merg og eiga afskrifuð atvinnutæki, þeirra aðstaða verður að sjálfsögðu allt önnur en hinna, sem eru að byggja sig upp á þessum tímum, eins og hér hafa verið undanfarin ár. En einnig ef litið er á þessa hlið málanna, sjáum við, hvaða úrslitum það ræður, hvort er í landinu stjórn á efnahagsmálunum, sem leitast við að jafna út þessar sveiflur allar, eða hvort kylfa er látin ráða kasti um öll þessi mál.

Ég gæti nú haldið lengi áfram með dæmum að sýna fram á, hversu ófullnægjandi efnahagsmálastjórnin hefur verið í landinu á undanförnum árum, en ég skal neita mér um það, þar sem hv. d. er nú tímabundin, eins og okkur er kunnugt. Ég hlýt þó að vekja athygli á því, að í rauninni er þetta viðurkennt af þeim, sem gerst mega vita, því að fyrir nokkrum vikum birti Morgunblaðið grein eftir dr. Jóhannes Nordal undir fyrirsögninni „Nauðsyn sterkari hagstjórnartækja“, og hvað sem segja má um þær hugmyndir, sem þar komu fram, felst þó strax í fyrirsögninni og raunar í greininni allri viðurkenning á því, að stjórn efnahagsmálanna hefur verið ófullnægjandi. Hæstv. ríkisstj. hefur í rauninni ekki virzt þekkja aðrar lefðir til stjórnar efnahagsmála en það, sem kallað er stjórn peningamála. Vextir hafa verið hækkaðir, og sagt var, að það ætti að gera til þess að skapa jafnvægi í peningamálum, jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir peningum. En jafnvægisleysið hefur aldrei verið meira á þessum sviðum en nú á undanförnum árum, eins og okkur er öllum kunnugt um. Það var látið í veðri vaka á sinni tíð, að það væri sérstaklega verið að vaka yfir hagsmunum sparifjáreigenda með þessum háu vöxtum. Ég skal taka það skýrt fram, að ef ég héldi, að hár vaxtafótur væri fyrst og fremst hagsmunamál sparifjáreigenda, mundi ég leggja meira upp úr því en ég geri, vegna þess að mér er það fyllilega ljóst, að sparnaður og sparifjármyndun er grundvöllurinn fyrir því, að við getum komið málum okkar áleiðis með skynsamlegum hætti hér í þessu landi, eins og raunar alls staðar annars staðar. En sparifjáreigendur hafa engan hag af því, að það sé á pappírnum ákveðinn hár vaxtafótur, þegar verðbólgan geisar svo áfram, að hún hækkar meira en nemur vöxtunum á ári hverju og þannig missa þeir ekki aðeins það verðgildi, sem vöxtunum svarar, heldur nokkurn hluta höfuðstólsins líka. Þetta er ekki hagsmunamál sparifjáreigenda. Hagsmunamál sparifjáreigenda er það fyrst og fremst að vera viss um að fá aftur þá fjármuni, sem þeir hafa lagt fyrir, með a.m.k. sama gildi og þegar þeir voru fyrir lagðir. Verðtrygging sparifjár er þess vegna það hagsmunamál, sem sparifjáreigendur hafa fyrst og fremst. En það hefur ekki verið mikill skilningur á þessu hjá hæstv. ríkisstj. Hér í fyrra lá fyrir hv. Alþ. frv. um verðtryggingu fjárskuldbindinga, trúi ég, að það hafi heitið, og þar var gert ráð fyrir því að taka upp verðtryggingu á vissum tegundum af fjárskuldbindingum. Af hálfu okkar framsóknarmanna var þetta frv. talið ófullnægjandi, þó að það væri að vísu lítið skref inn á þá braut, sem við töldum að ætti að fara, og við töldum, að það þyrfti að kanna það mál miklu betur en samþykkja það fljótfærnislega frv., sem fyrir lá. Frv. var m.a. sent bönkunum til umsagnar, og umsagnir bárust frá tveimur aðalbönkunum, Landsbankanum og Útvegsbankanum, sem báðir lögðu til, að málinu yrði frestað og sett í það mþn. eða n. sérfræðinga, til þess að búa það undir næsta þing, þar sem þeir töldu það mjög ófullnægjandi. En hæstv. ríkisstj. mátti ekki vera að því að bíða eftir því, að frv. yrði athugað betur í sumar. Svo mikið var þá talið, að lægi á að koma þessum hlutum í framkvæmd. Og frv. varð að lögum á síðasta Alþ. Síðan hefur ekkert um verðtryggingu heyrzt, ekki neitt, og það væri fróðlegt, ef hæstv. ráðh. vildu gera Alþ. grein fyrir því, af hverju þær heimildir, sem þarna voru samþ., hafa ekki verið notaðar. Þarna var um að ræða heimildarfrv. eins og hér, og heimildir þess hafa, að því er ég bezt veit, aldrei verið notaðar, þó að einhver ósköp lægi á að samþykkja þær og ekki hægt að fallast á till. Landsbankans og Útvegsbankans um að kanna málið litið eitt betur. En heimildirnar hafa ekki verið notaðar enn þá, og verður því ekki hægt að draga af því aðra ályktun en þá, að sú nauðsyn, sem útbásúnuð var hér á síðasta hv. Alþ. um það, að nauðsynlegt væri að gera frv. að lögum þá þegar, hafi verið hrein sýndarmennska og þetta verðtryggingarfrv.-ævintýri ríkisstj. hafi verið í tómu alvöruleysi.

Hinn þátturinn í stjórn peningamála er svo sparifjárfrystingin, sem sögð er gerð til þess að draga úr eftirspurn og skapa grundvöll fyrir gjaldeyrissjóði. Við framsóknarmenn höfum oft látið í ljós þá skoðun, að við teljum, að auka beri útlán til atvinnuveganna, einkum til þess að bæta framleiðni þeirra, en eins og ég gerði grein fyrir áðan, er það einmitt mjög nauðsynlegur þáttur í stjórn efnahagsmála að bæta og jafna framleiðni milli atvinnugreinanna. Slík útlán, sem væru að mestu notuð til kaupa á tækjum og til bættrar eða aukinnar hagræðingar í atvinnuvegunum, eru ekki eftirspurnaraukandi, þó að þau kunni að ganga nokkuð út yfir gjaldeyrissjóðinn í bili. En sannleikurinn er sá, að gjaldeyrissjóðurinn rýrnar hvort eð er. Ef látið er skeika að sköpuðu með atvinnuvegina og þeir látnir líða, þannig að sparifjármyndunin í landinu minnki eða hætti að aukast, eins og raunar ýmislegt bendir til að hafi verið að ske á síðari hluta þessa árs, þá minnkar gjaldeyrissjóðurinn af sjálfu sér. Við teljum skynsamlegra, að hæfilegur hluti þess fjár, sem að baki hans stendur, sé notaður til þess að auka framleiðni atvinnuveganna til áframhaldandi gjaldeyrisöflunar og gjaldeyrissjóðsmyndunar.

Auðvitað er stjórn peningamála ævinlega þáttur í skynsamlegri stjórn efnahagsmála, en líka aðeins þáttur í því. Erlendis, jafnvel í Ameríku, telja menn fullkomlega úrelt að stjórna eingöngu með aðgerðum í peningamálum. Það þarf margt fleira að koma til og þá fyrst og fremst forusta og margvísleg áhrif frá ríkisvaldinu. En til þess að ríkisvaldið geti veitt slíka forustu, þarf stefnur. En það skortir hér hjá okkur — og það er kannske alvarlegasta vandamálið, sem íslenzkt þjóðfélag á við að búa í dag, — það skortir stefnur á næstum öllum sviðum okkar þjóðlífs. Það skortir stefnur í atvinnumálum. Það skortir stefnur í opinberum framkvæmdum. Það skortir stefnur í menningarmálum. Ríkisstj. lætur skeika að sköpuðu um það. Hún vill telja mönnum trú um, að hægt sé að stjórna efnahagsþróun þjóðfélagsins eingöngu með aðgerðum í peningamálum, og fyrst og fremst leitast hæstv. ríkisstj. við að telja fólki trú um, að með því að beita stjórn á sviði peningamála frekar en á öðrum sviðum sé betur tryggt frelsið, — frelsið sem ævinlega er verið að tala um og á að vera það töfraorð trúlega, sem á að fleyta hv. Sjálfstfl. lítið sködduðum yfir næstu kosningar, þó að maður hljóti að verða að segja, að það frv., sem hér liggur fyrir, stingur óþægilega í stúf við allt þetta frelsishjal. Sannleikurinn er líka sá, að það er sífellt verið — sérstaklega af hálfu hv. Sjálfstfl. — að misnota þetta orð, misnota orðið „frelsi“. Og misnotkun þessa hugtaks getur orðið þjóðinni dýr, áður en lýkur. Ég tók eftir því í umr., sem hér voru fyrir nokkrum dögum um iðnlánasjóð og skyldu eigenda skuldabréfa iðnlánasjóðs til þess að telja þær eignir sínar fram, að hæstv. fjmrh. notaði það orðalag, að hann talaði um „frelsi undan framtalsskyldu.“ Svo tamt er hv. sjálfstæðismönnum orðið þetta hugtakabrengl, að jafnvel svo grandvar og skýr maður sem hæstv. fjmrh. flokkar það undir frelsi að þurfa ekki að telja eignir sínar fram til skatts. Hæstv. fjmrh. flokkar það með frelsi.

Ég hef nú orðið nokkuð langorður um þennan þátt í máli mínu, sem snertir kannske ekki nema óbeint það mál, sem hér er til umr., en mér fannst hér um að ræða ýmis grundvallaratriði, sem rétt væri að leiða hugann að í þessu sambandi, og mér fannst rétt um leið að benda á, að þau lausatök á stjórn efnahagsmála, sem hér hafa verið að undanförnu, eiga verulegan og mestan þátt í því, hvernig komið er verðlagsþróuninni í landinu og þar með hvernig komið er fyrir útflutningsframleiðslunni. Það stendur í rauninni ekkert upp úr lengur annað en stóru síldarbátarnir og kannske síldarverksmiðjurnar. Ég minnti á það áðan, hvernig vélbátaútgerðarnefndin gerði grein fyrir því í skýrslu sinni, að til þess að tryggja áframhaldandi útgerð og þorskveiðar þurfi verðið að stórhækka. Ég minnti einnig á, hvernig skýrsla togaranefndar, sem nýlega hefur verið birt, bendir á, að það vanti milljón króna á hvern einasta togara á hverju ári, til þess að endar nái þar saman. Og það má einnig minna á, að nú fyrir nokkrum dögum ályktaði fundur í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna um þau mál, sem þau eiga nú við að fást, og sú ályktun var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Aukafundur Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, haldinn í Reykjavík 7.–8. des., leyfir sér að vekja athygli þjóðarinnar á því, að rekstrargrundvöllur fyrir hraðfrystiiðnaðinn er ekki lengur fyrir hendi. Stórhækkaður innlendur kostnaður, samdráttur í hráefnisöflun og lækkandi verð frystra sjávarafurða á erlendum mörkuðum hafa leitt til þess alvarlega ástands, sem við óbreyttar aðstæður mun innan tíðar leiða til gjaldþrots fjölda fyrirtækja. Fundurinn telur, að verði ekki gerðar róttækar ráðstafanir af hálfu hins opinbera til leiðréttingar á rekstrargrundvelli hraðfrystihúsanna, geti þau ekki hafið framleiðslu í byrjun næsta árs. Fundurinn felur stjórn SH að ræða við ríkisstj. um lausn þessara mála og boða til framhaldsaukafundar, telji stjórn SH þess þörf.“

Þetta var ályktun hraðfrystihúsaeigenda. Þar er að vísu talað um verðfall og minnkandi afla. Ég skal í sjálfu sér ekki gera lítið úr því, að nokkur vandi kunni að steðja að af þessum sökum. Verðfallið er þó tæplega eins stór þáttur í vandanum og ýmsir vilja vera láta. Það hafa fyrr verið og verða sjálfsagt oftar sveiflur á verðlagi íslenzkra afurða erlendis. Um það, hver áhrif verðfallið hafi á framleiðsluverðmæti þessa árs, segir í skýrslu, sem Efnahagsstofnunin hefur nýlega afhent Hagráði: „Áætla má, að meðalverð útfluttra þorskafurða á árinu 1966 muni verða nálægt 10% hærra en meðalverð ársins 1965 og meðalverð skelfiskafurða um 5% hærra. Hins vegar má gera ráð fyrir, að meðalverð útfluttra síldar — og loðnuafurða verði um 12% lægra á árinu 1966 en á árinu 1965. Samkv. þessu verður framleiðsluverðmæti allra sjávarafurða á árinu 1966 um 2% lægra en það hefði orðið, ef sama verðlag hefði verið ríkjandi á árinu 1966 og á árinu 1965.“ Og nú er þess að geta, að þetta álit er samið um miðjan nóv., áður en síldarafurðirnar byrjuðu að hækka á nýjan leik, og í þessum útreikningum var gert ráð fyrir því, að síldarafurðaverðið yrði óbreytt út árið, og er því ljóst, að ástæða er til þess að ætla það, að útkoman verði nokkru hagstæðari en hér er gert ráð fyrir, og mun óhætt að gera ráð fyrir því, ef það, sem hér er sagt, er að öðru leyti rétt, að framleiðsluverðmæti allra sjávarafurða á árinu 1966 verði svipuð og þau hefðu orðið á verðlagi ársins 1965.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því, og höfum raunar vitað, hvað við vorum að gera, þegar við vorum að flytja verzlunarviðskipti okkar yfir á hina svokölluðu frjálsu markaði. Við megum þar búast við verðsveiflum og þurfum ekki að kippa okkur upp við það, þó að við verðum að horfa framan í þær öðru hverju.

Ég skal auðvitað engu spá um það, hver frekari framvinda þessa máls verður, en ég hef viljað láta það koma fram, sem ég hér hef sagt, til þess að gera grein fyrir því, sem ég sagði, að meira hefur verið gert úr þessu af ýmsum en mér virðast efni standa til. Minnkandi afli er auðvitað vandamál, sem við verðum að taka föstum tökum, en við verðum þá um leið að gera okkur það ljóst, að við höfum gersamlega vanrækt þorskfiskveiðarnar mörg undanfarin ár. Í þeim atvinnugreinum hefur engin veruleg framþróun orðið nú um langt árabil og mér er óhætt að segja allan valdatíma núv. ríkisstj. Þar hefur eins og á fleiri sviðum skort alla stefnu og ríkisstj. hefur látið kylfu ráða kasti og allir hafa flykkzt á síld, því að þar virtist mönnum mest að hafa. En þó að þessi tvö atriði séu nefnd í ályktun Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, er þó fyrsta atriðið kostnaðarhækkanirnar innanlands og fyrst nefndar í ályktuninni. Verðbólgan er fyrsta orsök vandans.

Hv. 1. þm. Norðurl. e., sem er orðhagur maður, eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, hefur líkt verðstöðvunarfyrirætlunum hæstv. ríkisstj. við það, að kvikmynd sé stöðvuð og við sjáum eina stillimynd, eina kyrra mynd. Og þetta, sem ég nú hef verið að lýsa, er sú kyrra mynd, sem við eigum að hafa fyrir augum næsta árið. Og það er víst óhætt að fullyrða, að íslenzkum útflutningsatvinnuvegum nægir það ekki, það umhverfi, sem þessi kyrra mynd sýnir, til þess að þeir geti haldið áfram starfsemi sinni með eðlilegum hætti. Það er alveg ljóst, að verðstöðvun er ónóg aðgerð fyrir þá til þess að tryggja áframhald, og þarf ég ekki að leiða frekari rök að því en þegar hefur verið gert með beim tilvitnunum, sem ég hef verið með, og skal því ekki ræða það atriði frekar. Hins vegar er ástæða til þess að fara nokkrum orðum um það, hvaða líkur eru á því, að þessar verðstöðvunarfyrirætlanir takist, og hverjar muni verða afleiðingar þeirra, ef þær takast.

Það er viðurkennt af öllum, sem rætt hafa þessi mál af skilningi og þekkingu, að forsendur verðstöðvunar eru, að ekki séu lagðir á nýir skattar, því að þeir mundu að sjálfsögðu velta út í verðlagið, og að greiðslujöfnuður náist hjá ríkissjóði, til þess að greiðsluhalli úr þeirri átt skapi ekki eftirspurnaraukningu, sem yrði til þess að spilla öllu saman. Þessar tvær forsendur verðstöðvunarinnar gefa tilefni til þess, að kannað sé, hvaða líkur séu á því, að þessar forsendur geti haldið áfram að vera fyrir hendi. Nú er nýlega búið að afgreiða fjárlög frá hv. Alþ. Tekjuáætlun þeirra fjárlaga er augljóslega miðuð við áframhaldandi þenslu í innflutningnum. Af innflutningnum hefur ríkissjóður langmestan hluta sinna tekna, en þær tekjur er áætlað að verði á þessu ári, ekki í fjárl. ársins, heldur nú, eins og mönnum sýnist að þróunin hafi orðið, 4300 –4400 millj. kr., eftir því sem ég bezt veit, en í fjárl. næsta árs er gert ráð fyrir, að þessi upphæð verði 4700 millj. eða 300–400 millj. kr. hærri. Ekki skal ég um það dæma, hvaða líkur eru á því, að þetta standist, en mér þykir rétt að vitna aftur í skýrslu Efnahagsstofnunarinnar til Hagráðs til þess að gefa nokkra hugmynd um það, hvernig Efnahagsstofnunin metur viðhorfið, þar sem þessi skýrsla Efnahagsstofnunarinnar hefur ekki verið birt og þess vegna væntanlega ekki í höndum nema sumra þm., en hins vegar er hún ekki neitt leyndarmál. Í skýrslunni segir m.a., þar sem verið er að tala um þróun innflutningsins á þessu ári, þar segir, að hann hafi aukizt mikið, og segir:

„Á fyrsta ársfjórðungi var aukningin miðað við fyrra ár 31% , á fyrra helmingi ársins var hún 26.5% og yfir þrjá fjórðunga ársins var hún 22.2% . Sennileg áætlun um aukningu alls ársins frá fyrra ári er um 20%, þannig að upphæðin verði 5800 millj. kr. fob. Innflutningur skipa og flugvéla mun sennilega haldast lítið breyttur, um það bil 600 millj. kr. Hin mikla aukning innflutningsins á þessu ári, einkum fyrri hluta þess, skýrist að miklu leyti af því, hve seint hinar miklu síldartekjur féllu á fyrra ári, en raunverulegar greiðslur tekna og þá enn frekar notkun þeirra er jafnan nokkuð á eftir öfluninni. Samsetning innflutningsaukningarinnar virðist staðfesta, að aukningin muni hafa stafað að verulegu leyti af aukningu teknanna eða háu stigi þeirra. Af aukningu innflutnings án skipa og flugvéla í janúar–september í ár frá sama tíma í fyrra, er nam alls 830 millj. kr., nam aukning innflutnings bifreiða 186 millj., rafmagnsvéla, tækja og áhalda 109 millj. og annarra véla 184 millj., eða samtals 479 millj. kr. í þessum vöruflokkum. Aðrir vöruflokkar, sem verulegri aukningu taka, eru helzt mikið unnar vörur. Á hinn bóginn ætti innflutningur þessara vara að staðna samfara stöðnun tekna og dragast tiltölulega mikið saman við samdrátt tekna. Litlar breytingar frá fyrra ári,“ segir svo áfram, „eru áætlaðar á jöfnuði þjónustugreiðslna, þannig að viðskiptajöfnuðurinn í heild mun nokkurn veginn endurspegla breytingu viðskiptajafnaðarins og sennilega verða óhagstæður um 400 –500 millj. kr., sem fyrr segir.“

Þetta var úr áliti Efnahagsstofnunarinnar, og það, sem sérstaka athygli vekur í þessum setningum, sem ég las hér, er, að aukning innflutnings, sem á árinu hefur verið mjög mikil, var einkum á fyrri hluta ársins, en hefur farið síminnkandi, eftir því sem á árið leið, var 31% á fyrsta ársfjórðungi, 26% á fyrra helmingi ársins og 22% á fyrstu þremur ársfjórðungunum og er áætluð 20% á árinu öllu. Og annað atriði, sem athygli vekur í þessu sambandi, er það, að innflutningsaukningin hefur verið að yfirgnæfandi leyti í hátolluðum vörum, sem taldar eru upp þarna og boðað, að slíkur innflutningur muni staðna samfara stöðnun tekna og dragast tiltölulega mikið saman við samdrátt tekna. Um horfurnar í viðskiptajöfnuðinum á næsta ári í þróun útflutnings og innflutnings, — það er nauðsynlegt að geta gert sér grein fyrir tekjuáætlunum ríkissjóðs, — segir í álitinu:

„Enda þótt mikil óvissa ríki um væntanlega þróun viðskiptajafnaðarins á árinu 1967, er hægt að gera sér nokkra grein fyrir horfunum. Ekki eru líkur til þess, að útflutningsframleiðslan aukist á næsta ári nema mjög lítið. Líklegt er, að útflutningsverðlag nái sér nokkuð upp aftur frá því, sem nú er,“ — þetta var um miðjan nóvember, — „en litlar líkur mega teljast á, að það nái meðalverðlagi ársins 1966. Útflutningstekjurnar virðast þá í bezta lagi geta verið óbreyttar, en munu sennilega minnka nokkuð. Ekki eru heldur horfur á neinni verulegri aukningu innflutningsins. Fremur mega þó teljast horfur á lítils háttar aukningu en innflutningurinn standi með öllu í stað eða minnki. Að þessu samantöldu virðist viðskiptajöfnuðurinn ekki geta orðið hagstæðari á næsta ári en í ár. Miklu frekar virðast horfur á, að hallinn muni vaxa nokkuð. Að öðru óbreyttu hlyti af þeim sökum að halda áfram að ganga á gjaldeyrisstöðuna.“

Í þessu, sem ég nú las, vekur það að sjálfsögóu mesta athygli, að gert er ráð fyrir því, að útflutningurinn geti ekki vaxið á næsta ári, og gert ráð fyrir því, að innflutningurinn muni ekki gera það heldur nema mjög lítið, og minnkar þá grundvöllurinn undir því, að hægt sé að áætla stórauknar tekjur ríkissjóðs. Og hitt, sem þarna vekur athygli, er það, að boðaður er meiri halli á viðskiptajöfnuðinum við útlönd á næsta ári en á þessu, og er hann þó núna 400–500 millj. kr. samkv. því, sem ég áðan las, svo að ekki er það nú björgulegt útlit.

Í þessari skýrslu, sem þó er að sjálfsögðu hóflega og kurteislega rituð, eins og Efnahagsstofnunarinnar er von og vísa, er samt beitt gagnrýni á fjármálastjórn hæstv. ríkisstj. Þar segir m.a. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Á undanförnum árum hefur verið ljóst, að sú stefna,“ — þ.e. stefnan í fjármálum, „hefði þurft að vera aðhaldssöm og vega að nokkru á móti þessum áhrifum frá ört vaxandi útflutningstekjum og mikilli fjárfestingarhneigð. Yfirleitt hefur þó ekki verið stefnt lengra en að því að ná greiðslujöfnuði í búskap ríkisins.“

Þetta segir Efnahagsstofnunin. Það hefur ekki verið stefnt lengra en að því að ná greiðslujöfnuði, og öllum er okkur kunnugt um, hvernig það hefur tekizt, a.m.k. sum árin, í stjórnartíð hæstv. ríkisstj., þá ekki sízt kosningaár eða ár, þar sem afleiðingarnar af fjármálastefnu kosningaáranna skrást til bókar.

Þá kem ég að því að gera grein fyrir því, sem Efnahagsstofnunin segir, — og skal nú stytta mál mitt, — um líkurnar á því, hvernig afkoma ríkissjóðs verði á næsta ári. Um það segir m.a. þetta, fyrst um þetta ár: „Allar horfur eru á mjög bættri afkomu ríkissjóðs á yfirstandandi ári.“ Síðan er gerð nokkur grein fyrir því. En síðan segir áfram: „Ekki horfir að sama skapi vel um greiðslujöfnuð ríkisins á næsta ári.“ Ég skal ekki rekja þessa umsögn lengra, vegna þess að ég vil ekki tefja tímann fyrir hv. d. Ég vil aðeins láta nægja að vekja athygli á því, að Efnahagsstofnunin lýsir því þarna yfir, að það horfi ekki vel um greiðslujöfnuð ríkisins á næsta ári. En ef hann ekki næst, er boðað, að verðstöðvuninni sé stefnt í tvísýnu, eins og raunar er augljóst. Fjárl. hafa nú nýlega verið afgreidd með 2 millj. kr. greiðsluafgangi, — fjárlög, sem hafa niðurstöðutölur upp á um það bil 5000 millj. kr., þar er afgangur upp á 2 millj. Og þó vantar inn á þessi fjárlög útgjöld í stórum stíl, þó að tekjurnar séu fram taldar sjálfsagt allar. Það vantar nýákveðnar niðurgreiðslur fyrir tvo seinustu mánuði ársins, þannig að tekjuárið er þar 12 mánuðir, en gjaldaárið bara 10. Og þar er ekki gert ráð fyrir meiri stuðningi við útgerðina en verið hefur, og allir vita, að aukinn stuðningur verður að koma til, þó að hæstv. ríkisstj. stingi höfðinu í sandinn og vilji ekki horfast í augu við það, a.m.k. ekki í bili. Og hvað tekur svo við? Í nóv. er þrotið það fé, sem er til ráðstöfunar til þess að halda verðlaginu niðri, og verður þá búið að ráðstafa tekjunum fyrir það tímabil, sem eftir er af árinu. Reykjavíkurbær boðar það í sinni fjárhagsáætlun, að hún muni tekin til endurskoðunar eftir kosningarnar á miðju ári, og allir geta sjálfsagt rennt grun í, hvað það þýðir. Það er því ljóst, að verðstöðvuninni verður hætt í nóv., vegna þess að þá er þrotið niðurgreiðsluféð, og verður þá annaðhvort, ef þeim verður haldið áfram, að koma til greiðsluhalli eða nýir skattar, sem hvort tveggja eyðileggur verðstöðvunarstefnuna. Menn geta því fullkomlega gert sér ljóst, hvaða holskefla á að ríða yfir, þegar þar að kemur.

Hæstv. forsrh. sagði það hér í gær eða fyrradag, þegar hann var að ræða um byggingu verzlunarhúsa, að skýringuna á þeim væri að finna í því, að þegar höft væru afnumin, yrði nauðsynlegt að fullnægja þörfum, sem áður hefði ekki verið hægt að fullnægja, og þá riði holskefla yfir. Væntanlega hefur hæstv. forsrh. einnig íhugað það, hvaða holskefla muni ríða yfir, þegar niðurgreiðslur, sem hafa verið síauknar til þess að halda verðlaginu niðri, eru afnumdar. Ég hygg, að sjaldan hafi slík verðbólguholskefla verið boðuð svo örugglega og með svo löngum fyrirvara sem nú er gert.

Það væri freistandi að ræða hérna einnig um framkvæmd verðstöðvunarinnar, hvernig menn hyggjast framkvæma hana. Ég skal nú vera stuttorður um það, því að tíminn líður, og það er ekki ætlun mín að lengja umr. að þarflausu. Það er ekki gert ráð fyrir því í sambandi við þessi lög og framkvæmd þeirra, eftir því sem maður hefur frekast heyrt, að eftirlit með verðlagi verði sérstaklega aukið, og hæstv. forsrh. sagði hér við 1. umr. þessa máls, að verðstöðvun yrði ekki, nema almenningur vildi, hann yrði að fylgjast með þessu, fólkið yrði að kæra. Hér er vissulega mikill vandi lagður ú hendur hins almenna neytanda. Og mér er nú spurn, hvaða möguleika hinn almenni neytandi hafi yfirleitt til þess að vita með vissu, hvaða verðlag var á hverri einstakri vöru í hverri einstakri búð hinn 15. nóv. 1966. En auðvitað, og það skal ég fallast á með hæstv. forsrh., er það afar þýðingarmikið atriði í sambandi við alla verðlagsþróun, að hinn almenni neytandi sé fullkomlega vakandi fyrir því, sem er að gerast. Og ég held, að það sé satt bezt sagt, að íslenzkir neytendur hafa ekki verið nægilega vakandi í þessum efnum á undanförnum árum. Ég þykist vita, að það mundi vera margt öðruvísi í íslenzkum verðlagsmálum, ef neytendur hefðu almennt lagt sig meira fram um að fylgjast vel með þessum málum. En af hverju hafa þeir ekki gert það betur en raun ber vitni? Skýringarnar á því er sjálfsagt að finna í þeirri fjármálalegu lausung, sem fylgir óðaverðbólgunni. Og það bætist fleira við. Þegar verðlagseftirlit hefur verið til langframa, geri ég ráð fyrir, að fólki sé gjarnt að treysta nokkuð á það. Ég álít þess vegna, að núna, þegar á að gera sérstakar ráðstafanir til verðlagsstöðvunar, beri ríkisvaldinu að taka afleiðingunum af því, hvernig ástatt er í þessum málum, og það beri að herða verðlagseftirlitið til þess að tryggja framkvæmd þessarar stefnu. Það verður að taka afleiðingum af því, að það er búið að spilla heilbrigðum viðbrögðum hins almenna neytanda í þessum efnum með langvarandi verðbólguþróun og verðlagseftirliti, og þess vegna ber að auka verðlagseftirlitið, þegar á að framkvæma sérstök átök eins og þau, sem nú er látið í veðri vaka að eigi að framkvæma, en ekki treysta á neytendurna, þó að þetta sé vissulega mikið og eitt af þeirra mestu hagsmunamálum, og láta sér það síðar að kenningu verða að haga verðlagsmálum og fjármélum í þjóðfélaginu þannig, að heilbrigðu mati almennings á verðlagi og verðmætum sé ekki spillt.

Herra forseti. Alþýðusamtökin hafa varað sterklega við sýndarmennsku í verðlagsmálunum. Miðstjórn Alþýðusambandsins hefur skrifað hæstv. ríkisstj. bréf, þar sem gerð er grein fyrir ályktun miðstjórnar Alþýðusambandsins um kjaramál og viðhorfum verkalýðshreyfingarinnar til þessara mála. Ég skal ekki fara ýtarlega út í að rekja þetta bréf, sem er nokkuð langt, en leyfi mér að lesa niðurlag þess, þar sem segir:

„Síðast, en ekki sízt er í ályktuninni skýlaus yfirlýsing, um stuðning verkalýðssamtakanna við sérhverjar raunhæfar aðgerðir, er varanlega geti dregið úr dýrtíð og verðbólgu, sem styrki grundvöll höfuðatvinnuveganna og tryggi launþegum réttláta hlutdeild í þjóðartekjum. Er þetta staðfesting á margyfirlýstri stefnu verkalýðssamtakanna í dýrtíðarmálum. En ekkert er fjær sanni en að verkalýðshreyfingin leggi með þessu blessun sína yfir sýndartilburði og yfirbreiðsluaðferðir, sem ekki grípa á sjálfu verðbólguvandamálinu, heldur miðast við það eitt að halda skráðri vísitölu í skefjum á yfirborði. Við slíkum vinnubrögðum í þessu erfiða þjóðfélagsvandamáli varar verkalýðshreyfingin alvarlega og tekur afstöðu gegn hvers konar haldlausum kákráðstöfunum. Verði reyndin sú um framkvæmd á frv. ríkisstj. til l. um heimild til verðstöðvunar og því fáist ekki breytt í raunhæfara horf með þeirri afleiðingu, að dýrtíðin verði ekki stöðvuð, lýsir verkalýðshreyfingin ábyrgðinni af því á hendur ríkisstj. einni saman.“

Þetta var aðvörun miðstjórnar Alþýðusambandsins um það, að verkalýðsfélögin vöruðu við því, að beitt yrði haldlausum kákráðstöfunum og notaðir sýndartilburðir og yfirbreiðsluaðferðir í þessum efnum. Því miður bendir hins vegar margt til, að svo sé einmitt með þetta frv. Það veltur að vísu allt á framkvæmd þess, en afgreiðsla fjárl., feluleikurinn með nauðsynlegan stuðning við útflutningsatvinnuvegina og annað, sem fram hefur komið í sambandi við þetta mál, bendir til þess, að hæstv. ríkisstj. sé lítil alvara með varanlegar aðgerðir í þessum efnum. Það er því réttast, að stuðningsflokkar hennar beri einir ábyrgð á þessu máli. Við munum halda áfram, framsóknarmenn, að vinna að því, að vandamálin séu tekin raunhæfari tökum.

Stjórnleysið í þjóðfélaginu og ekki sízt í efnahagsmálum er alvarlegt vandamál, sem þjóðin á nú við að stríða. Það er táknrænt um þau vinnubrögð, sem segir í skýrslu Efnahagsstofnunarinnar frá því í sumar, þar sem rætt er um nauðsynlegar, veigamiklar aðgerðir í íslenzkum atvinnumálum. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ekki hefur gefizt ráðrúm til að hrinda aðgerðum af þessu tagi í framkvæmd nema að litlu leyti. Bæði fyrirtækin og stjórnarvöld hafa verið of önnum kafin við að glíma við afleiðingar tekju- og verðlagsþróunarinnar, jafnharðan og þær hefur að höndum borið, til þess að geta látið verkefni af þessu tagi sitja í fyrirrúmi.“

Þetta er óhrjáleg lýsing á því, hvernig kraftarnir fara til einskis í árangurslausri glímunni við þessi verðbólguvandamál. Við teljum á því mikla nauðsyn, að það sé tekið á rótum þessa meins í stað þess að hylma yfir afleiðingar þess. Og við álítum, að það sé svo alvarlegt ástand framundan, ef svo heldur áfram sem horfir, að nauðsynlegt sé að sameina viðleitni sem flestra pólitískra og stéttarlegra afla til þess að grípa að rótum þessara meina, sem tröllríða þjóðfélaginu. Það er ekki, eins og ég nefndi áðan, um það deilt, hvort ríkisstj. hafi tekizt eða ekki tekizt vel að ráða við þennan vanda: Það er um það deilt, af hverju henni hafi ekki tekizt það. Stjórnin leitar sífellt að afsökunum. Viðhorf hennar og hugsun mótast af þeirri leit. Og ég skal í rauninni ekki fortaka það, að andstæðingar stjórnarinnar leiti nokkuð að ádeilum á hana og þeirra málflutningur mótist að einhverju leyti af því. En svo mikill vandi getur skapazt í þjóðfélaginu, að nauðsynlegt sé að sameina sem flesta krafta þjóðfélagsins til þess að ráðast gegn honum.

Ég ber ekki mikið traust til hæstv. ríkisstj. Ég orða það svo, af því að það er kurteislegra en að segja: Ég ber ekkert traust til hennar um framkvæmd þess máls, sem hér liggur fyrir, en á því veltur, hvers virði það er. En ég mun þó ekki og við framsóknarmenn setja fótinn fyrir það, að ríkisstj. fái staðfestar þær heimildir, — sem hún hefur nú flestar haft fram að þessu, — sem farið er fram á í frv. þessu, en við viljum enga ábyrgð bera á framkvæmd þess í hennar höndum.