17.12.1966
Efri deild: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

74. mál, verðstöðvun

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í hinni löngu ræðu hv. 6. þm. Sunnl. heyrði ég í raun og veru ekki annað, sem ég þyrfti að svara, en hann spurði um það, hvernig stæði á því, að ekki væri búið að setja verðtryggingu samkv. verðtryggingarfrv., sem hér var samþ. í fyrra og voru heimildarlög. Það var alltaf ráðgert, að undirbúningur þess máls hlyti að taka töluverðan tíma. Það mál hefur verið til athugunar hjú réttum aðilum, og um það verða teknar ákvarðanir, jafnskjótt og þeim athugunum er lokið. Að öðru leyti ræddi þessi hv. þm. mörg mál, sem eru þaulrædd og verða rædd á næstu mánuðum, og skal ég ekki tefja þingheim nú á því að rekja þá sögu.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. hélt hér að mörgu leyti eftirtektarverða ræðu, þar sem ýmis atriði komu fram, sem íhugunarverð eru. Ég vil segja út af því, sem hann sagði um ofvöxt í verzluninni, að þetta er auðvitað umdeilanlegt mál eins og margt fleira í þjóðfélaginu. En það er eitt atriði, sem hann gáir ekki að í sínum fullyrðingum og útreikningum öllum, og það er, hversu raunverulegar þjóðartekjur hafa aukizt á þessu síðasta tímabili. Það má segja, að samkv. skýrslum Hagráðs hafa raunverulegar þjóðartekjur á tímabilinu frá 1960–1965 aukizt um 44%, það er óhætt að segja frá 1958 þangað til núna alltaf vafalaust í kringum 50% í raunverulegum verðmætum. Það er rétt, sem hv. þm. sagði og kom inn á í öðru sambandi, að þetta er aukning, sem fengizt hefur, án þess að verulega mannaflaaukningu hafi þurft til þessara miklu tekna. Annars vegar skiptir þar mestu stóraukinn afli og hins vegar hækkað verðlag. Nú er það gefinn hlutur, að þessi mikla tekjuaukning kemur fram í aukinni eftirspurn eftir vörum, sem verzlunarstéttin og viðskiptaaðilar verða að annast. Þess vegna liggur í augum uppi, að þegar af þeirri ástæðu er eðlilegt, að hlutfallsleg aukning hafi orðið í þeirri stétt og fjármagnsaukning með ýmsu móti. Þetta er eitt þeirra atriða, sem tillit verður að taka til, en hv. þm. gersamlega sleppti í sínum athugunum.

Hann var hér með útreikninga varðandi tekjuaukningu stéttarinnar og sýndi fram á, að vegna aukningar á innflutningi hlyti hún að vera mjög mikil. En hv. þm. hafði sjálfur sanngirni til þess að segja, að þeir útreikningar þyrftu endurskoðunar við, það væri eðlilegt, að þeir væru endurskoðaðir, og taldi einmitt sérstaka nauðsyn til þess, að rannsókn á þessum efnum færi fram, til þess að hægt væri að endurskoða þá grg., sem hann las hér upp, og hann sjálfur auðvitað játaði þar með að er meira og minna byggð á ágizkunum og þess vegna hans hugmynd, sem getur verið meira eða minna rétt, en styðst ekki nema að litlu leyti við staðreyndir. En ég tek fyllilega undir það með hv. þm., að það er höfuðnauðsyn varðandi meðferð allra þessara mála, að menn hafi ákveðnar staðreyndir, ákveðin gögn, sem hægt sé að treysta, til þess að ekki þurfi ætíð að vera deila um það, sem á að vera í augum uppi og á verður að byggja. Það er alveg nóg að deila um, hvernig á að skipta þjóðartekjum, hvaða ráð séu vænlegust til þess að auka þjóðartekjur og annað slíkt, þó að gögn séu fyrir hendi, þau sem hann var hér að óska eftir og mjög hefur miðað í áttina á seinni árum að afla, m.a. fyrir atbeina þessa hv. þm., fyrir samstarf hans við ríkisvaldið og ýmissa fleiri aðila, sem gera sér þetta ljóst. Þetta er auðvitað höfuðnauðsyn, að menn átti sig á þessu og að þessu sé stefnt. Um þetta erum við sammála.

Hv. þm. sagði hins vegar annað, sem ekki er rétt, og það er, að þegar þetta frv. var borið fram, hafi fyrst og fremst verið byggt á lækkun síldarafurðanna. Ég tók þvert á móti skýrt fram við 1. umr. málsins í Nd. og ítrekaði síðan aftur, að það er fyrst og fremst staða hraðfrystihúsanna og verðið á afurðum þeirra, sem hér skiptir máli. Örðugleikinn í stjórn efnahagsmála Íslendinga sést hins vegar glögglega á þessu, að þegar við erum að tala um mélið við 1. umr., er verð á síldarlýsi milli 50 og 53 pund. Síðan, þegar málið er til 3. umr. í Nd., er það 65 pund. Og jafnglöggur, — og ég treysti því, að hv. þm. skoði það ekki eins og skop, — áreiðanlegur þm. eins og hv. 5. þm. Austf. sagði þá, að það væri líklegt, að síldarlýsið mundi hækka enn þá meira en í 65 pund. Nú er það að fróðra manna sögn komið niður í 56 pund aftur á örfáum dögum. Slíkar sveiflur eru erfiðar og skapa öllum mikil vandræði.

Einkanlega var það þó eitt atriði, sem er nauðsynlegt að upplýsa vegna þess, sem hv. þm. sagði, og það var varðandi nýjan vísitölugrundvöll, sem miðaður væri við nútíma neyzluvenjur. Hann sagði alveg réttilega, að það væri nauðsynlegt, að slíkur grundvöllur væri samningsmál milli vinnuveitenda, verkalýðs og eftir atvikum ríkisvaldsins. Ég er því sammála, að það væri fésinna af ríkisvaldinu að ætla að lögbjóða nýjan grundvöll í þessu eða nýja mælistiku, hvað sem við viljum það kalla, án samþykkis réttra aðila, og einmitt miðað við það var það, sem við snemma á þessu ári, eftir að nýr grundvöllur hafði verið reiknaður út, leituðum til aðila, bæði verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda, og fórum þess á leit, að upp væri tekinn nýr grundvöllur miðaður við nútíma neyzluvenjur. Það hefur ekki enn fengizt svar, — ég hygg frá hvorugum þessara aðila, — a.m.k. ekki frá verkalýðshreyfingunni um það, hvort hún teldi þennan nýja grundvöll vera aðgengilegan. Ég tel það mjög eðlilegt, að þetta þurfi athugunar við og rannsóknar hjá verkalýðshreyfingunni og hennar fulltrúum, en það verður að liggja alveg ljóst fyrir, að hér hefur fyrst og fremst staðið á þessum aðilum, en ekki ríkisstj. eða hennar umboðsmönnum. Við hefðum þvert á móti óskað eftir því, að hér væri nýr háttur upp tekinn.

Það eru svo fleiri atriði, sem ég mundi víkja að, ef nægur tími væri til, í ræðu hv. þm., en ég skal láta það vera nú, enda tekur því ekki að vera að ítreka stöðugt það, sem áður hefur verið sagt. Okkar meginsjónarmið liggja ljóst fyrir, og það skýrir málin ekkert, þó að menn séu að karpa um það, sem vitað er um að við höfum ólíkar skoðanir á.

Um ræðu míns ágæta vinar og velunnara, hv. 1. þm. Norðurl. e., þá var hún, eins og vænta mátti, vel samin hjá þeim orðhaga manni. Ég veit ekki, hvort honum hefur tekizt svo til að þessu sinni, — það mun reynslan sýna, — að hann þurfi að eyða mörgum árum til þess að eyða áhrifunum af sínum högu orðum. En það hefur komið fyrir áður. Látum það eiga sig, það kemur kannske í ljós, áður en yfir lýkur.

Það er auðvitað rétt, að hér er um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, eins konar neyðarráðstöfun, það er rétt, vegna þess sérstaka ástands, sem skapazt hefur af þeim ástæðum, sem ég hef áður greint og skal ekki fara að rekja hér, en það er svo í öllum þjóðfélögum, að ef þau atvik væru fyrir hendi varðandi efnivöruöflun og verðfall á afurðum, sem hér eru, þá mundi það þykja alvarlegt ástand og efni til sérstakra ráðstafana. Hitt er svo einnig óumdeilt, að verðþenslan, verðbólgan hefur skapað og skapar vandamál, sem hins vegar hafa þó, sem betur fer, ekki hindrað, að íslenzkir atvinnuvegir standa nú á tryggara grundvelli en nokkru sinni áður, almenningur er betur efnum búinn, hefur meiri tekjum að eyða en nokkru sinni fyrr, hér hefur orðið örari og stöðugri framþróun á undanförnum árum en nokkru sinni fyrr. Þegar nokkurn voða ber að höndum, sem einnig getur hent þá, sem bezt eru stæðir, er það hygginna manna háttur að fara varlega að, á meðan svo stendur, stöðva framganginn, þensluna, hvernig menn vilja orða það, þangað til voðinn er hjá liðinn. Ég veit, að jafnlífsreyndur, orðspakur og hygginn maður eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. áttar sig á þessu, þegar hann skoðar það betur.

Ég skil það út af fyrir sig, að hann sem sveitarstjórnarmaður óski eftir því, að samráð hefðu verið höfð við samtök sveitarfélaganna um þetta mál. Það má vel vera, að þar hafi misgáningur átt sér stað. Ég skal þá fúslega taka þá sök á mig og ekki vera að velta henni yfir á aðra. Hitt er annað mál, að hér er um alveg ljóst ákvörðunaratriði að ræða. Þess var ekki að vænta, að sveitarfélögin féllust út af fyrir sig á eða yrðu því meðmælt, að ráðin yrðu af þeim tekin. Það lá alveg í augum uppi, að aukið eftirlit hlýtur að sæta lítilli hrifningu þeirra hálfu. Hins vegar er það ekki einungis það, að nú stendur að mínu viti sérstaklega á vegna þess ástands, sem er í efnahagsmálum af þeim sökum, sem ég hef greint, — mínir andstæðingar hafa ú því aðrar skoðanir og skýringar, það vitum við, — en hér bætist það við, að með hinum miklu niðurgreiðslum, er ríkið nú að taka á sig mikil útgjöld, sem ella hefðu að verulegu leyti lent á sveitarfélögunum. Með niðurgreiðslunum og verðstöðvuninni er unnið að því að létta stórri byrði af sveitarfélögunum, og það er eðlilegt, að ríkið segi: Ef ég á að taka þessa byrði á mig, er eðlilegt, að ég vilji fylgjast með því, að aðrir aðilar geri ekki að engu það, sem verið er að reyna að gera, — við skulum tala varlega.

Ég vil aðeins skjóta því inn í hér, að það er ekki svo, að ég hafi lýst því yfir, að nýir skattar yrðu á lagðir, það er misskilningur. Ég hef sagt, að nýir skattar þyrftu ekki að verða vegna þeirra ákvarðana, sem þegar hafa verið teknar, en með því vil ég ekki binda mig varðandi áhrif af nýjum ákvörðunum. Hitt er einnig misskilningur, að ríkið sjái ekki fyrir útgjöldum seinni hluta ársins næsta, þessi lög eiga ekki að gilda nema til 31. okt., en ef það þykir eðlilegt að halda sams konar niðurgreiðslum til ársloka, hefur hæstv. fjmrh. lýst því yfir, að fé verði lagt til hlíðar af tekjuafgangi þessa árs, þannig að fjármagn til að standa undir því sé fyrir höndum.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði, að það þyrfti að stemma á að ósi, en verðbólgustraumnum yrði ekki eytt með þeim aðferðum, sem við höfum hér. Í versta tilfelli, skulum við segja, eins og orðheppinn maður sagði við mig, að það sé verið að veita straumnum í hina leiðina, þannig að hún verði atvinnulífinu ekki til tjóns. Látum það eiga sig. En að lokum vil ég lýsa mikilli undrun minni yfir því, ef hv. 1. þm. Norðurl. e. og hans flokksbræður telja þetta frv. vera vantraust á ríkisstj. Af hverju ætla þeir þá ekki að greiða atkv. með vantraustinu?