06.12.1966
Neðri deild: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

83. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt og kemur fram í grg. frv., hefur það nú um langt árabil verið föst regla, að þing kæmi saman fyrri hlutann í október, og miðað við þjóðhætti nú á dögum mundi það vera frágangssök að láta reglulegt þing koma saman í byrjun febrúar eða um miðjan febrúar, eins og áður var ætlazt til, og ljúka samningu fjárl. þannig að vori til. Þetta á ekki lengur við, reynslan hefur alveg skorið úr um það. Enn þá stendur hins vegar hinn gamli tími í stjórnarskránni, sem hefur orðið til þess, að á hverju ári hefur þurft að bera fram frv. um breytingu við þetta. Þetta hefur í raun og veru tekið stuttan tíma, verið formlegt mál, en þó er ástæðulaust að vera með slíka lagasetningu á hverju ári. Ég sé engin rök mæla með því. Hitt játa ég, að þetta er ekki mikilsvert mál, en vinnusparnaður, það sem það nær.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn., til þess að menn geti þar athugað það. Venjan er sú, að þessi frv., sem hafa verið miðuð við eitt ár í senn, hafa gengið nefndarlaust gegnum þingið oftast nær, en þar sem hér er ætlazt til, að breytt sé til frambúðar, þykir mér rétt, að frv. fari til nefndar.