17.12.1966
Efri deild: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

74. mál, verðstöðvun

Karl Kristjánason:

Herra forseti. Fáein orð vil ég segja um þetta frv., en ég mun vegna þess tímahraks, sem fundurinn er kominn í, sleppa allri talnafræði, enda hafa frsm. minni hl. gert frv. skil á þeim grundvelli.

Það er sérkennilegt, þetta frv., að því leyti, að það er bæði stórt mál og lítið mál eftir því, hvernig á það er litið. Málið er stórt, ef það er skoðað sem dæmi um það eða sönnun þess, hve illa og ógæfusamlega núverandi stjórnarflokkum hefur því miður, — ég segi því miður, — tekizt að fara með yfirstjórn efnahags- og peningamála þjóðarinnar á þeim tveim kjörtímabilum, sem þeir hafa haft þá stjórn á hendi sameiginlega. Fram að þessu hafa forustumenn stjórnarflokkanna ekki viljað viðurkenna, að þeim hafi mistekizt í stórum stíl það, sem þeir lýstu yfir 1960 í bók sinni Viðreisn, að væri megintilgangur stjórnarstefnunnar, að skapa framleiðslustörfum og viðskiptalífi landsmanna varanlegri og heilbrigðari grundvöll. Fyrrv. forsrh. játaði að vísu í áramótaútvarpi, þegar liðið var á fyrra kjörtímabilið, þá staðreynd, að verðbólgan héldi áfram að vaxa, og bætti við, að ef ekki tækist að vinna bug á henni, væri allt annað unnið fyrir gýg. En hingað til hefur ekki borið neinn árangur að minna framámenn í liði hæstv. ríkisstj., hvað þá hana sjálfa, á þessi hreinskilnislegu varnaðarorð hins látna foringja. Þeir hafa fullyrt, að vel gengi, af því að vel aflaðist, nóg vinna væri fyrir alla og enginn liði skort og svo væri síaukið frelsi í verzlun og viðskiptum. Hver mætti í efnahagslífinu lifa og láta sem hann vildi, nema ef hann væri félítill og gæti ekki borgað háa vexti eða komizt inn undir hjá bönkum, en þá skiptir minna máli um hann. Hæstv. ríkisstj. hefur sem sé verið hin ánægðasta á yfirborðinu a.m.k., enda hreint og beint ornað sér við verðbólgueldinn í stað þess að reyna að slökkva hann, og á meðan hafa tapazt tækifæri þau, sem tekjuöflunargóðærin hafa boðið fram til að skapa framleiðslustörfum og viðskiptalífi landsmanna þann varanlega og heilbrigða grundvöll, sem bókin Viðreisn lýsti yfir, að væri stefnumið stjórnarinnar. Ég efast ekki um, að meiningin hefur verið að skapa þann grundvöll, þótt svona hafi til tekizt.

Ef hæstv. ríkisstj. hefði verið óheppin með árferði og aflabrögð og erlenda markaði fyrir aðalútflutningsvörur landsmanna, væri ekki við hana að sakast. En það er nú öðru nær en svo hafi verið, eins og allir vita. Þar hefur farið fram úr áætlun ár frá ári, metafli gefizt ofan á metafla og söluverð hækkað, þangað til í ár, að verðmæti útflutningsins hefur lítils háttar minnkað vegna verðlækkunar. Og hvað gerist þá? Allt riðar strax til falls: útgerðin, fiskvinnnslustöðvarnar og atvinnulífið í landinu. Það hefur gleymzt á góðu árunum að skapa þann heilbrigða grundvöll, sem skapa átti. Góðærin hafa a.m.k. ekki verið notuð til þess. Það er þetta, sem er loksins viðurkennt með stjfrv. um verðstöðvun, og frá því sjónarmiði er málið stórt í íslenzkum stjórnmálum.

Það á ekki að þurfa að vefjast fyrir mönnum í kosningunum til Alþ. næsta vor, að þeim flokkum, sem farið hafa með stjórn landsins síðustu tvö kjörtímabil, sem kalla má frá náttíuunnar hendi góðæristímabil, hefur mistekizt hrapallega. Þetta frv. er játning um það. Og ég met það mikils við hæstv. forsrh., sem kann jafnan mjög vel að haga orðum, að hann viðurkenndi við 1. umr. málsins hér í þessari hv. d., að frv. mætti kalla „eins konar neyðarráðstöfun“. Hugsið ykkur, hv. þm., að strax og örlítið hallast eftir langstætt, samfellt eindæma tekjuöflunargóðæri er talið þurfa að grípa til neyðarráðstafana. Þarf frekari vitna við um, hvernig haldið hefur verið á málum? Þurfa íslenzkir kjósendur skýrari upplýsingar?

Ég minnist í þessu sambandi, að hæstv. fyrrv. fjmrh. talaði um drauma Faraós um mögru kýrnar, sem átu feitu kýrnar, og nauðsyn þess að safna í kornhlöður á góðum árum til þess að geta staðizt hörðu árin, eins og Egyptalandskonungurinn Faraó gerði eftir ráðleggingum þess, er drauma hans réð. Og um leið tilkynnti sá hæstv. fjmrh., að hann hefði farið að sígildu dæmi Faraós og lagt 100 millj. kr. í varasjóð. Og þetta var þá allmikið básúnað sem einn liður í framúrskarandi fyrirhyggju núv. hæstv. ríkisstj. og í samræmi við búhyggindastefnu hennar. Ég hef leitað að slíkum varasjóði í síðustu skýrslum um sjóðseignir ríkisins, en ég hef ekki fundið hann. Ég hef ekki einu sinni fundið þar umræddar 100 millj. En þetta frv., sem nú er flutt sem eins konar neyðarráðstöfun, áður en hægt er með sanni að segja, að teljandi harðni í ári, sannar óumdeilanlega, að hæstv. ríkisstj. hefur látið feitu kýrnar éta sig sjálfar og á ekkert handa mögrum kúm. Búmannlegt er það ekki, og konunglegt er það ekki heldur. En ágætt er það fyrir þjóðina að fá það upplýst, áður en hún gengur til kosninga í vor, að því leyti er þetta mál þýðingarmikið.

Ég sagði í upphafi, að þetta væri bæði stórt og lítið mál eftir því, hvernig á það væri litið. Ég hef gert nokkra grein fyrir því, að hverju leyti það er stórt. Hins vegar er það lítið, af því að það felur í sér svo ófullnægjandi lausn á þeim stórkostlega vanda, sem það er viðurkenning á, að þjóðin sé stödd í. Það gefur ríkisstj. heimildir til áhrifa á verðlagsþróunina í landinu, — heimildir, sem hún að miklu leyti hefur áður haft, en ekki notað. Hvers vegna hefur hún ekki notað þær? Sá hún ekki, — að hverju fór? Dettur henni kannske sú fávizka í hug, sem sumir hafa uppi getsakir um, að kjósendur kunni að halda, að hún sé að endurfæðast sem önnur stjórn með þessu frv. og henni kunni að takast að halda þeim í þeirri trú fram yfir næstu kosningar? Það væri sannarlega vanmat á skilningi meiri hluta kjósenda. Hvað er verðstöðvun? Er hún það sama og verðlagseftirlit? Nei, enda eiga lögin ekki að gilda nema til bráðabirgða. Þau eiga að gilda stundarkorn á þessu ári og 10 mánuði af næsta ári. Það er eftirtektarvert, að hæstv. ríkisstj. virðist orðin svo andstutt, að hún þorir ekki að miða erfiði sitt við næsta ár sem 12 mánaða ár, heldur aðeins 10 mánaða ár. Það gerir hún ekki aðeins hvað þetta frv. snertir, heldur líka þann lið á fjárl., sem á að standa straum af niðurgreiðslunum. Hins vegar miðar hún tekjuöflun við 12 mánuði. Þar er líka um annað erfiði að ræða. Ekki hefur áður heyrzt um ríkisstj. svo ráðsnjalla að stytta gjaldárið um 1/5 part. Uppgjöfin nú lýsir sér með ýmsu móti. Verðstöðvun má líkja við það að ætla að stífla vatnsfall án þess að finna því annan farveg, hvað þá að stemma það að ósi. Verðbólguflóðið er ekki stemmt að ósi með slíkri löggjöf sem þessari, og því er ekki heldur fundinn annar farvegur. Mér er sem ég sjái hæstv. ríkisstj. við stíflugarðinn. Hví ætti ég að greiða atkv. á móti því, að hún fái heimild til þess að spreyta sig við þá stíflugerð sem eins konar neyðarráðstöfun á sjálfri sér?

Ein ný heimild, það er heimild, sem ríkisstj. hefur ekki áður haft, er í frv. Það er heimildin í 3. gr. til að banna sveitarfélögum að nota hærri álagningarstiga útsvara og aðstöðugjalda 1967 en þau notuðu 1966. Með þessu er mjög nærri gengið sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna, og af því, hve dýrtíðin hefur vaxið síðan sveitarfélögin reiknuðu út álagningarþörf sína 1966, má telja víst, að þeim verði, a.m.k. mjög mörgum, álagningarstigarnir 1966 alls ónógir 1967. Eru því líkur til þess, að ös verði hjá ríkisstj. af sendimönnum frá sveitarfélögum til að biðja um undanþágur til hækkunar, áður en sveitarfélögin ganga frá áætlunum sínum fyrir 1967. Með þessum ákvæðum í garð sveitarfélaganna eru tekin upp áður óheyrð höft. Ég spurðist fyrir um það hjá hv. fjhn. Nd., hvort ríkisstj. hefði rætt um þessi atriði við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, og fékk þar þær upplýsingar, að það hefði hún ekki gert. Það tel ég illa farið og tel mér skylt sem sveitarstjórnarmanni að víta þetta. Ég tel, að ekki megi minna vera en við undirbúning löggjafar, sem gengur svo freklega sem þessi inn á hefðbundið og löglegt sjálfsstjórnarsvið sveitarfélaganna, sé rætt við stjórn sambands þeirra. Úr þessu var ekki talið hægt að bæta vegna tímaleysisins, eftir að málið kom til hv. fjhn. Ed. Var það út af fyrir sig rétt, en er engin afsökun fyrir þá, sem ábyrgð bera á málinu.

Hæstv. ríkisstj, hefur fram undir þetta mikið státað af því frelsi, sem hún hafi eflt í hvívetna í viðskiptum öllum. Sérstaklega er það Sjálfstfl., sem hefur um það barið bumbur. Hann hefur talað um höft með fyrirlitningu og viljað tileinka öðrum flokkum vilja til haftastefnu og talið slíkt hugarfar fordæmanlegt og jafnvel svívirðilegt. Nú má um það deila, hvað frelsið getur þrifizt án takmarkana. Skyldur og réttindi þurfa nefnilega að haldast í hendur. En um hitt verður ekki deilt, að verðstöðvunarfrv. það, sem hér liggur fyrir og hæstv. ríkisstj. ber fram, er hið ferlegasta haftafrv. Það er sótsvart haftafrv. Hugtakið „höft“ mun eiga rætur sínar að rekja til þess, að höft voru notuð til að hindra rásgjarnar skepnur. Áður en girðingar komu almennt til sögunnar, heftu menn hesta sína á framfótum, til þess að þeir hefðu minni yfirferð í haga. Þetta þurfti ekki að fara illa með hestana. Þeir lærðu að hreyfa sig í haftinu og þrifust vel þrátt fyrir það. En til er sú sögn um einn þjóðkunnan mann, Leirulækjar-Fúsa, að hann hefti hest sinn bæði á framfótum og afturfótum, og þá fór nú verr með blessaða skepnuna, eins og gefur að skilja. Var þvílík hefting síðan kölluð Fúsa-hefting. Frv. hæstv. ríkisstj. um verðstöðvun er með einkennum tilburða til slíkrar heftingar, auðvitað sem eins konar neyðarráðstöfun. Svona aðþrengda telur nú hæstv. ríkisstj. sig og fátt um fína kosti. Ég er þess samt fullviss, að ef stjórnarandstaðan hefði nú á þessum skammdegisdögum borið fram vantraust á ríkisstj., mundi hún og lið hennar hafa fellt það einróma. En frv. um verðstöðvunina og allt, sem við það hangir, er í eðli sínu vantraust á stjórnina og þá stefnu, sem hún hefur talið sig fylgja. Sumir segja, að frv. eigi að vera kosningabrella, auðvitað léleg kosningabrella. En þó að það eigi að vera kosningabrella, er það efnislega vantraust. Það er efnislega vantraust, sem stjórnin hefur borið fram á sjálfa sig, og ég hef á vissan hátt gaman af að sjá hana og lið hennar samþykkja það vantraust einróma. Það er fyrir þessa menn kaldhæðnisskopleikur örlaganna, en verðskuldaður er hann að mínu áliti eftir atvikum.