28.10.1966
Efri deild: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

34. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er ekki viðamikið, aðeins tvær gr., sem fela í sér litla breytingu frá gildandi lögum. Frv. fylgir mjög nákvæm óg greinargóð grg., þannig að óþarft er að hafa langa framsögu til skýringar á þessu máli.

Eins og í grg. þessari segir, var með breyt. á almannatryggingalögunum frá 1956 horfið frá því, að læknishjálp hjá heimilislækni skyldi vera alveg ókeypis fyrir sámlagsmenn, og sett ákvæði í 52. gr. 1. um, að samlagsmenn á 1. verðlagssvæði skyldu greiða svo sem þar greinir, ákveðið gjald fyrir viðtal á lækningastofu og vitjun læknis í heimahús.

Frv. þetta gerir ráð fyrir því, að í stað þess að þessi upphæð sé tilgreind í l. sjálfum, verði framvegis að gera breyt. sem kynnu að verða á samningum við læknasamtökin, með reglugerð, og frv. þetta er flutt, eins og í upphafi grg. segir, að ósk þeirra aðila, sem að samningunum við Læknafélagið stóðu s.l. sumar. Ég hirði ekki um að fara að rekja þá deilu, sem þá stóð yfir, en minni aðeins á, að þetta er afleiðing þeirra samninga, sem þá voru gerðir. Og breyt. þessi miðar ekki að tekjuhækkun fyrir lækna, enda mundi sú uppbót, sem samlögin greiða læknum og að framan er vikið að, lækka eða falla niður til samræmis við þá breyt., sem gerð yrði á gjaldinu.

Frv. er, eins og ég sagði áðan, flutt að beiðni samninganefndarinnar, þar sem hún lýsti því yfir, að hún mundi beita sér fyrir leiðréttingu á þessu lagaákvæði, strax og tækifæri gæfist.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr: og félmn.